Þrýstijafnari – Slaufuloki

Grein/Linkur:   Gamall og lítilsvirtur þjónn

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: 

.

.

Ágúst 2008

Gamall og lítilsvirtur þjónn

þrystijafnari

Þrýstijafnari eða slaufuloki Hefur þú kannað hvort slíkir gripir eru í þínu húsi? Þessi slaufuloki var með tærðan gorm, fullur af óhreinindum, allir hreyfanlegir hlutir fastir. Þetta má allt endurnýja en það er samt algengast að kaupa nýjan og fleygja þeim gamla, því miður.Hitametin voru að falla um mánaðamótin, sól skein í heiði og allir voru léttklæddir og vonandi glaðir í lund. Margir þeytast um landið með tjaldvagna eða hjólhýsi í eftirdragi, aðrir fara til útlanda til að leita frekari ævintýra og kannski enn þá meira sólskins.

Það má því ætla að það sé algjört stílbrot að ræða um hitakerfi húsa, nokkuð sem er okkur eflaust fjarlægast af öllu á þeim góðviðrisdögum sem komið hafa, það hefur ekki verið þörf fyrir neina upphitun sem er sjaldgæft hérlendis. Víðast hvar í nágrannalöndum okkar slökkva menn á öllum hitakerfum í maí og setja þau ekki í gang fyrr en í september, yfirleitt stöðvun í þrjá mánuði. Það skondna er að í sumum löndum eru menn svo fastir í farinu, og stöðva hitakerfin jafnvel í fjóra mánuði, að þó allir séu hríðskjálfandi þá verður reglan að blífa, það skal ekki hitað upp fyrr en almanakið segir til um.

En á okkar landi höfum við hitakerfin í gangi 365 daga ársins og ætlum síðan sjálfvirkum stýritækjum að kalla eftir hita eða loka fyrir hann eftir því hvernig vindar blása eða loftvogin fellur.

Já, það er þetta með sjálfvirku stýritækin. Þau eru á ofnunum og þau eru einnig á inntaki hitaveitunnar. Hérlendis er það regla, sem á sér fáar undantekningar, að þessum stýritækjum er ekkert sinnt, enn er landinn á því róli að þessi tæki þurfi ekkert viðhald, ekkert eftirlit. Reyndar hafa hérlendir lengst af litið svo á fasteignir í heild, menn fluttu inn og bjuggu svo glaðir við sitt árum saman eða jafnvel áratugum. En það er hægt og sígandi að síast inn í þjóðarsálina að hús eru ekki eilíf, sjálfsagt að mála enda eru skellóttir veggir ekki augnayndi. En þegar kemur að lagnakerfum er sinnuleysið enn við lýði.

Mjög algengur þjónn á hverju hitakerfi er þrýstijafnarinn og næstum eins algengur er slaufulokinn. Það má segja að lengst af hafi þessi tæki frá Danfoss verið allsráðandi og þessir tveir ventlar, sem áður voru nefndir, eru í raun einn og sami ventillinn, aðeins ventilhúsinu í miðjunni er snúið við allt eftir hvor virknin á að gilda. Þrýstijafnarinn er á inntakinu og lækkar þrýstinginn á kerfinu, það er hagkvæmast og öruggast að hafa sem minnstan mun á innrennslis- og útrennslisþrýstingi. Ef hann er of mikill má búast við að það heyrist rennslishljóð í hitakerfinu og hann getur jafnvel orðið til þess að sjálfvirkir ofnkranar vinna illa. En slaufulokinn lítur alveg eins út og er á hinum enda hitakerfisins, á útrennslinu.

En nú er kominn ágúst, vissulega hásumar enn. Samt er það óumflýjanlegt að eftir ágúst komi september og síðan október og þá fer að kólna.

Hvernig skyldi ástandið á þrýstijafnaranum eða slaufulokanum vera í þínu húsi? Hefur ástand þeirra nokkurn tíma verið kannað þau tíu, tuttugu eða jafnvel þrjátíu ár sem liðin eru síðan þú fluttir inn í þitt hús? Það er nú einu sinni svo að það er miklu skynsamlegra að byrgja brunninn áður en barnið dettur í hann, það er miklu skynsamlegra að láta yfirfara stjórntæki sem þessi áður en þörfin knýr á dyr og hitakerfið þarf að fara að skila sinni vinnu í alvöru.

Þarna er svið sem húseigendur og stétt pípulagningamanna ættu að vinna að í sameiningu. Það ætti að koma á kerfi þar sem húseigandi getur samið við iðnaðarmann um skipulegt eftirlit, slíkt kerfi er ekki til í dag.

Það er orðin algengasta verklagið þegar þrýstijafnarar eða slaufulokar hætta að virka að skipta hreinlega um, setja upp nýja og fleygja þeim sem fyrir voru. Þetta er auðvitað ekkert nema skýrt dæmi um sóun nútímans. Það gæti verið verðugt verkefni fyrir framsækinn pípulagningameistara að taka til sín nokkra notaða þrýstijafnara, hreinsa þá og skipta um allar pakkningar og annað sem úr sér er gengið. Koma síðan á ákveðnum tíma, taka þá sem fyrir eru og setja aðra endurbyggða í staðinn.

Þannig gæti þetta gengið koll af kolli öllum til þæginda og hagsældar.

Fleira áhugavert: