Vestmannaeyjabær – Vatnsveituna til sín
Grein/Linkur: HS Veitur hafa óskað eftir að Vestmannaeyjabær leysi til sín vatnsveituna í Eyjum
Höfundur: HS Veitur
.
.
Janúar 2024
HS Veitur hafa óskað eftir að Vestmannaeyjabær leysi til sín vatnsveituna í Eyjum
HS Veitur (áður Hitaveita Suðurnesja) hafa frá árinu 2002 rekið vatnsveituna í Vestmannaeyjum á grundvelli heimildar í lögum um vatnsveitur sveitarfélaga, en um er að ræða skylduverkefni Vestmannaeyjabæjar samkvæmt fyrrgreindum lögum. Er jafnframt fjallað um að það í lögunum að það sé forsenda samnings sveitarfélags að unnt sé að tryggja notendum vatn á viðráðanlegu verði.
Þær einstöku aðstæður eiga við í Vestmannaeyjum að flytja þarf vatn frá landi um neðansjávarlögn með verulegum tilkostnaði sem venjulegur rekstur vatnsveitunnar ber ekki. Skýrir þetta hversvegna Vestmannaeyjabær er eigandi neðansjávarlagnarinnar milli Landeyjasands og Vestmannaeyjabæjar og hlaut vegna uppbyggingu hennar ríkisstuðning árið 2009.
Samkvæmt samningi HS Veitna við bæjarfélagið reka HS Veitur neðansjávarlögnina í tengslum við vatnsveituna sem leigutaki og hafa fyrirfram greitt fyrir afnotin til ársins 2044, sem var áætlaður endingartími lagnarinnar.
Eftir að Huginn VE 55 olli stórtjóni á lögninni 17. nóvember sl. hafa HS Veitur unnið ötullega að því að tryggja að unnt sé að flytja vatn um hana til að fullnægja vatnsþörf í sveitarfélaginu. Mikilvægt er að ráðist sé í viðgerð á lögninni sem verður kostnaðarsöm en tekjur vatnsveitunnar munu ekki standa undir þeim kostnaði. Ekki liggur fyrir hvort bætur fáist vegna tjónsins. HS Veitur hafa ítrekað lagt áherslu á að Vestmannaeyjabær beri ábyrgð á lögninni sem eigandi og sé skylt að koma að greiðslu kostnaðar sem því fylgir að koma lögninni í nothæft ástand. Fyrir liggur óháð lögfræðileg álitsgerð sem unnin var fyrir innviðaráðuneytið þar sem komist er að sömu niðurstöðu.
Vestmannaeyjabær hefur ekki axlað þessa ábyrgð og vísað henni með öllu frá sér. Í ljósi afstöðu Vestmannaeyjabæjar er það mat HS Veitna, að rekstrarforsendur vatnsveitunnar í Vestmannaeyjum séu á ný brostnar og þar með samningar milli aðila um eignarhald vatnsveitunnar og leigu á neðansjávarlögn því tengdu. Hafa HS Veitur vegna fyrrgreindra vanefnda og brostinna forsendna í rekstri vatnsveitunnar og samningum milli aðila óskað eftir að Vestmannaeyjabær leysi til sín vatnsveituna í Vestmannaeyjum í samræmi við 3. mgr. 4. gr. Laga nr. 32/2004. Þess er vænst að viðræður milli aðila hefjist fljótlega.
Auk vatnsveitu reka HS Veitur rafveitu og hitaveitu í Vestmannaeyjum. Framangreint hefur ekki áhrif á þann rekstur fyrirtækisins og ekki er gert ráð fyrir fækkun starfsmanna hjá HS Veitum vegna þessa.