Íslenskir lagnadagar – Því ekki
Grein/Linkur: Hvaða efni og lagnakerfi koma til greina?
Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson
.
.
Júlí 1995
Hvaða efni og lagnakerfi koma til greina?
Hvernig væri að gera „lagnadaga“ að árvissum atburði?, spyr Sigurður Grétar Guðmundsson . Þar gætu almenningur, húsbyggjendur og fagmenn um eina helgi séð allt það helzta, sem í boði er í lagnaefnum og lagnaaðferðum.
Nýlokið er samkeppni, sem Lagnafélag Íslands og tímaritið Arkitektúr og skipulag stóðu fyrir, en fleiri samtök studdu keppnina með því að tilnefna menn í dómnefnd og Samband tryggingafélaga veitti fé til verðlaunagjafa.
Samkeppnin fjallaði um hvernig lagnir og lagnaleiðir ættu að vera í húsum framtíðarinnar hérlendis, beinlínis með það sem aðalmarkmið að koma í veg fyrir ógnvænlega vatnsskaða, sem orðið hafa í fasteignum hérlendis og kostað húseigendur, tryggingafélög og þar með þjóðfélagið í heild, gífurlegar fjárhæðir.
Engin stórtíðindi urðu í samkeppninni og nýjar hugmyndir komu ekki fram utan ein; ný festing fyrir utanáliggjandi lagnir, hönnuður Pétur Lúthersson innanhússarkitekt.
En samkeppnin hafði samt talsvert gildi, aðallega það að þátttakendur drógu fram heildarlínur af lagnaaðferðum framtíðarinnar og þar er tvennt í brennidepli; utanáliggjandi lagnir úr léttari og snyrtilegri lagnaefnum annarsvegar og lagnir úr pexplasti, sem dregnar eru í annað rör, eða svokallað rör-í- rör kerfi.
Báðar þessar lagnaleiðir hafa það til síns ágætis að auðveldara er að endurbæta lagnir án þess að valda raski á öðrum hluta byggingar.
Hvert verður framhaldið?
En hér má ekki láta staðar numið og nú skal mana fyrrnefnda aðila, Lagnafélagið og tímaritið, til að snúa sér að framhaldinu og sofna ekki á verðinum. Ekki aðeins að mana þessa aðila, öðrum er málið ekki síður skylt og má þar nefna önnur samtök lagnamanna, innflytjendur og framleiðendur lagnaefnis, byggingayfirvöld með umhverfisráðuneyti og byggingafulltrúa fremsta, samtök arkitekta, samtök húseigenda, tryggingafélög og alla aðra, sem málið varðar.
Það er lýst efir annari samkeppni í framhaldi af hinni, samkeppni, sem gæti jafnframt verið sýning.
Þetta á að vera samkeppni um lagnaefni og lagnakerfi, þar sem saman er safnað öllum upplýsingum um hvað er í boði. Þetta verða hönnuðir, húsbyggjendur og iðnaðarmenn að fá víðtækar upplýsingar um, þeir eiga ekki að þurfa hver og einn, að leita og snapa eftir upplýsingum, þeir eiga kröfu á því að þeir sem framleiða og selja lagnaefni komi til þeirra með upplýsingar og þekkingu, það á ekki hver og einn að vera að pukrast í sínu horni.
Það er nóg komið af slíkum vinnubrögðum hérlendis í lagnamálum sem öðrum.
Lagnadagar og heildarlausn
Hvernig væri að gera „lagnadaga“ að árvissum atburði þar sem almenningur, húsbyggjendur og fagmenn gætu um eina helgi eða í nokkra daga komið og séð allt það helsta sem í boði er í lagnaefnum, lagnaðferðum, hverskonar tækjum og öllu öðru sem lagnamálum viðkemur. Þar gætu samtök lagnamanna kynnt sín mál, allir gætu kynnt þá þjónustu, sem þeir bjóða og þar er hið opinbera ekki undanskilið, síður en svo.
Sá sem ætlar að byggja sér hús fyrir sig og sína fjölskyldu, sá sem ætlar að byggja sér atvinnuhúsnæði, sá sem ætlar að byggja húsnæði til endursölu; allir þurfa þeir að fá upplýsingar um hvað í boði er til að árangur verði sem bestur, þeir eiga ekki alltaf að þurfa að þvælast úr einum stað í annan til að fá mismunandi glöggar upplýsingar og oft á tíðum laklega þjónustu.
Er ekki kominn tími til að leggja niður músarholusjónarmið og koma út í dagsljósið við hlið keppinauta?
Sá sem fylgist með framvindu lagnamála erlendis tekur fljótlega eftir því að fyrirtæki í framleiðslu og þjónustu keppast við að bjóða heildarlausnir og auka þrátt fyrir það sérhæfingu, einn býður hitakerfi með ofnhitakerfum, annar gólfhitakerfi, í báðum tilfellum heildarlausn. Einn býður lagnakerfi úr stáli til utanálagna, ekki aðeins rör heldur öll tengi, ventla o.s.frv. aðrir bjóða plaströrakerfi, sem ýmist eru rör-í-rör kerfi ásamt öllum tengjum og nauðsynlegum tengihlutum, aðrir plaströr ásamt tengjum sem ætluð eru fyrir samsuðu.
Þannig mætti lengi telja, en allar þessar aðferðir og lausnir þarf að kynna.
Því ekki „íslenska lagnadaga“ þar sem öllum upplýsingum er safnað saman á einn aðgengilegan stað og í framhaldi af því frekari kynning og námskeiðshald fyrir fagmenn.
Þeir þurfa flestir að setjast aftur á skólabekk.
Hvaða plastefni eru heppilegust í gólfhitalagnir?