Vatnstjóni – Varnir, ástæður

Grein/Linkur:  Varnir gegn vatnstjóni

Höfundur:  Vís

Heimild:  

.

.

Varnir gegn vatnstjóni

Á hverj­um degi verða 20 vatns­tjón hér á landi og er kostnaður þeirra um þrír millj­arðar. Bara til VÍS ber­ast 5,5 vatns­tjónstil­kynn­ing­ar á hverj­um degi og má sjá hér að ofan hvernig tjón­in skipt­ast niður. Þótt marg­ir séu vel tryggðir fylg­ir mikið rask slík­um tjón­um og oft á tíðum get­ur verið ógjörn­ing­ur að bæta ómet­an­lega hluti sem skemm­ast.

Ástæður vatns­tjóna á heim­il­um geta verið mjög marg­ar. Allt frá mann­leg­um mis­tök­um eins og gleyma að skrúfa fyr­ir til að lagn­ir gefa sig. Dæmi um or­sak­ir vatnsleka geta verið:

  • Lagnir í útveggjum og gólfum leka. Ástæður þess geta verið að raki hefur komist að lögnunum og valdið ytri tæringu.
  • Innri tæring verður oft í eir og koparlögnum vegna efnasamsetningar vatns og einnig vegna spennu sem verður þegar mismunandi lagnaefnum er blandað saman.
  • Samskeyti gefa sig vegna óvandaðra vinnubragða við frágang lagna.
  • Ofnar fara að leka t.d. vegna tæringar.

Vert er að hafa í huga að vatns­tjón vegna slits eða skorts á viðhaldi eru ekki bætt og stór hluti vatns­tjóna verða vegna þess að rör ryðga í sund­ur.

Vatns­skynj­ar­ar hafa bjargað mörg­um frá stór­um vatns­tjón­um. Þá er gott að hafa á gólfi í þvotta­húsi, eld­húsi og baðher­bergi sér í lagi ef niður­fall er ekki til staðar í rým­inu. Skynj­ar­inn geng­ur fyr­ir raf­hlöðu og gef­ur frá sér há­vært hljóð þegar raki kemst und­ir hann. Eins senda margir skynjarar boð í síma eða eru tengdir vöktuðu ör­yggis­kerfi.

Sam­starfs­hóp­ur 11 fyr­ir­tækja, stofn­ana og fé­laga unnu fræðslu­efnið Varnir gegn vatnstjónum sem gott er að kynna sér.

Nauðsyn­legt er að til­kynna vatns­tjón eins fljótt og hægt er. Sér­fræðing­ar okk­ar í Neyðarþjón­ustu VÍS eru til­bú­inn að aðstoða í neyðar­til­fell­um all­an sól­ar­hring­inn í síma 560-5070 og sími Neyðarlín­unn­ar er 112.

.

.

Asa­hláka

Asa­hláka er aðstæður sem skap­ast iðulega á hverj­um vetri. Þá er hætta á vatns­tjón­um mik­il og nauðsyn­legt að all­ir séu meðvitaðir um þá hættu og bregðist við henni. Mest hætta er á að leki inn í kjall­ara og frá þökum og svöl­um.

Nauðsyn­legt er tryggja að vatn eigi ávallt greiða leið m.a. með því að:

  • Hreinsa frá öllum niðurföllum sem eru nærri húsi.
  • Hreinsa snjó frá anddyrum kjallara og niðurfalla þar.
  • Hreinsa frá rennum og niðurföllum þaka, sér í lagi flatra þaka. Það verður þó að gera með mikilli varúð og tryggja öryggi viðkomandi.
  • Moka rásir meðfram húsum til að vatn eigi greiða leið burt en safnaðist ekki í tjarnir. Oft bráðnar snjórinn fyrst upp við húsveggi og leitar þá inn í húsið eftir sprungum í veggjum ef það á ekki greiða leið burt.
  • Hreinsa allan snjó af svölum og tryggja að niðurfall virki. Ef svo er ekki er hægt að hella heitu vatni ofan í niðurfallið og strá salti í kringum það til að bræða snjóinn betur. Ef vatn safnast fyrir á svölum er hætta á að það fari inn með plötuskilum og leki síðan niður á næstu hæð. Slíkt tjón getur verið erfitt að laga því oft kemst talsvert vatn inn í sprunguna.

Ekki eru öll vatns­tjón bætt, til að mynda:

  • Vatns sem kemur inn frá þökum, þakrennum eða frárennslisleiðslum þeirra eða frá svölum.
  • Vatns sem þrýstist upp um frárennslislagnir nema ef leiðslan stíflast eða springur innan húss. Bæjarfélög eða rekstraraðilar fráveitukerfa verða ekki sjálfkrafa ábyrgir fyrir tjóni sem verður vegna þess að kerfið getur skyndilega ekki flutt allt það vatn sem að berst. Til að veitur verði bótaábyrgar þarf að liggja fyrir sök hjá þeim, þ.e. að einhverju þekktu viðhaldi hafi ekki verið sinnt, þekktar bilanir ekki verið lagfærðar eða mannleg mistök hafi orðið við rekstur veitunnar.

