Olía – Partíinu er lokið
Grein/Linkur: Olíu-Drake
Höfundur: Ketill Sigurjónsson
.
.
Júlí 2008
Olíu-Drake
Flest í viðskiptalífinu á sér upphaf og endi. Frétt Morgunblaðsins um að BP telji að olían verði búin eftir rétt rúm 40 ár er athyglisverð. Fréttin er auðvitað villandi – einungis er verið að tala um þekktar olíubirgðir. Til samanburðar má geta þess að 1980 var sambærileg tala 29 ár. M.ö.o. var þá vitað um olíubirgðir sem myndu líklega endast til 2009. Í dag er búið að brenna 80% af öllum þessum þekktum birgðum frá árinu 1980. En það er líka búið að finna miklu meira af olíu. Þannig að þrátt fyrir notkunina eru þekktar olíubirgðir í dag 70% meiri en voru 1980.
Kannski verður olían búin 2050. Ég myndi þó fremur veðja á að 2050 verði til birgðir sem endist til a.m.k. næstu aldamóta. Mest af þeim mun líklega finnast á Norðurslóðum, í efnahagslögsögu Rússlands, Noregs, Kanada og Grænlands. Ef framleiðsla Sádanna hefur toppað nú þegar, er hugsanlegt að eftir svona 20-30 ár fari að draga úr þýðingu olíunnar frá OPEC. En allt eru þetta auðvitað getgátur.
Annars er ástæða til að velta aðeins fyrir sér upphafi olíuvinnslu. Hana má rekja til Bandarikjamannsins Edwin Drake (1819-1880).
Um miðja 19. öld var orðið þekkt að olía gæti nýst sem eldsneyti á lampa. Eldsneytið nefndist kerosene (steinolía) og hafði áður verið unnið úr kolum. En nú höfðu menn fundið hagkvæma leið til að vinna þetta eldsneyti úr olíu. Og þar með varð olían að verðmæti.
Sumstaðar seitlaði olía upp úr jörðinni og þar var henni stundum safnað saman. Aftur á móti veltu framsýnir menn fyrir sér hvort ekki mætti ná olíunni upp í meira mæli, þar sem hún bersýnilega leyndist í eða undir jarðveginum. Slík vinnsla myndi mögulega skila verulegum arði, enda gæti olían að miklu leyti leyst hvallýsi af hólmi sem lampaeldsneyti. Borholur þekktust en þær fylltust jafnan aftur. Það var Drake sem byrjaði á því að setja pipur í borholurnar. Og sú aðferð er í raun enn grundvöllurinn í nútíma olíuborunum.
Seneca olíufélagið réð Drake og sendi til bæjarins Titusville i Pennsylvaníu til að reyna að finna olíu. Veturinn 1858-59 reyndi Drake hvaða hann gat að bora eftir olíunni og fóru bæjarbúar að kalla hann „brjálaða Drake“. Þar sem boranirnar gengu brösuglega skrúfaði Seneca fyrir fjármagn til Drake. Þá hafði hann fengið sem í dag samsvarar rúmum 40 þúsund USD.
Drake hélt þó ótrauður áfram sumarið 1859 ásamt nýjum aðstoðarmanni sínum, William H. Smith. Þeir Billy Smith byggðu borhús úr timbri og hugkvæmdist að setja rör í borholuna til að hún félli ekki saman. Og þann 28. ágúst 1859 fundu þeir félagarnir olíu á um 25 metra dýpi. Einfalt mál var að dæla olíunni upp og gaf holan um 20 tunnur á dag. Þar með hófst mikið olíuævintýri í Titusville og nágrenni. Sem stendur yfir enn þann dag í dag um allan heim.
Myndin hér til hliðar sýnir þá Drake og Billy Smith við fyrsta olíubrunninn í Titusville. Drake hefði líklega átt að verða ríkasti maður Bandaríkjanna. En hann kunni lítið á viðskipti og skráði aldrei einkaleyfi að olíubornum. Það þurfti annan mann til að gera sér alminnilegan pening úr bandarískri olíu. Sá nefndist John D. Rockefeller. Og um hann má lesa í færslunni „Ljóti kallinn“; http://askja.blog.is/blog/askja/entry/576949/
Já – sumir högnuðust gríðarlega á olíunni strax i árdaga olíuvinnslu. Drake aftur a móti tapaði öllu sparifé sínu á sveiflukenndum hlutabréfamarkaðnum. En Pennsylvanía varð fyrsta olíufylkið og 1873 ákvað fylkisstjórnin að styrkja Drake árlega um nokkra upphæð. Sem fyrr segir lést hann sjö árum síðar; 1880.
Svo skemmtilega vill til að upprunaleg ástæða fyrir olíuáhuga Orkubloggsins má etv. rekja til Drake og fyrstu olívinnslunnar.
Þegar ég var 9 ára gutti eignaðist ég nefnilega fyrstu Lukku-Láka bókina mína. Ég var þá nýfluttur til Danmerkur, hvar fjölskyldan bjó næsta árið. Þetta var í agúst 1975. Og útí „kiosken“ rak ég augun í spennandi teiknimyndasögu. Mamma lét undan rellinu og þar með eignaðist ég „I boretårnets skygge“. Þar sem segir frá ævintýrum Lucky Luke, eins og hann kallast í dönsku útgáfunni, með Drake ofursta og Billy Smith í bænum Titusville vestur i Ameríku. Bókina leit ég nánast á sem helgan grip – svo óskaplega skemmtileg fannst mér hún vera. Þetta var upphafið að nokkuð löngu og góðu sambandi mín og Lukku Láka. Og mín og olíunnar. En ennþá hef ég ekki hugmynd um af hverju Edwin Drake er jafnan titlaður ofursti eða „colonel“. Kannki var hann bara svona valdsmannslegur.