Hreinlætistæki – Ryðfrítt stál
Grein/Linkur: Hreinlætistæki úr ryðfríu stáli
Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson
.
.
Desember 1994
Hreinlætistæki úr ryðfríu stáli
Maðurinn er í eðli sínu íhaldssamur. Við erum ekki að tala um pólitik heldur lífsstíl. Þetta á ekki síst við hús og hýbýli eða flest það sem í kringum okkur er. Tökum hreinlætistæki sem dæmi. Þau kunna að breytast lítilsháttar í útliti í gegnum tíðina, en þegar grannt er skoðað kemur í ljós að breytingar eru sáralitlar. Baðkerið er, í flestum tilfellum, með sama formi og það hefur haft síðustu áratugi. Eina breytingin er að nú eru þau formuð úr þunnu stáli en áður voru þau úr steypujárni; þung og traustvekjandi. Þessi þróun helgast af fjárhagslegum forsendum, hér er ekki um tæknilega framför að ræða. Einu breytingarnar á salernisskálum eru tvær; skolkassinn er ekki lengur hengdur upp á vegg heldur sambyggður skálinni og vegghengda salernið er tvímælalaus framför. Ekki síst vegna þess hve auðveldara er að þrífa í kringum það. Handlaugin hefur lítið breyst nema ef vera skyldi að að fætur eru að hverfa og handlaugar felldar í borð verða algengari, Hvort tveggja framför.
Efnisval
Það er nánast ekki um neitt efnisval að ræða. Postulín er allsráðandi, eða því sem næst í salerni og handlaugar. Að sjálfsögðu vegna þess að annað betra efni hefur ekki rutt því úr vegi.
Á síðustu árum hafa komið á markaðinn hreinlætistæki úr plasti, einkum akryl. Það efni á þó langt í land með að verða eins slitsterkt og postulín og verður það vísast aldrei. En áferð getur verið falleg og hægt er að framkalla ýmis blæbrigði í lit.
Sú var tíðin að eldhúsvaskar voru undantekningalítið úr steypujárni, emaljeraðir sem þá var kallað en heitir víst smelti í dag. En þeir þekkjast tæpast lengur; ryðfrítt stál er alsráðandi efni í eldhúsvöskum hvort sem er á einkaheimilum eða stóreldhúsum.
Vandamál á skemmtistöðum
Þeir sem reka skemmtistaði vita best hvernig umgengi er þar um salerni. Vægast sagt hörmuleg oft á tíðum enda gestir misjafnlega klárir í kolli. Það er nú einu sinni svo að þó postulínið sé sterkt efni á sinn hátt er það brothætt. Ekki nóg með það; þegar hlutir úr postulíni brotna eru þeir hættulegir. Af því hafa hlotist slys og kostnaður vegna brotinna hreinlætistækja á skemmtistöðum og öðrum opinberum stöðum getur orðið umtalsverður.
En þarna hefur orðið þróun í efnisvali á síðustu árum sem er allrar athygli verð. Hreinlætistæki fyrir opinbera staði úr ryðfríu stáli eru að ryðja sér til rúms. Ekki hefur þessi þróun náð hingað út í Atlantsála svo neinu nemi, en á því kann að verða breyting í náinni framtíð.
Kostir tækja úr ryðfríu stáli eru þó nokkrir. Miklu minni hætta á skemmmdum, slysahætta minni og þrif auðveld.
Form og fegurð
Það sem hleypt hefur nýju lífi í þróun hreinlætistækja úr ryðfríu stáli er að meira hefur verið lagt upp úr hönnun en fyrr og tæknilegar lausnir hafa verið bættar. Hönnuðir og arkitektar eru að uppgötva nýja möguleika ryðfrís stáls. Framleiðendur bjóða í dag heildarlausnir á salernum skemmtistaða, opinberra bygginga og vinnustaða. Þróun tækja fyrir heimili er hægari.
Það líður varla svo vika að ekki sé opnað nýtt veitingahús hérlendis. Að vísu loka mörg þeirra fljótt aftur en það er önnur saga. Það hlýtur að koma að því að þessir bjartsýnismenn, sem eru í veitingabransanum, arkitektar þeirra og tæknilegir ráðgjafar fari að sjá kostina við tæki úr ryðfríu stáli. Sama hlýtur að gilda um alla þá sem hanna opinberar byggingar og atvinnuhúsnæði.