Snjór og grýlukerti

Jafn­framt er mik­il­vægt að átta sig á því þegar blotn­ar mikið í snjó eins og í asa­hláku þá verður mik­ill þungi í snjón­um. Við þær aðstæður geta þök og þak­kant­ar gefið sig ef snjór er ekki hreinsaður af þökum.

Lagn­ir

  • Ganga þarf sérstaklega vel frá slöngum og lögnum að og frá þvottavélum og uppþvottavélum og gæta þess að slöngur séu ekki trosnaðar eða skemmdar.
  • Endurnýja þarf pakkningar og síur reglulega, ekki sjaldnar en á 5 ára fresti.
  • Merki um ryð í lögnum getur verið þegar vatn verður brúnleitt ef það hefur ekki verið notað t.d. yfir helgi og breyting verður á bragði vatnsins.
  • Þegar farið er í frí er gott að loka fyrir vatn að uppþvotta- og þvottavélum.
  • Þar sem lagnir eru í óupphituðu rými, t.d. í bílskúrum eða geymslum, þarf að gæta þess að vatn frjósi ekki í lögnum sem leitt getur til þess að þær springa. Best er að hafa sírennsli í lögnum eða hita þær upp t.d. með hitaþræði. Ef það er ekki kostur þá þarf að tappa af vatnslögnum og setja frostlög í vatnslása.
  • Algengt er að vatnstjón verði þegar samskeyti lagna undir vaskaskáp gefa sig. Fylgjast þarf því náið með þeim og lagfæra ef einhver merki eru um hreyfingu á samskeytum.
  • Ef skipta þarf um lagnir er mikilvægt að kynna sér hvaða lagnaefni hentar best. Þar skiptir m.a. hiti og efnasamsetning vatns máli.

Vatns­inn­tak

  • Allir heimilismenn ættu að vita hvar inntak heita og kalda vatnsins er sama hvort búið er í einbýli eða í fjölbýli.
  • Nauðsynlegt er að merkja stofnkranann þar sem skrúfað er fyrir.
  • Hægt er að koma í veg fyrir stórtjón með því að skrúfa strax fyrir inntak vatnsins ef leki kemur fram.
  • Gott aðgengi þarf að vera að vatnsinntakinu.
  • Besti frágangur lagnagrindar er að hún sé í lokuðum skáp með innbyggðu niðurfalli.
  • Gólfniðurfall á að vera til staðar í rýminu þar sem vatnsinntakið og lagnagrindin er.
  • Yfirfara þarf lagnagrindina a.m.k. á 5 ára fresti meðal annars til að vera viss um að öryggisventill hennar virki en hann hefur þann tilgang að vernda lagnakerfið ef of mikill þrýstingur myndast.
  • Í nýbyggingum er skylt að hafa varmastilli á lagnagrind til að minnka líkur á bruna af völdum vatns. Varmastillir tryggir að neysluvatn sé ekki heitara en 60-65°C úr krana við vask. Hægt er að setja slíkan búnað í eldri hús með forhitara en þá hitar hann upp kalt vatn.

Niður­fall

  • Niðurföll utandyra þarf að hreinsa reglulega. Ef það er ekki gert er hætta á að niðurfallið stíflist og hætta á að flæði til dæmis inn af svölum og inn í kjallara. Sérstaklega þarf að huga að þeim þegar hláka er yfirvofandi eða ef mikið lauf er úti sem getur stíflað niðurföll.
  • Gólfniðurföll innandyra þarf að hreinsa að minnsta kosti einu sinni á ári. Þó svo að niðurfallið sé ekki neitt notað þá getur verið gegnumstreymi í gegnum það og óhreinindi safnast þar fyrir. Aðgengi að niðurfallinu þarf að vera gott og ekki neitt má liggja á gólfinu sem getur hindrað rennsli vatns að því.
  • Halda þarf vatnslásum og niðurföllum í sturtu, baði og vaski hreinu, þannig að vatn fari ekki að renna treglega.
  • Í tjónum viðskiptavina VÍS hefur reynslan sýnt að oft eru gólfniðurföll ekki lægsti punktur gólfsins. Mikilvægt er að ganga úr skugga um hvort svo sé og ef niðurfallið er ekki lægsti punktur að gera þá ráðstafanir eins og að setja upp vatnsskynjara og tryggja að þröskuldur sé vel vatnsheldur svo að vatnið renni ekki fram úr rýminu.

Raki

Gott loft í bygg­ing­um skipt­ir miklu máli uppá vellíðan fólks og gæði húsa. Við eyðum 90% af tíma okk­ar inn­an­dyra og hætta á að fá lungna­sjúk­dóma, sýk­ing­ar og ast­ma er 75% meiri en ella í hús­næði með raka­vanda. Út frá raka geta svepp­ir farið að vaxa en ein­kenni þeirra á heilsu fólks get­ur verið marg­vís­leg eins og sjá má á vef Eflu.

