Olíuverð, sápuklúlur – Beint í augu vesturlanda

Grein/Linkur:  Sápukúlur í eyðimörkinni

Höfundur:  Ketill Sigurjónsson

Heimild:  Orkubloggið

.

.

Sápukúlur í eyðimörkinni

Ali al-Naimi_8

Ali al-Naimi

Fundurinn í Jeddha fólst í því að Sádarnir blésu upp stóra og flotta sápukúlu. Sápukúlu sem fjölmiðlatuskurnar gleypa gagnrýnislaust, þrátt fyrir óbragðið. Sápukúlu sem mun springa beint í augun á Vesturlöndum. Og þá getur svíðið bæði fljótt og mikið!

Já – er ekki nánast skylda að færsla dagsins fjalli um olíufundinn stóra í Jeddah, sem haldinn var  um helgina? Það eru margar skemmtilegar fréttir í dag um þennan fund. Td. á Visir.is: „Sádí Arabía og fleiri OPEC ríki ætla að auka olíuframleiðslu til að mæta eftirspurn… Sádí Arabía mun auka framleiðslu um 9,7 milljónir tunnur á dag í júlí. “ 

Þetta er pínu vandræðaleg frétt hjá Vísi. Ef Sádarnir myndu ætla að auka framleiðsluna um 9,7 milljón tunnur á dag væri það nett 105% aukning! En Vísismenn hafa líklega lent í vandræðum með að þýða fréttaskeytið. Og það sem er kannski enn vandræðalegra, er að í annarri frétt á visir.is um fundinn í Jeddah er sama vitleysan aftur: „Sádí Arabar lýstu því yfir fyrir skömmu að þeir hefðu áhyggjur af þróuninni og því ákveðið að auka framleiðslu sína um níu komma sjö milljón tunnur á dag“.

Hið sanna  í málinu er eilítið öðruvísi. Sádarnir ætla nú hugsanlega að auka framleiðsluna pínu pons. Kannski svona 200-300.000 tunnur. Og þar með framleiða samtals 9,7 milljón tunnur daglega. Það er EF þeir sannfærast um að framboðið sé ekki að anna eftirspurn. Allt mjög loðið.

Sjálfir segja þeir verðhækkanirnar fyrst og fremst að rekja til spákaupmennsku. Framboðið anni í reynd eftirspurninni. Og ef þeir trúa þessu sjálfir, sem þeir eru að segja, er eðlilega ekki spennandi í þeirra augum að dæla pening í ný olíusvæði og hugsanlega valda offramboði.

En hættum þessum hártogunum og fýlupokastælum. Og spáum í staðinn aðeins i það hvaða framleiðslumarkmið Sádarnir hafa – og hvað þeir hugsanlega munu geta framleitt. Flestir æðstu prestar í olíubransanum telja, að ef Sádarnir setja allt á fullt i olíuiðnaðinum hjá sér, geti þeir mögulega aukið framleiðsluna um allt að 1 milljón tunnur á frekar skömmum tíma. Svona max 11 milljón tunnur eða svo. En það er líka alkunna að framleiðslumarkmið Saudi Arabíu eru 12 milljón tunnur á dag, ekki síðar en á næsta ári (2009). Það þarf sem sagt mikið meiri pening í olíuiðnaðinn til að geta náð framleiðslumarkmiði næsta árs.

Ali al-Naimi_6

Ali al-Naimi

Stóru tíðindin af fundi helgarinnar eru þau, að nú er farið að tala um að Sádarnir hyggist setja stefnuna á allt að 12,5 milljón tunnur fyrir árslok 2009. Og hyggist fara af stað með stórfelldar nýjar fjárfestingar, sem muni skila heildarframleiðslu upp á allt að 13-15 milljón tunnur daglega innan tíu ára.

En þetta er ennþá bara orðrómur á markaðnum. Í annan stað, eins og Jón Baldvin sagði gjarnan og tók um löngutöng, er allsendis óvíst að Sádarnir geti fundið svo mikla olíu í víðbót. Í þriðja lagi eykst olíunotkunin a.m.k. um 800.000 tunnur pr. dag á ári hverju og jafnvel allt að tvöfalt meira en það þegar efnahagsvöxturinn er á góðu blússi.

Þetta þýðir einfaldlega að innan 10 ára þarf olíuframleiðslan að hafa aukist í a.m.k. 94 milljón tunnur pr. dag (úr núverandi 86 milljón tunnum). Þetta er miðað við lægstu spár! Sem er 1% aukning á ári. Ég myndi frekar veðja á að veruleikinn þýði að olíunotkunin aukist að meðaltali um ekki minna en 1,5% á ári næsta áratuginn.

Ali al-Naimi_9

Ali al-Naimi

M.ö.o. – eins og sagði hér í upphafi: Fundurinn í Jeddha fólst í því að Sádarnir blésu upp stóra og flotta sápukúlu. Sápukúlu sem fjölmiðlarnir gleypa þrátt fyrir óbragðið. Sápukúlu sem springur beint í augun á Vesturlöndum.

Ekki furða þótt olíumálaráðherra Sádanna, vinur minn hann Ali al-Naimi, klóri sér svolítið í höfðinu yfir þvi hvað það er auðvelt að leika sér með Vesturlönd. Og brosi svo út að eyrum. Alltaf flottur.

Fleira áhugavert: