Landsvirkjun+ON – Sameining, meiri virkjun
Grein/Linkur: Vill sameina Orkuveituna og Landsvirkjun
Höfundur: Morgunblaðið
.
.
Janúar 2024
Vill sameina Orkuveituna og Landsvirkjun
Eldur Ólafsson, forstjóri Amaroq Minerals telur að sameina þurfi Orkuveituna og Landsvirkjun til þess að gera fyrrnefnda fyrirtækinu kleift að virkja meira. Í óbreyttu ástandi hafi fyrirtækið ekki burði til þess.
Þetta kemur fram í ítarlegu viðtali í hlaðvarpsþættinum Þjóðmálum þar sem Gísli Freyr Valdórsson ræðir við Eld og Þórð Pálsson, forstöðumaður fjárfestinga hjá tryggingafélaginu Sjóvá.
„Lykilatriði sem ég tel að þurfi að gerast til þess að við getum farið að virkja meira er að Orka náttúrunnar, verði seld til Landsvirkjunar. Af því að þarna liggur stærsti skuldapakki Orkuveitunnar sem er með beina áhættu í álverði af því að þeir eru að nota stóran part af þessu rafmagni til að selja í álver,“ segir Eldur.
„Þeir hafa ekki getu út af Planinu og út af öllum vandamálum Orkuveitunnar til að viðhalda lögnum, holum, fjárfestingum og mögulega af hverju Bjarni talaði fyrir því að það þyrfti ekki að virkja meira, því það var einfaldlega ekki geta til þess.“
.
Gæti fengið bréf í Landsvirkjun í staðinn
Hann segir að öðru máli gegni um Landsvirkjun sem hafi burði í verkefni af þessu tagi. Þannig gæti Reykjavíkurborg selt Orkuveituna og mögulega fengið í skiptum fyrir hlutinn bréf í Landsvirkjun og kjölfarið arð út úr þeirri starfsemi.
„Ég held að það sé ótrúlega mikilvægt, því við þurfum getu, fjárfestingargetu, því Orkuveita Reykjavíkur á og hefur umráð yfir gríðarlega stórum jarðhitasvæðum og getur vaxið mjög vel en gerir það ekki með þessum eiganda sínum í dag. Fyrir borgina, hún myndi þá losa sig við 150 milljarða í skuldir þannig að ég held að þetta geti virkað nokkuð vel,“ útskýrir Eldur.
Viðhaldi ekki núverandi kerfum
Segir hann að Landsvirkjun hafi mikla getu til að ráðast í framkvæmdir.
HS Orka gæti gert slíkt hið sama en að fyrirtækið hafi fyrst og fremst lagt áherslu á að greiða út arð á síðustu árum. Hins vegar sé Orkuveitan ekki á þessum buxunum og sé ekki einu sinni að viðhalda núverandi kerfum með endurborunum og öðru í þeim dúr.
Áhugasvið Orkuveitunnar annað
Þórður Pálsson er ekki algjörlega sammála Eldi og segir ekki víst að Orkuveitan geti ekki fjárfest til orkuöflunar.
„Ég er ekki alveg viss um að það sé rétt hjá þér Orkuveitan geti ekki fjárfest. Ég held bara að áhugasvið hennar sé annað. Í fjárfestingaráætlun hennar þá var þetta Ljósleiðarinn og Carbfix sem þeir ætla að setja allt í. Og ef við horfum á Orkuveituna, hvers vegna hún hefur lent í vandræðum þá hefur þetta verið ljósleiðarar, rækjueldi, misheppnað hús og ég veit ekki hvað og hvað,“ segir Þórður
„Og þá er það auðvitað eins og þú nefndir áðan, ef þú telur þig vera með náttúrulega einokun og ætlar að regulera hana einhvern veginn þá verður þú líka að setja skýrar reglur um að fyrirtækið bara sinni hlutverki sínu og sé ekki fara í annað, að nýta einokunarhagnað eða einhverskonar aðstöðuhagnað í óskyld verkefni og jafnvel samkeppni við aðra aðila eins og Orkuveitan sannarlega gerði.“