Til að koma í veg fyr­ir að myglu­svepp­ir mynd­ist þarf að huga að eft­ir­far­andi atriðum:

  • Fylgjast með rakamerkjum innandyra á veggjum og í lofti. Bólur í málningu, dökkir blettir, lykt og skordýr geta verið fyrirboði þess að rör hafi skemmst eða sprungið eða að raki sé að koma með öðrum hætti.
  • Huga að fúgum og kíttun í og við sturtu, baðkar og vaska og hafa niðurfall í þeim hrein.
  • Fylgjast með sprungum utan á húsi en leki og raki getur komið inn um þær líkt og meðfram gluggum.
  • Ef merki eru um leka er mikilvægt að stöðva hann strax.
  • Þurrka eða fjarlægja efni strax sem hefur blotnað við leka eða vatnstjón.
  • Halda loftraka innandyra 30-55%, ekki yfir 60%.
  • Hafa loftflæði stöðugt og loftskipti regluleg. Opna glugga og nota viftur.
  • Hafa útblástur þurrkara sem ekki er með rakaþéttni alltaf út úr húsnæðinu.
  • Fylgjast með því hvort rúður ,,gráta“.

Til að geta séð hvort myglu­svepp­ur sé til staðar get­ur þurft að rífa upp gól­f­efni, vegg­fóður, flís­ar eða lista en ein­kenni eru oft svart­leit­ir eða grá­leit­ir flet­ir og oft er af­ger­andi lykt sem fylg­ir þeim.

Snjór og grýlu­kerti

Mik­ill snjór á þökum húsa, snjó­hengj­ur og grýlu­kerti geta verið vara­söm þegar þau falla niður þar sem þau geta fallið á þá sem eru stadd­ir und­ir. Hættu­leg til­vik hafa orðið þegar börn hafa verið að leik á viðkom­andi stað og gang­andi ein­stak­ling­ar stadd­ir á gang­stétt­um þegar stór­ar snjó­hengj­ur og grýlu­kerti hafa fallið niður.

Hús­eig­andi ber ábyrgð á því að koma í veg fyr­ir þessa hættu með því að hreinsa grýlu­kerti og snjó­hengj­ur af húsi sínu en á háum hús­um get­ur þurft að fá lyftu­bíl til verks­ins eða a.m.k. afmarka hættusvæðið með borða. Til að minnka lík­ur á að grýlu­kerti mynd­ist og vatn frjósi í renn­um og niður­föll­um má benda á góða lausn sem er hita­streng­ur sem lagður er í renn­ur og niður­föll. Hann fer í gang við ákveðið hita­stig og ger­ir það að verk­um að vatnið frýs ekki í renn­unni og eyðir um 17 vött­um á hvern metri þegar hann er í gangi. Kostnaður við slíka hita­strengi er lít­il miðað við ef slys á fólki verður af völd­um grýlu­kerta og snjó­hengja.

Jafn­framt verður að muna að mik­ill snjór og snjó­hengj­ur geta sligað niður þök og þak­skyggni húsa. Þegar þær aðstæður eru get­ur þurft að moka snjó af þökum en þess verður þó að geta að það á ekki að gera ef það set­ur ein­stak­ling í hættu.

Tæki

  • Flest vatnstjóna sem verða út frá tækjum eru frá ofnum. Fylgjast þarf með hvort útfellingar séu á samskeytum og hvort ryðblettir séu komnir á ofninn. Það getur verið fyrirboði vatnstjóns.
  • Ef dropar frá blöndunartækjum getur það verið merki þess að þurfi að endurnýja þau.
  • Ef kaupa á ný blöndunartæki þarf að ganga úr skugga um að þau þoli þann þrýsting og hita sem er á vatninu á því veitusvæði sem verið er á.
  • Gætið varúðar þegar vatn er látið renna í baðkar eða vask. Aðeins stutt símtal getur orðið þess valdandi að vatnið fljóti yfir barmana.
  • Fylgist vel með vatni sem getur komið frá frystikistu eða ísskáp þegar þau eru affryst.
  • Forðast skal að hafa þvottavélar í gangi þegar enginn er heima eða láta þær vinna á nóttunni.
  • Ganga þarf sérstaklega vel frá slöngum og lögnum að og frá þvottavélum og uppþvottavélum og gæta þess að slöngur séu ekki trosnaðar eða skemmdar. Endurnýja þarf pakkningar a.m.k. á 5 ára fresti.
  • Gott er að loka fyrir vatn að þvotta- og uppþvottavélum þegar farið er í frí.
  • Vatnstjón vegna Amerískra eða tvöfaldra ísskápa eru nokkuð algeng. Vanda þarf til verks þegar ísskápurinn er tengdur og fylgjast vel með samskeytum á vatnslögninni og gæta þess að ekki sé mikil hreyfing á henni.

Fleira áhugavert: