Landsvirkjun – Mikilvægt fyrirtæki

Grein/Linkur: Landsvirkjun: Mikilvægasta fyrirtækið?

Höfundur: Sigurður Már Jónsson

Heimild: 

.

.

Mars 2023

Landsvirkjun: Mikilvægasta fyrirtækið?

Sigurður Már Jónsson

Er Landsvirkjun mikilvægasta fyrirtæki landsins? Jú, sjálfsagt má halda því fram en fyrirtækið er langstærsta orkufyrirtæki landsins og fær aðgang að helstu náttúruauðlindum okkar þegar kemur að fallvötnum og jarðhita. Saga félagsins er merkileg og hefur líklega öðru fremur mótað ferð okkar samfélags til sjálfbærs hagkerfis um leið og það hefur stuðlað að og byggt upp gríðarlega þekkingu í landinu eins og margoft hefur verið vikið að hér í pistlum. Þegar fyrsta stórvirkjunin var byggð við Búrfell fyrir ríflega 50 árum var engin þekking til í landinu þegar kom að því að virkja eða reka orkufyrirtæki. Síðan hefur verkfræðilegri þekkingu landsins fleygt fram og í dag hafa íslensk fyrirtæki verðmæta þekkingu á þessu sviði.

Í dag skiptir rekstur og afkoma landsmenn miklu. Hagnaður Lands­virkj­un­ar á nýliðnu ári nam 23 milljörðum króna og félagið hyggst greiða 20 milljarða í arð í ríkissjóð. Það kemur til viðbótar við 30 milljarða króna skattgreiðslur. Það sjá allir að þessi niðurstaða skiptir miklu og vænta má þess að fyrirtækið haldi áfram að skila slíkum upphæðum í okkar sameiginlegu sjóði. Farsæl uppbygging liðinna ára og traustur hópur viðskiptavina hefur skilað landsmönnum verðmætu tekjustreymi. Um leið hefur mikilvæg starfsemi eins og stóriðja náð hér fótfestu og veitir nú þúsundum manna örugga lífsafkomu.

Nýir orkukostir

landshusSú staða er nú uppi að það vantar orku og því mikilvægt að virkja áfram og finna nýja orkugjafa, ekki bara til að laða að erlenda kaupendur, þó þeir skipti miklu fyrir gjaldeyrisöflun þjóðarinnar, heldur ekki síður að geta selt innlendum kaupendum orku og geta stuðlað að farsælum orkuskiptum. Forstjóri Landsvirkjunar rakti nokkra orkukosti í ræðu sinni á ársþinginu sem eru nánast full rannsakaðir og hönnun langt komin. Mikilvægt er að geta unnið áfram að þeim verkefnum sem mörg hver byggjast á betri nýtingu raskaðra vinnslusvæða. Einnig er eðlilegt að Landsvirkjun reyni fyrir sér af alvöru með vindmyllur þó ráðlegt sé að fara varlega og örugglega í þeim efnum. Það má vel sjá fyrir sér að vindmyllur geti risið á þegar röskuðum svæðum, svo sem nálægt þéttbýlum.

En að mörgu er að hyggja hjá Landsvirkjun. Eins og bent var á hér í síðasta pistli skiptir litlu þó fyrirtækið geti kolefnisjafnað eigin starfsemi ef það getur ekki tryggt viðskiptavinum sínum um allt land græna orku á samkeppnishæfu verði. Sú staða sem víða er uppi hjá sjávarútvegsfyrirtækjum, að þau keyra stóran hluta starfsemi sinnar á dísilrafstöðum er óásættanleg. Landsvirkjun hlýtur að reyna að leysa þau mál fljótt og vel.

Orkustefna nútímans þarf að þjóna mörgum markmiðum. Það getur haft margvísleg vandamál í för með sér en kjarninn hlýtur að vera sá að tryggja efnahagslegt fullveldi. Hið sérstaka ástand á Vestfjörðum er til marks um þær ógöngur sem verndunarsinnar geta leitt okkur í. Þar hafa þeir leitt óheyrilegan kostnað yfir samfélagið um leið og hagfeldir og góðir virkjanakostir eru látnir óhreyfðir. Þar verða menn að hætta að elta umhverfisverndarsinna og hefjast handa við skynsamar og hagfeldar lausnir. Saga Teigsskógar sýnir að hjá því fólki er ekki að finna leiðsögn.

Fleira áhugavert: