Byggingareftirlit, Hammúrabí – Samræmt eftirlit

Grein/Linkur:  Hammúrabí mætti ekki

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild:  

.

Hammúrabí 6. konungur Babýlon Mesópótamíu, byggingafulltrúi 1792–1750 fyrir Krist

.

Nóvember 1995

Hammúrabí mætti ekki

Er ekki samræmt byggingaeftirlit á Íslandi? spyr Sigurður Grétar Guðmundsson. Bendir hann á að byggingafulltrúi í Hafnarfirði hafi samþykkt lagnir og gefið út vottorð en sami aðili í Reykjavík hafi neitað að skrifa upp á sams konar lagnir.

Það er ekki nýtt að sett séu lög og reglur um allt mögulegt undir sólinni, það eru líka sett lög um byggingar og lagnir. Sum lög eru ný af nálinni, en sagt er að Hammúrabí kóngur í Babýloníu fyrir nálægt fjögur þúsund árum, hafi sett fyrstu lög um byggingar, eins og um svo margt annað.

„Ef byggingameistari byggir hús fyrir annan mann og húsið hrynur og drepur eigandann, skal byggingameistarinn gjalda fyrir með lífi sínu.“

Þetta setti Hammúrabí í lög, en ekki nóg með það; ef sonur eigandans lét lífið, þegar húsið hrundi, var það sonur byggingameistarans, sem láta skyldi líf sitt, á sama hátt dóttir eða eiginkona. Þarna var farið eftir meginreglu refsiréttar þess tíma „auga fyrir auga, tönn fyrir tönn.“

Enginn er að biðja um að dustað sé rykið af þessum hátt í fjögur þúsund ára gömlu lögum, en eigi að síður komu menn saman fyrir skömmu í samkomusal ágætum í húsi iðnaðarins þar sem áður var Byggingaþjónustan og nefnist „Gullhamrar,“ þar var rætt um hvort „samræmt byggingaeftirlit væri allra hagur.“

Er það nokkur spurning, kann einhver að spyrja, er ekki byggingaeftirlit á Íslandi samræmt, gilda ekki sömu byggingalög og sama byggingareglugerð hvort sem er á Þórshöfn á Langanesi eða í sjálfri höfuðborginni, Reykjavík?

Jú, samkvæmt laganna bókstaf, en það er ekki víst að framkvæmd laganna sé hvarvetna sú sama og það þarf ekki að vera svo langt á milli tveggja staða, eins og þeirra fyrrnefndu, til að framkvæmdin sé mismunandi.

Tökum tvö dæmi; í Hafnarfirði er lagt hitakerfi í eldra hús, sem áður var hitað upp með rafmagnsþilofnum, kerfið lagt úr þunnveggja stálrörum frá sænsku Wirsbo verksmiðjunum með krómuðum tengjum.

Teikningar samþykktar af byggingafulltrúanum í Hafnarfirði og vottorð um lokaúttekt gefið, verkið fær síðan viðurkenningu Lagnafélags Íslands.

Á sama tíma og menn sitja á rökstólum í „Gullhömrum“ mætir deildarstjóri lagnadeildar byggingafulltrúaembættis í Reykjavík í ráðstefnuhúsið til að taka út hitalögn, sem lögð er vegna breytinga á 1. hæð, en hann neitar að taka út lögnina.

Hvers vegna?

Vegna þess að hann samþykkir ekki efnið, sem notað er í lögnina, en það er það sama og notað var í Hafnarfirði, fékk lokaúttekt þar og viðurkenningu.

Hvað er að gerast, er ekki samræmt byggingaeftirlit á Íslandi?

Annað dæmi; á Akureyri hefur verið notuð ný lagnatækni m. a. í heilt fjölbýlishús, svokallað rör-í- rör kerfi, en það er lögn úr pexplaströrum sem dregin eru inn í hlífðarrör. Sama tækni hefur verið notuð víðar, svo sem í Garðabæ og Kópavogi.

En innan borgarmarka Reykjavíkur hefur þessi tækni ekki verið leyfð.

Hvers vegna ekki, er ekki samræmt byggingaeftirlit á Íslandi?

Gilda ekki sömu byggingalög og sama byggingareglugerð alls staðar á landinu?

Merk ráðstefna

Það er ekki rúm til þess að gera ráðstefnunni að „Gullhömrum“ skil í þessum pistli, það verður svo sannarlega gert síðar, en um nokkur atriði voru flestir sammála, svo sem að efla verður gæðaeftirlit í byggingaiðnaði, ekki síst innra gæðaeftirlit hvers og eins, það getur ekkert komið í stað þess. Það verður að samræma byggingaeftirlit, þannig að allir sitji við sama borð hvar sem þeir búa á landinu, það verður að breyta lokaúttektum lagnakerfa á þann hátt að tryggt sé að þau virki og vinni eins og þeim er ætlað og ekki síst að endurbætur á vinnubrögðum og efnisvali til lagna verði til að stórlækka útgjöld vegna vatnsskaða af skemmdum lögnum.

Ráðstefnan var vel sótt, þar voru hönnuðir fjölmennir og margir byggingafulltrúar mættu, en þó var ekki hægt annað en taka eftir þeim sem ekki mættu; einn blikksmíðameistari mætti, aðeins fjórir pípulagningameistarar, Hammúrabí mætti ekki, var löglega forfallaður, ekki heldur byggingafulltrúinn í Reykjavík né nokkur frá hans embætti.

Fleira áhugavert: