Bláa gullið – Dýrmætasta auðlindin

Grein/Linkur:  Bláa gullið

Höfundur:  Bára Huld Beck

Heimild:

.

.
Maí 2017
Uppsprettu lífsins tekið sem sjálfsögðum hlut

Vatn er það dýrmætasta sem fyrir finnst á jörðinni og því má segja að „blátt gull“ sé ekki rangnefni yfir vatnið. Íslendingar eru heppnir að hafa vatnsauðlind sem er eins sjálfbær og raun ber vitni en í síbreytilegum heimi er vert að staldra við og kanna hvort gera megi betur.

Fá lönd í heiminum geta stært sig af viðlíka vatni og Íslendingar. Regn fellur til jarðar, ár renna í sínum farvegum, fossar steypast fram af bergi og lífið nýtur góðs af. Þannig er auðvelt að hugsa um vatnsauðlindina sem óþrjótandi auðlind þar sem ekkert geti raskað því flæði sem fyrir er. En er einhver ástæða til að huga sérstaklega að vatninu og hvernig farið er með það á Íslandi? Svarið er margþætt og flóknara en virðist við fyrstu sýn því þrátt fyrir að neysluvatn sé með því betra í heiminum og miklar rigningar tryggi góða grunnvatnsstöðu þá er það ekki sjálfgefið. Sérstök vatnalög eru í gildi og reglugerðir en þó skortir að tryggja að reglum sé fylgt og hugsanlega eru skammtímasjónarmið tekin fram fyrir þau langtíma.

Hér á eftir verður farið yfir stöðu vatns á Íslandi, til dæmis hver grunnvatnsstaða sé og af hverju hún skipti máli. Gæði neysluvatns verða könnuð og hvað sé vel gert varðandi upplýsingaöflun og vatnsstjórnun. Einnig verður fjallað um náttúruverndarsjónarmið, sem og farið yfir frárennslismál en ljóst þykir að þau eru í ólestri á Íslandi. Athugað verður hvaða fleiri þættir en skólpmengun hafi áhrif á vatnavistkerfið, til að mynda ferðamennska, stóriðjur og ofanvatnsmengun. Að endingu verður fjallað um sérstök vatnalög og hugsanlega siðfræðilega vinkla sem kynnu að skipta máli.

Kafli 1

.

Íslensk heimili nota árlega að meðaltali fjögur til fimm tonn af heitu vatni á hvern fermetra. Um 90 prósent fara í húshitun en um 10 prósent í bað, sturtu, þrif, uppvask og almenna neyslu. Oft er miðað við að hver Íslendingur noti um 200 lítra af vatni á dag en samkvæmt nýrri rannsókn, sem er í vinnslu á vegum Veitna ohf., fyrirtækis sem sér um að veita rafmagni og heitu og köldu vatni á höfuðborgarsvæðinu og víðar, sýna fyrstu niðurstöður að líklega sé notkunin minni eða um 130 til 150 lítrar á dag. Til samanburðar má nefna að 60 lítrar af vatni eru notaðir í meðalsturtu sem tekur fimm mínútur. Samkvæmt svari við fyrirspurn til fyrirtækisins er vatnsforði vatnsbóla Veitna nægur og passað er sérstaklega upp á að auðlindin sé sjálfbær. Meðalvinnsla í Heiðmörk er um það bil 700 lítrar á sekúndu. Um helmingur þess vatns sem Veitur dreifa er nýttur í atvinnurekstri.

700lítrar á sekúndu – er meðalvinnsla vatns í Heiðmörk. Helmingur vatnsins er nýttur í atvinnurekstri

En að hverju ber að huga þegar fjallað er um stöðu vatns á Íslandi? Í fyrsta lagi er vert að kanna grunnvatnsstöðu á landinu og ekki síst af hverju hún er mikilvæg í þessu samhengi. Í öðru lagi er mikilvægt að kanna gæði neysluvatns og í þriðja lagi þarf að vera með gott eftirlit með hvers konar mengun sem kann að finnast. Eftirlit er töluvert á Íslandi, til dæmis á vegum Umhverfisstofnunar, heilbrigðiseftirlita sveitarfélaganna, Veðurstofunnar og fleiri stofnana. Vatnatilskipun Evrópusambandsins var innleidd árið 2008 þar sem helstu áhersluatriðin voru meðal annars að samþætta gögn, gera áætlanir vegna stjórnunar á sviði vatnafræða, vatna og vatnsfalla og að miðla gögnum til almennings. Árið 2011 var síðan rammatilskipun Evrópusambandsins um verndun vatns innleidd með nýjum vatnalögum sem farið verður í síðar í þessari umfjöllun. En hver er staða vatns á Íslandi í dag?

Nánast allt neysluvatn Íslendinga grunnvatn

Grunnvatn er gríðarlega mikilvægt fyrir líf í náttúru Íslands og fyrir daglegt líf fólks. Davíð Egilson, hópstjóri vatnarannsókna hjá Veðurstofu Íslands, segir að fyrir því séu fjórar meginástæður. Í fyrsta lagi beri að nefna drykkjarvatn í því samhengi. Drykkjarvatn Íslendinga sé að langstærstum hluta grunnvatn en slíkt vatn sé að mestu leyti úrkoma og leysingarvatn sem sigið hefur niður í jörðina. Jarðlögin sem það rennur um á leið sinni síi úr því óhreinindin og sé það því alla jafna ferskt og ómengað.

Hellisheiðarvirkjun nýtir heitt grunnvatn til orkuframleiðslu.

Í öðru lagi segir Davíð grunnvatnið skipta máli vegna orkunýtingar. Framleiðsla orku þurfi að uppfylla þarfir notenda. Rennsli drag- og jökuláa sé mjög breytilegt eftir árstíðum. Það sé mest á vorin og sumrin og oft sé lítið vatn á vetrum þegar mikil þörf er á raforku. Þess vegna þurfi að byggja uppistöðulón eins og til dæmis Hálslón til að miðla rennslinu. Grunnvatnið og lindirnar séu hins vegar stöðugar yfir árið. Þess vegna þurfi mun minna að miðla og hægt sé að nýta rennandi vatnið eins og það er. Í þriðja lagi segir hann að grunnvatn sé stundum eins konar orkuberi. Grunnvatni sé dælt upp við Svartsengi, Hellisheiðarvirkjun og Nesjavallavirkjun til að breyta sjóðandi gufu yfir í heitt vatn sem veitt er til neytenda. Í fjórða lagi, sem er afar mikilvægt fyrir mjög marga, snúist þetta um náttúruvernd vegna þess að lindasvæðin séu víða fallegustu svæðin á landinu, órofa tengd kyrrð og ósnortnu umhverfi.

Samkvæmt greinargerð um álagsþætti á grunnvatn sem unnin var á vegum Veðurstofu Íslands renna um 5.000 rúmmetrar af vatni á sekúndu af landinu og þar af um 1.000 rúmmetrar af grunnvatni. Stærsti hluti grunnvatnsins, eða um 600 rúmmetrar á sekúndu, kemur fram sem lindarvatn á hálendinu og sameinast jökul- og dragám þar. Afgangurinn, um 400 rúmmetrar á sekúndu, kemur fram í lindum á láglendinu.

Jöklarnir forðabú fyrir grunnvatn

Yngstu jarðlögin sem eru að mestu bundin við eldvirka beltið eru gropnust og þar á vatn auðveldara með að hripa niður og mynda grunnvatn en þar sem bergið er eldra og þéttara eins og á Aust- og Vestfjörðum og Mið-Norðurlandi. Grunnvatnsöflun á eldvirknibeltinu er því til þess að gera auðveld. Víða er hins vegar nokkrum vandkvæðum bundið að ná í lindarvatn á eldra berginu. Sums staðar er það þó hægt með því að leita í stórar jarðvegsskriður, áreyrar eða sprungur til að fá grunnvatn og í einstaka tilfelli þarf að nota yfirborðsvatn. Íslendingar eru afar vel settir þar sem 97 prósent af neysluvatni þeirra er grunnvatn.

Davíð segir að lega landsins skipti verulegu máli varðandi úrkomu og þar af leiðandi afrennsli. Mikinn raka reki yfir landið vegna þeirra tveggja sjávarstrauma sem liggja að landinu. Hann segir að jöklarnir séu eins konar forðabú fyrir afrennsli og þar með talið grunnvatn. Við hlýnandi loftslag minnki jöklar og tímabundin aukning verði á afrennsli meðan leysingin varir. Eftir það muni draga úr afrennsli af landinu.

Hann segir að forspá veðurfarslíkana bendi til þess að úrkoma verði um 6.000 rúmmetrar á sekúndu árið 2100 vegna loftlagsbreytinga. Jöklarnir muni bráðna meira og hlýrra verði í veðri. Hins vegar sé mun erfiðara að segja til um víðtækari áhrif eins og öfgar í veðurfari eða breytingu á sjávarstraumum sem gætu haft afgerandi áhrif á líf í landinu.

Tvö grunnvatnshlot metin í hættu

Grnnvatnshlotin undir Rosmhvalanesi og Tjörninni í Reykjavík eru metin í hættu á að standast ekki umhverfismarkmið um gott ástand.

Árið 2013 kom út Stöðuskýrsla vatns á Íslandi þar sem könnuð var mengun í íslenskum vötnum. Skýrslan er einn hluti innleiðingar vatnatilskipunar Evrópusambandsins og laga um stjórn vatnamála. Talað er um sérstök grunnvatnshlot en það er afmörkuð stjórnunareining fyrir grunnvatn samkvæmt lögum um stjórn vatnamála. Þar kemur fram að tvö grunnvatnshlot eru metin í hættu á að standast ekki umhverfismarkmið um gott ástand. Þau eru Rosmhvalanes á Suðurnesjum, stundum kallað Miðnes, og Tjörnin í Reykjavík.

Á Suðurnesjum hefur orðið mengun á grunnvatni vegna úrgangs og umsvifa á flugvellinum og ekki er búið að uppræta þá mengun enn þrátt fyrir að hún hafi minnkað sums staðar. Á mörgum stöðum á landinu ríkir óvissa varðandi mengun og stafar hún af margs konar ástæðum, svo sem vegna óhreinsaðs skólps, hugsanlegs leka mengunarefna, hættu á uppsöfnun efna vegna fiskeldis, efnamengunar vegna losunar affallsvatns frá jarðvarmavirkjunum eða þegar mæli- og rannsóknargögn vantar.

Neysluvatn lakara hjá minni veitum

Kristín Vala Ragnarsdóttir, prófessor í sjálfbærnivísindum við Háskóla Íslands, hefur undanfarin ár unnið í málum tengdum sjálfbærni en hún er menntuð í jarðefnafræði og jarðvísindum. Hún segir að staðan á Íslandi sé góð varðandi vatn því landsmenn séu heppnir að hér rignir og snjóar mikið þannig að á flestum stöðum á landinu sé vatn ekki beint vandamál. Hún nefnir sérstaklega Reykjavíkursvæðið þar sem fólk fær allt þetta mikla og góða vatn úr Bláfjöllunum yfir í Gvendarbrunna þar sem vatnið er tekið. Hún bendir á að drykkjarvatn á svæðinu sé því mjög gott.

Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaganna sjá um að mæla gæði neysluvatns á hverjum stað fyrir sig. Í svari við fyrirspurn til Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur kemur fram að í reglubundnu eftirliti séu tekin yfir 100 sýni úr vatnsbólum og dreifikerfinu sem síðan eru rannsökuð samkvæmt reglugerð um neysluvatn frá árinu 2001. Matvælastofnun sér um að safna upplýsingum saman um gæði neysluvatns en síðustu eftirlitsniðurstöður komu út í mars 2015 fyrir árin 2002-2012. Þar kemur fram að samantekt niðurstaðna fyrir þetta tímabil sýni að örveruástand sé í flestum tilfellum mjög gott hjá stærri vatnsveitum en lakara hjá minni veitum sem þjóna færri en 500 íbúum. Þá sé efnafræðilegt ástand neysluvatns á landinu almennt mjög gott og sjaldgæft að eiturefni greinist í vatninu.

Heildarúttektir, sem bæði ná yfir örveruástand og efnainnihald, eru flestar frá vatnsveitum sem þjóna fleiri en 500 íbúum og uppfylla veiturnar í nær öllum tilvikum kröfur neysluvatnsreglugerðar samkvæmt niðurstöðum. Við reglubundið eftirlit á árunum 2010 til 2012 greindist E.coli í innan við 1 prósent sýna hjá vatnsveitum sem þjóna fleirum en 500 manns. Hins vegar greindist E.coli í 6,5 prósent sýna frá vatnsveitum sem þjóna 500 íbúum eða færri. Segir í samantekt niðurstaðnanna að lakast hafi ástandið verið á Austurlandi og Vestfjörðum, þar sem mun erfiðara sé að nálgast grunnvatn en í öðrum landshlutum. Þá skýrist munurinn milli stærri og minni vatnsveitna meðal annars af miklum fjölda lítilla einkaveitna til sveita, þar sem frágangi vatnsbóla er enn ábótavant. Samkvæmt Matvælastofnun stendur til að gefa út nýja samantekt næsta haust eða í byrjun næsta árs.

En þrátt fyrir gott neysluvatn hefur Kristín Vala áhyggjur af áherslum Íslendinga undanfarna áratugi í sambandi við náttúruna en hún telur að sú stefna sem felur í sér að nýta náttúruna, veiða fiskinn úr sjónum, virkja árnar og jarðhitakerfin til að framleiða orku sé ekki heilladrjúg. Hún telur að Íslendingar ættu að hlúa mun betur að náttúrunni.

Kristín Vala Ragnarsdóttir

Hún segir að á nokkrum svæðum þurfi að vanda vel til verka og varast að ofnýta vatnið. Þetta séu svæði við sjó og á nesjum, til dæmis á Reykjanesi og Snæfellsnesi og víðar, en hún bendir á að á þessum svæðum sé aðeins þunn grunnvatnslinsa ofan á saltvatninu.

Fráveitumál í ólestri

Kristín Vala telur að Íslendingar veiti fráveitumálum ekki nógu mikla athygli og segir að engin almennileg skólphreinsun sé á Íslandi. Hún segir að Íslendingar geri lítið annað en að leiða skólpið í leiðslum út í sjó en henni finnst mikilvægt að þeir skoði þessi mál betur og hugi að aðgerðaráætlun til að koma í veg fyrir mengun vegna lélegrar fráveitu.

Tryggvi Þórðarson vatnavistfræðingur tekur í sama streng og Kristín Vala varðandi fráveitu. Hann vinnur hjá Umhverfisstofnun og var einn þeirra sem kom að gerð Stöðuskýrslu fyrir vatnasvæði á Íslandi árið 2013 sem var fyrsta skrefið í gerð vatnaáætlunar í framhaldi að setningu nýrra laga tveimur árum áður. Vatnavistfræði er náskyld vatnalíffræði og segir Tryggvi að hægt sé að nálgast hana út frá líffræði, efnafræði og landafræði. Hún fjallar um samspil ólífrænna og lífrænna þátta í vatni, áhrif frá umhverfi þess og vistkerfið í heild.

„Það er ekki auðvelt að svara því hvað skiptir mestu máli í sambandi við vatn á Íslandi,“ segir Tryggvi en bendir þó á að ýmsir þættir geti skipt máli. „Í fyrsta lagi má nefna mengun en alla jafna hefur hún ekki mikil áhrif vegna dreifbýlis. Landbúnaðurinn er ekki það umfangsmikill að hann hafi almennt áhrif en hefur það kannski í einstaka tilviki,“ segir hann.

Einnig nefnir hann virkjanir sem inngrip sem hafi áhrif en þær valda breytingum á árfarvegum og hæð vatna eða stíflun á vötnum. „Þetta er inngrip í vistkerfi sem getur haft áhrif,“ segir hann. Tryggvi telur að staða vatns á Íslandi sé nokkuð góð og að aðeins sé um undantekningar að ræða ef svo er ekki. Hann bendir þó á að vistkerfi geti verið undir álagi þrátt fyrir að umhverfismarkmiðum sé náð.

Reynsla og þekking tapast

Í fyrrnefndri Stöðuskýrslu fyrir vatnasvæði á Íslandi koma fram ýmsar upplýsingar um ástandið í dag. Eftir á þó að meta þætti eins og breytingar á farvegum, stíflur og flóðavarnir, hafnargerð og fyllingar í fjörum og áhrif virkjana. Allir þessir þættir gætu skipt máli, að mati Tryggva, og telur hann að þeir gætu í sumum tilfellum verið veigameira inngrip en mengunin.

Innleiðingu á stjórnkerfi vatnatilskipunarinnar er ekki lokið og er til dæmis flokkunarkerfi fyrir gæði vatns ekki enn tilbúið. Ástæðan fyrir því er að ekki hafa verið lagðir til verkefnisins nægir fjármunir og hefur það því þurft að bíða. Fjárveitingin til verkefnisins datt alveg niður árið 2016, nánast alveg árið áður og var með takmörkuðu fé árið 2014. Vegna þessa hætti fólk að vinna í verkefninu eða fór í önnur verkefni. Tryggvi segir að reynsla og þekking hafi tapast við þetta og að hans mati er þessi leið alls ekki ódýrari þegar upp er staðið.

Á hvað þurfa Íslendingar að leggja mesta áherslu núna?

Tryggvi Þórðarson

Með innleiðingu rammatilskipunar Evrópusambandsins er að mestu búið að varða leiðina hvernig haga skuli stjórnun vatnamála á Íslandi og með því að koma lögum um stjórn vatnamála í framkvæmd verður kerfið innleitt. Tryggvi telur að þessi innleiðing sé leiðin sem þurfi að fara og sé í raun búið að ákveða að verði farin. „Því þá verðum við komin með heilsteypt kerfi til að halda utan um vatnsauðlindina,“ segir hann.

Mikil vinna er framundan vegna innleiðingarinnar. Eftir á til að mynda að færa nýjar upplýsingar um einstök vatnshlot inn í sérstaka vatnshlotavefsjá sem sett var upp þegar verkefnið fór af stað. Til stendur að fyrstu níu árin fari í að koma stjórnkerfi vatnamála á og klára allt sem þarf að klára, til að mynda stöðuskýrslur, flokkunarkerfi, gæðaflokkun og vöktunar- og aðgerðaráætlanir. Eftir þessi fyrstu níu ár taka svo við framkvæmdatímabil sem vara sex ár, hvert um sig. Þau ár eiga einnig að nýtast til að betrumbæta kerfið. Síðan hefst nýtt framkvæmdatímabil þar sem allt er endurtekið og ætti þetta síðan að halda áfram koll af kolli á sex ára fresti. Tilgangurinn er meðal annars að lagfæra eldri upplýsingar og bæta inn nýjum betri. Tryggvi segir að innleiðingin sé flókin og umfangsmikil en trúir því að hún sé til bóta og bætir við að gaman hafi verið að taka þátt í verkefninu til þessa.

.

Kafli 2

.

En af hverju að huga sérstaklega að vatni þegar talað er um umhverfissjónarmið? Lengi hafa sjónarmið þeirra sem vilja nýta náttúruna og þeirra sem vilja vernda hana tekist á. Átök milli mismunandi viðhorfa geta orðið hatrömm og erfitt getur reynst að samþætta þessar skoðanir. Helstu átök síðustu áratuga eru án efa ágreiningurinn um Kárahnjúka þar sem gríðarlega mikið land fór undir vatn fyrir uppistöðulón. Röskun á árfarvegum var töluverð og umhverfisáhrif mikil. Þarna leikur vatnið veigamikið hlutverk og á þetta ekki síður við nú í dag þegar fara verður varlega á viðkvæmum svæðum þar sem talað er um að reisa vatnsaflsvirkjanir. Og þess vegna er vert að ræða vatnið sérstaklega þegar fjallað er um náttúruvernd. Vatn er stór áhrifavaldur í lífríki eins og áður hefur komið fram og mikilvægt er því að muna eftir því og ekki taka því sem sjálfsögðum hlut.

Jörðin sem ein lífvera

Guðmundur Andri Thorsson, rithöfundur og skáld, tók þátt í að ritstýra og ljúka við bók nafna síns Guðmundar Páls Ólafssonar, Vatnið í náttúru Íslands frá árinu 2013 en höfundurinn lést frá verki sínu. Bókin var hin síðasta í röð stórvirkja Guðmundar Páls um náttúru Íslands en áður hafði hann fjallað um fugla, perlur, ströndina og hálendið. Hann hafði skýra sýn á hvernig honum fannst að Íslendingar ættu að umgangast náttúruna.

Að sögn Guðmundar Andra var komið að vatninu hjá Guðmundi Páli eftir að hann hafði fjallað um íslenska náttúru frá fjöru til fjalls og nú fannst Guðmundi Páli kominn tími til að tengja íslenska náttúru við vistkerfi jarðar í heild. Þegar hann undirbjó bókina lagði hann land undir fót og ferðaðist til nokkurra af helstu fljótum veraldar. Bókinni var ætlað að vera með alþjóðlega yfirsýn; íslenskt framlag til umræðu um vatn og þau umhverfis-, félagslegu og pólitísku vandamál sem því tengjast. Hann taldi að þau yrðu aðeins leyst með siðferði og samvinnu að leiðarljósi og sá þannig fyrir sér að Íslendingar gætu orðið samfélagi þjóðanna einhvers konar fyrirmynd.

„Vatnafari lands eða Jarðar er ósjaldan líkt við æðakerfi og er sú samlíking raunhæfari en ætla mætti við fyrstu sýn. Straumvötn, grunnvatn, stöðuvötn, tjarnir – votlendi í víðustu merkingu – eru í senn flutningaleiðir og næring fyrir vistkerfi lands og sjávar – eða æðakerfi og blóð þeirra“Guðmundur Páll Ólafsson

Guðmundur Andri segir að nafni sinn hafi verið gagntekinn af kenningum um jörðina seinustu árin sín. Hann hafi lesið allt sem hann komst yfir um vistkerfi og kerfi jarðar og verið mjög hrifinn af hinni svonefndu Gaiu-kenningu sem snýst um að jörðin sé ein lífheild og hana eigi að skoða sem lífveru. Þetta sé Móðir jörð og hún sé veik eftir langvarandi ofnýtingu og misnotkun. „Þessi sýn á jörðina mótaði öll skrif hans seinustu tíu árin eða svo,“ segir Guðmundur Andri.

Sá fyrir sér samvinnu

Guðmundur Andri Thorsson

Guðmundur Páll var aðgerðasinni, að sögn Guðmundar Andra, og barðist fyrir því að Íslendingar lærðu að meta og virða þann náttúruarf sem þeim hefur verið falið að varðveita. Hann beitti ýmsum meðulum í baráttu sinni, var listamaður sem kunni að búa til áhrifamikla gjörninga, eins og þegar hann raðaði litlum fánum við Fögruhveri við Köldukvísl þegar þeim var sökkt undir Hágöngulón árið 1998 og dró svo íslenska fánann í hálfa stöng til að sökkva þar líka. Guðmundur Andri segir að það hafi líka haft mikil áhrif á marga þegar hann reif í sjónvarpinu síður úr bókinni sinni um hálendið með öllum þeim stöðum sem voru í hættu vegna áforma Landsvirkjunar. Hann hafi minnt okkur á hið mikla vatnsríkidæmi Íslands, sagði árnar vera lífæðar landsins sem ekki megi stífla með virkjunum og uppistöðulónum. Guðmundur Andri segir að Guðmundur Páll hafi vakið margt ungt fólk til umhugsunar um þau miklu náttúruverðmæti sem í húfi væru og geti kallast nokkurs konar faðir íslenskrar náttúruverndarhreyfingar.

Í frásögn Guðmundar Andra má heyra að nafna hans dreymdi um samvinnu þrátt fyrir að hann forðaðist ekki endilega átök. „Hann sá þannig fyrir sér að listafólk, náttúrufræðingar, bændur og búalið, tækju höndum saman í einhvers konar viðleitni til að nýta þetta góða og gjöfula land á jákvæðan og sjálfbæran hátt. Og þessir ólíku hópar landsmanna lærðu hver af öðrum. Listamennirnir lærðu af bændunum og bændurnir lærðu af náttúruvísindamönnunum,“ segir hann. Honum hafi fundist óskiljanlegt að þessar stéttir gætu ekki talað og unnið saman vegna þess að hann hafði alla þessa eiginleika í sér. „Hann var þetta allt saman sjálfur,“ segir Guðmundur Andri.

„Verndun lands verður að grundvallast á landslagsheildum – skilningi á vistkerfum – með öðrum orðum samhenginu í náttúrunni“Guðmundur Páll Ólafsson
.

Ríkir hagsmunir í vatnsstjórnun

Svandís Svavarsdóttir

Svandís Svavarsdóttir, alþingiskona og fyrrverandi umhverfis- og auðlindaráðherra, var í ríkisstjórn þegar vatnalögunum var síðast breytt árið 2011. Hún telur að mikilvægt sé að huga að almennum sjónarmiðum um vatnsvernd og þekkingu á henni, sem og samspili atvinnulífs við viðkvæm vatnsverndarsvæði og lykilsvæði.

Hún nefnir sem dæmi svæðin fyrir ofan höfuðborgarsvæðið sem hún segir að séu gríðarlega mikilvæg vatnsverndarsvæði. „Ýmiss konar atvinnustarfssemi hefur sótt heilmikið inn á það svæði. Við getum einnig talað um ferðaþjónustu og um alls konar flutningaleiðir, vegagerð og svo nú síðast umræðu um línur yfir vatnsverndarsvæðið sem gæti verið mjög afdrifaríkt eða allavega falið í sér heilmikla áhættu. Það er áhætta sem einfaldlega má ekki taka,“ segir Svandís.

Hún telur að Íslendingar þurfi að tala skýrar um hvað vatnið og vatnsstjórnun séu í raun og veru ríkir hagsmunir. Að geta gengið að vatni og skrúfa frá krananum séu í raun ekki svo sjálfsagðir hlutir og bendir hún á að þetta verði kannski ein af næstu krísum mannkyns í framtíðinni; baráttan um vatnið og aðgengi að því. Þannig telur hún brýnt að Íslendingar fari varlega með auðlindir sínar.

Grunnstoðirnar verða að vera í lagi

Innviðir samfélagsins eru undir miklu álagi, að mati Svandísar. „Vegirnir og fráveiturnar og bara allt okkar kerfi í samfélaginu er undir miklu álagi. Og það minnir okkur bara á að við erum ennþá á þeim stað að það er ekki búið að tryggja til dæmis að boðið sé upp á fullnægjandi sorpflokkun í öllum sveitarfélögum eða að fráveitan sé í lagi og svo framvegis,“ segi hún. Svandís bætir einnig við að ef Íslendingar ætli að vera góðir gestgjafar fyrir aðrar þjóðir og fólk sem stendur undir nafni á heimsvísu sem grænt samfélag þá verði þetta að vera í lagi.

Kristín Vala heggur í sama knérunn og Svandís og segir að það þurfi að sinna náttúruvernd á heildrænni máta þegar verið er að byggja upp ferðamannaiðnaðinn á Íslandi. Hún telur að ekki sé nóg að vera með græna ferðamannastarfsemi án þess að sjá til þess að nógu vel sé vandað til verka, til dæmis varðandi frárennslismál í hótelbyggingum um land allt. „Það eru miklar mótsagnir í þessu. Í rauninni er verið að pissa í skóinn,“ segir hún og telur að oft sé ekki verið að hlúa nógu vel að náttúrunni. Hún fái ekki að njóta vafans. „Það virðist vera miklu meiri hugsun um að fá inn sem flesta og græða sem mest en ekki að passa um leið náttúruna,“ bætir hún við. Það vanti alla skipulagningu í sambandi við alla innviði sem tengjast ferðamennsku. Og til þess að aðhald sé í þessum málum telur Kristín Vala að ekki sé nóg að hafa náttúruverndarsamtök að fylgjast með ástandinu heldur þurfi fjölmiðlar einnig að sinna þessu eftirlitshlutverki svo almenningur sé vel upplýstur um gang mála.

.

Kafli 3

.

Sérfræðingar virðast flestir vera sammála um að fráveitumálum og skólphreinsun sé ábótavant í mörgum sveitarfélögum á Íslandi. Þrátt fyrir reglugerðir og lög um hvernig fráveitumálum eigi að vera háttað er pottur brotinn víða varðandi þau málefni. Eitt brýnasta málið, tengt mengun vegna frárennslis, er svokallað örplast sem rennur með skólpi og fráveituvatni út í sjóinn óhindrað. Fleiri þættir hafa áhrif á mengun og mætti nefna aukna ferðamennsku, stóriðju og ofanvatnsmengun. En til þess að sporna við mengun þarf bæði að vinna í fyrirbyggjandi aðgerðum og að gæta að hreinsun sé fullnægjandi.

Frekar regla en undantekning að þéttbýli hunsi reglur

Í reglugerð um fráveitur og skólp frá árinu 1999 er krafa gerð um að skólp sé hreinsað með tveggja þrepa hreinsun. Þar segir ennfremur að skólp skuli hreinsað með ítarlegri hreinsun en tveggja þrepa ef staðurinn í náttúrunni sem skólpið er leitt út í er viðkvæmur eða nýtur sérstakrar verndar vegna nytja af ýmsu tagi, lífríkis, jarðmyndana eða útivistar eða um sé að ræða önnur sérstök vatnsverndunarsvæði. Ennfremur er hægt að fá undanþágu frá kröfunni um tveggja þrepa hreinsun þegar staðurinn í náttúrunni sem tekur við skólpinu hefur verið skilgreindur sem síður viðkvæmur fyrir skólplosun. Þá nægir að hreinsa skólpið aðeins með eins þreps hreinsun eða sambærilegri hreinsun.

Tryggvi Þórðarson vatnavistfræðingur segir að það sé fremur reglan en undantekningin að þéttbýli á landinu hafi ekki uppfyllt þessi lög og reglugerð þó að þau hefðu átt að vera búin að því í síðasta lagi árið 2005 en þá rann út síðasti fresturinn. Hann segir að nauðsynlegar framkvæmdir séu dýrar og til dæmis sé venjulegt að veitukerfið sé einungis tvöfaldað um leið og verið sé að taka upp einhverja götuna og endurnýja í henni. Hann telur að miðað við þróunina hingað til muni líklegast taka einhverja áratugi fyrir sveitarfélögin að framfylgja kröfum laga og reglugerðar að fullu.

Tryggvi Þórðarson

Helsta mengunin er skólpmengun

Áhrif mengunar af völdum skólps eru misjöfn eftir því hversu viðkvæmur viðtakinn er, að sögn Tryggva. Hann segir að mengunin fari líka eftir fjölda íbúaígilda eða svokölluðum persónueiningum sem geta verið talsvert fleiri en íbúarnir. Magn mengunarefnanna er metið út frá persónueiningum en ein persónueining jafngildir því sem einn maður lætur frá sér á einum sólarhring. Hann bendir á að vegna atvinnurekstrar sé oft tvö til þrefalt meira af persónueiningum en íbúum.

Einnig eru bakteríur í skólpinu sem hafa ekki bein áhrif á vistkerfið en segja aðallega til um smithættu. Tryggvi segir að kröfur séu um að saurbakteríur þurfi að vera undir ákveðnum mörkum í vatni eftir losun. Kerfið sé viðkvæmast fyrir mengun af völdum næringarefna (áburðarefna eða lífræns efnis). Ein helsta mengunin af völdum þessara efna er skólpmengun og telur hann að þörf sé á úrbótum í þeim málum.

Efni berast frá stóriðju í yfirborðsvatn

Stóriðja lætur frá sér ýmis efni sem í flestum tilvikum fara út í andrúmsloftið. Tryggvi segir að augljóst þyki að þau setjist einhvers staðar í nágrenninu og hafi áhrif á vistkerfi þurrlendis. „En sum þeirra eru vatnsleysanleg og enda í vatninu og geta haft áhrif þar. Þá er spurning hversu nálægt verksmiðjunum þessi vötn eru og hver áhrifin verða en það sama á við um sjóinn,“ segir hann. Einnig geti efni verið í frárennsli sem berast út í umhverfið.

Hann bætir við að þar sem fram fer urðun á afgangsefnum frá verksmiðjum gæti gjarnan mengunar, sem og í flæðigryfjum þar sem sjórinn leikur um. Efni sem eru ekki náttúruleg eða holl í náttúrunni berist frá slíkum stöðum. „Þannig að þetta eykur allt álagið á vatnið en það er kannski ekkert úrslitaatriði þegar skoðuð eru stærri svæði þó ef til vill sé hægt að finna hækkun þessara efna alveg við þar sem þetta er losað,“ segir hann.

Ferðamennskan eykur álag á kerfið

Fossar eru vinsælir viðkomustaðir ferðamanna á Íslandi. Skógarfoss er einn þeirra vinsælustu

.

Fleiri þættir spila inn í skólpmengun og einn þeirra er fjölgun ferðamanna. Samkvæmt Ferðamálastofu komu tæplega 1.800.000 ferðamenn til landsins á síðasta ári og jókst um 39 prósent frá árinu áður en ekkert lát virðist vera á þeirri fjölgun. Einn ferðamaður sem dvelur á Íslandi er eins og einn íbúi eða ein persónueining; sama mengun kemur frá honum og venjulegum íbúa. Tryggvi segir að ferðamennskan auki álagið á staðinn í náttúrunni þar sem skólpið er leitt út í og á hreinsistöðvarnar. Hann segir að hreinsistöðvarnar nái aldrei nema hluta af menguninni, mismikið eftir því hvort um eins þreps, tveggja þrepa eða ítarlegri hreinsun en tveggja þrepa er að ræða. Öll umframmengun sem hreinsibúnaðurinn ræður ekki við sleppi því í gegn og komist út í umhverfið.

Annar þáttur sem Tryggvi bendir á í sambandi við vanda með kerfið er vatnsnotkun hjá almenningi. „Ef ekki er hugsað um þetta og ef verið er að fara ósparlega með vatn og það notað í of miklu magni þá kostar það stærri leiðslur. Bæði vatnsleiðslur þar sem þarf að leiða vatnið inn í borgina og bæina og eins í lögnunum fyrir frárennsli,“ segir hann. Kostnaður sé gríðarlegur í stórum hreinsistöðvum en sá kostnaður miðist við vatnsmagnið en ekki beint mengun vatnsins. Hann segir að þannig aukist umfangið vegna aukavatns á öllum búnaði bæði í lögnum og í hreinsibúnaði sé hann til staðar.

Lausnin gæti falist í því að taka upp mæla í húsum og íbúðum fyrir kalda vatnið, að mati Tryggva. Hann bendir á að fyrir séu mælar fyrir heita vatnið en með því að fylgjast einnig með kaldavatnsnotkun sé hægt að gera eitthvað í þessu vandamáli. „Það er verið að henda peningum en á meðan gjaldið á kalda vatnið er reiknað út frá fasteigininni, það er stærð fasteignar, þá skiptir ekki máli hvað þú notar mikið af því. Þannig að fólk er ekkert að spara vatnið,“ segir hann.

Plast úr dekkjum skolast með vatninu

Tryggvi segir að einnig sé nauðsynlegt að huga að ofanvatnsmengun. Hann útskýrir hana á þann veg að rigningarvatnið skoli göturnar og fari síðan sem ofanvatn annaðhvort í skólpkerfið, ef um einfalt kerfi er að ræða, eða í sérstakt ofanvatnskerfi. „Venjulega er það leitt beinustu leið út í næsta læk. Víða hérna á höfuðborgarsvæðinu er farið að setja upp settjarnir sem ná úr ofanvatninu föstu efnunum en þetta vatn er oft mjög mengað og þó að oft sé talað um þetta sem rigningarvatn þá er það meira en það þegar mengað ofanvatnið er komið út í vötnin,“ segir hann og bendir á að í ofanvatni séu þungmálmar og ýmiss konar olíuefni og efni úr dekkjum, svo sem örplast. „Hugsanlega kemur um helmingurinn af því úr dekkjunum því það er orðið svo mikið plast í þeim og minna gúmmí en maður gæti haldið,“ segir hann.

Til þess að sporna við þessu vandamáli eru útbúnar svokallaðar miðlunar- og settjarnir til þess að taka við þessu mengaða vatni, að sögn Tryggva. Hann segir að óhreinindin á götunum safnist upp og þegar rigning fellur þá skolist drullan af götunum. „Settjarnirnar ná að einhverju leyti föstu efnunum úr ofanvatninu en til þess að þetta virki þá verður að tæma þær af og til. Þannig næst talsvert mikið af menguninni en megnið af því sem er uppleyst sleppur samt í gegn,“ segir hann.

Tryggva finnst mikilvægt að mat fari fyrst fram á því hvort umhverfisspjöll verði áður en farin er stysta og ódýrasta leiðin varðandi hreinsun ofanvatns. Hann segir nauðsynlegt að ná sem mestum óhreinindum úr ofanvatninu áður en því er hleypt út í sjó eða vötn og því verði að vera hreinsistöð til staðar ef það er orðið álíka mengað og skólpið. Og ef um einfalt hreinsikerfi er að ræða þá komi regntoppar eða rennslistoppar vegna rigningar inn á kerfi sem hafi ekki undan. „Á þannig skólpveitum eru höfð yfirföll og yfirfallsútrásir. Þá er skólpi hleypt út á stöðum sem venjulega er ekki hleypt út á. Hér á höfuðborgarsvæðinu eru til dæmis nokkrar yfirfallsútrásir sem stundum eru virkar þegar mikið rignir. Þannig að þetta getur valdið aukinni skólpmengun þegar vatnsblandað skólpið fer þá leiðina,“ bendir Tryggvi á.

Örplast fer beint út í sjó

Sumarið 2016 vann MATÍS skýrslu um losun örplasts með skólpi í samstarfi við Sænsku umhverfisrannsóknarstofnunina (IVL), Finnsku umhverfisstofnunina (SYKE) og Aalto-háskólann í Finnlandi. Rannsakað var hvort skólphreinsistöðvar væru gátt fyrir öragnir út í umhverfið. Plastagnir myndast með tvenns konar hætti, annars vegar með niðurbroti af stærra plasti og hins vegar geta þetta verið öragnir sem notaðar eru í til dæmis snyrtivörur. Að mati sérfræðinga ógna þær lífríki hafsins en í skýrslunni er greint frá því að eina hreinsunin sem framkvæmd er á Íslandi, meðal annars í Klettagarðastöðinni og skólphreinsistöðinni í Hafnarfirði, sé grófsíun. Agnir sem eru minni en millimetri og niður í hundrað míkrómetra fara gegnum stöðvarnar og út í umhverfið. Annað er upp á teningnum í Svíþjóð og Finnlandi þar sem 99 prósent öragna setjast í óhreinindin sem skiljast frá fráveituvatni eftir forhreinsun. Ljóst er því að úrbóta er þörf í hreinsistöðvum á Íslandi.

Hrönn Jörundsdóttir, sviðsstjóri og sérfræðingur hjá MATÍS, vann að skýrslunni en hún segir að rannsóknir á örplasti séu tiltölulegar nýjar af nálinni og því sé enn verið að bæta við þekkinguna á þessu sviði. Áhrif stærra plasts sé augljósara og þess vegna sé örplastið lúmskara ef svo mætti að orði komast og smæð þess því sérstakt áhyggjuefni. Hún segir að örplast sé talið hafa tvenns konar áhrif á umhverfið. Í fyrsta lagi inniheldur plast fjölda óæskilegra efna. Mikið af efnasamböndum séu í plasti, eins og mýkingarefni og litarefni, sólarvörn og svo framvegis, sem geta lekið úr því. Það geti gerst inni í líkama dýranna og þá séu mengandi efnin komin inn í fæðukeðju okkar. Plast sé í eðli sínu feitt efni og mengun í sjónum sem er fitusækin sæki í plastið. Það dragi í raun í sig mengandi efni úr sjónum sem geti losnað þegar þau koma inn í líkamann.

Í öðru lagi segir hún að áhrifa gæti sem minna hafa verið rannsökuð og vitað er um. Hrönn segir að hugsanlega hafi plastögnin sjálf áhrif á lífverur. Þegar plastögnin sé orðin mjög lítil þá getur hún mögulega komist yfir þarmaveggina, út úr þörmunum og inn í blóðrásina. Og þegar hún sé farin að flakka um líkamann með blóðrásinni þá geti hún komist hvert sem er. Ekki er vitað um áhrifin af því, að sögn Hrannar, og erfitt að meta.

Hrönn segir að Íslendingar verði að hugsa skólphreinsun upp á nýtt og fara að taka ábyrgð á þessum hlutum. Ekki sé einungis mikilvægt að huga að lífrænni mengun heldur verði að skilja að plastagnir og lyfjaleifar úr skólpinu sem fer út í sjó og mengar út frá sér. Plastið brotni ekki niður og því hverfi vandamálið ekki þrátt fyrir að því sé dælt út í sjó.

.

Kafli 4

.

Eignarréttur og nýtingarréttur á sameiginlegum auðlindum landans hafa gjarnan verið þrætuepli milli skoðanafylkinga. Íslendingar deila um hverjir eigi í raun fiskinn í sjónum, fjöllin, árnar og fossana og hverjir hafi afnotarétt af þessum gersemum. Ekki verður annað sagt en að á Íslandi sé gnægð ríkulegra auðlinda og því eru hagsmunir miklir og er vatnið engin undantekning þar. Sátt er um að Íslendingar þurfi á sérstökum vatnalögum að halda þrátt fyrir að útfærslan liggi ekki alltaf í augum uppi. Í framhaldi af því má velta fyrir sér hvort lög og reglur séu tæmandi þegar kemur að vatnsstjórnun. Væri hugsanlega ráð að leita í siðfræðina til að skoða nánar hvers vegna vatn skipti máli og hvernig fara eigi með það?

Þörf á nýjum lögum á nýjum tímum

Fyrstu vatnalög á Íslandi voru sett árið 1923 eða fyrir 94 árum. Þá voru aðrir tímar og taka lögin mið af því bændasamfélagi sem var til staðar á þeim tíma. Lögin voru upphaflega heildarlöggjöf um vatn og tóku meðal annars til vatnsnýtingar, vatnsréttinda, framkvæmda við vötn, vatnsverndar, umferðar um vötn og lax- og silungsveiði. Mikið er fjallað um vatnsréttindi landeigenda og segir í Hvítbók náttúruverndar, sem unnin var fyrir Umhverfisráðuneytið árið 2011, að á þeim langa tíma sem liðinn sé síðan lögin voru sett hafi nýtingarmöguleikar aukist til muna og vatnaframkvæmdir feli gjarnan í sér mikið inngrip í náttúrulegt vatnafar með tilheyrandi áhrifum á lífríki og ásýnd umhverfisins.

Nefndar eru sem dæmi stórar virkjanaframkvæmdir með vatnsmiðlun og umfangsmiklum vatnaflutningum milli vatnasvæða. Bent er á að vatnsnotkun hafi aukist og enda þótt Ísland sé auðugt af vatni sé álag á vatnasvæði sums staðar orðið umtalsvert. Einnig er tekið fram að mjög hafi verið gengið á votlendissvæði landsins með framræslu. Eftir áralanga vinnu við gerð nýrra frumvarpa á árunum 2001 til 2011 voru ný vatnalög samþykkt vorið 2011 á Alþingi og gilda þau enn í dag.

Tryggja þarf sjálfbærni

Svandís Svavarsdóttir alþingismaður segir að margar ástæður séu fyrir því að hafa sérstök vatnalög. „Vatn er náttúrulega, eins og margir tala um, upphaf og endir alls en um leið eru mjög miklir hagsmunir sem tengjast vatni. Það er bæði orka og alls kyns notkun sem landbúnaður nýtir sér og byggir á. Þannig að einhvern veginn þarf almannavaldið eða samfélagið sem slíkt að búa til ramma hvernig þessi nýting eigi sér stað,“ segir hún. Hún telur að Íslendingar þurfi að koma sér saman um hvernig haldið sé utan um vatnsauðlindina vegna þess að þrátt fyrir að mikið sé um lindir og uppsprettur á Íslandi þá megi ekki ganga að vatninu sem vísu.

Hún bendir einnig á að farið sé eftir Evrópulöggjöf sem er vatnatilskipunin. „Hún er vatnsverndarlöggjöf sem snýst í raun og veru um það að halda utan um vöktun á vatni og vatnsgæðum. Og passa upp á það að gæðin dvíni ekki í raun og veru milli tímabila,“ segir hún. Þannig þurfi Íslendingar að vita nákvæmlega hvar verndarsvæðin séu, hvernig verndinni sé háttað og að tryggja meðvitund almennings og umgengni atvinnulífsins við vatnið. „Þannig erum við að tryggja sjálfbærni til framtíðar og ekki að ganga á rétt komandi kynslóða til þess að njóta vatnsins um ókomna tíð,“ bætir hún við.

Kristín Vala Ragnarsdóttir

Ásamt sjálfbærninni vantar heildræna hugsun, að mati Kristínar Völu Ragnarsdóttur, prófessors í sjálfbærnifræðum við Háskóla Íslands. Hún telur að vatn sé auðlind í almannaeign og þess vegna ætti ekki að vera hægt að selja erlendum vatnsfyrirtækjum tökurétt á vatni til að flytja út. Hún segir að í því felist ekki mikil framtíðarhugsun og að Íslendingar eigi að nýta vatnið fyrir sjálfa sig því ef farið verði að pumpa miklu vatni á einum stað þá dragi það úr möguleikum annarra til þess að ná í sitt vatn. Allt grunnvatn tengist neðanjarðar og vill hún meina að það sé sameign allra landsmanna.

Þarf að bregðast við í tæka tíð

Svandís telur að í raun og veru sé mjög mikilvægt fyrir Íslendinga að bregðast við áður en þeir sitji uppi með einhvers konar vandamál en segir að það sé hugsanlega ekki hefðbundin röð athafna á Íslandi. „Við erum vön að bregðast við þegar allt er komið í steik. En með vatnatilskipuninni erum við komin með kortlagningu og yfirsýn yfir það hversu aðgengilegt vatnið er og hver gæði þess eru og svo framvegis. Þannig að vöktunin er í raun aðalatriðið til þess að við vitum nákvæmlega hvað við erum með í höndunum,“ segir hún og bætir við að oft vanti upp á kortlagningu á íslenskri náttúru. Það gildi ekki bara um vatnið heldur einnig um jarðminjar og um vistkerfin, gróðurinn og lífríkið. Hún telur að Íslendingar viti í raun og veru ekki nóg um landið sitt. „Við höldum að við vitum allt en það er ekki þannig og vatnið tengist í raun og veru öllum vistkerfunum. Það er því partur af því að við þurfum að vita hver staða þess er á hverjum tíma á hverjum stað,“ segir hún.

Svandís Svavarsdóttir

Svandís segir að eignarréttur þurfi að vera algjörlega skýr í lögunum, það er hagsmunir hvers séu í fyrirrúmi. „Ég hef almennt mjög miklar áhyggjur af eignarréttarhugmyndinni í allri umræðu um íslenska náttúru, ekki bara um vatnið heldur um náttúruna yfirleitt. Við breytingu núna síðast á náttúruverndarlögunum þá tókst ekki að breyta því ákvæði sem lítur að eignarréttinum sem er mjög sterkur í íslenskum rétti. Þar hefði ég viljað stíga skýrari skref í áttina að almannaréttinum,“ segir hún og telur að lykilatriðið sé að auðlindir eigi að vera í þágu heildarinnar.

Iðulega vantar fjármagn

Svandís segist ekki átta sig á því hvort núverandi vatnalög séu fullnægjandi í framkvæmdinni. „Vandinn með löggjöf er að löggjafinn er með skýra hugmynd um það hvernig hann vill að samfélagið líti út. En síðan þegar kemur að framkvæmdinni þá skortir oft fjármagn og fólk og eftirlit til þess að framfylgja henni,“ segir hún. Hugsanlega eigi þetta við um vatnsverndarlöggjöfina, þar sem gert sé ráð fyrir mjög stífri kortlagningu á gæðum vatns og áætlunum. En hún segir að fjármagn þurfi til þess að framfylgja löggjöfinni og að vandkvæðum hafi verið bundið að fjármagna tilskipunina til fulls.

Fyrstu árin var verkefnið fjármagnað beint úr ríkissjóði en samkvæmt Evróputilskipuninni þá á að nýta gjaldtöku til þess að fjármagna eftirlitið. Kröfur eru um að atvinnulífið, fyrirtæki og hagsmunaaðilar taki þátt í fjármögnun tilskipunarinnar, til dæmis fiskeldi sem notar gríðarlega mikið vatn. Svandís segir að mikil tregða sé í íslensku atvinnulífi að taka þátt í slíkri fjármögnun og að stjórnvöld hafi ekki haft pólitískt þrek í að klára þetta. Vegna þess að ekki gengur að fá atvinnulífið með í þá fjármögnun þá telur hún að ríkissjóður eigi að sjá um hana enda sé ekki um miklar fjárhæðir að ræða. „Mér finnst óverjandi að þetta falli niður vegna þess að það er ekki hægt að fjármagna þetta. Þetta eru slík verðmæti að það verður að gera það,“ segir hún. En kannski þurfi Íslendingar fyrst og fremst að verða meðvitaðari og ekki taka vatninu sem gefnu.

Vatn verðmæti í sjálfu sér

Þannig ná lög yfir ákveðna hlið á málinu en eru þau tæmandi? Innan siðfræðinnar er að ryðja sér til rúms ný fræði sem kallast siðfræði vatns. Tilgangurinn með slíkum fræðum er að finna upp siðfræðilíkan sem leggur vatn til grundvallar og að velta upp gildi þess, vegna þess hve mikils virði vatn er fyrir lifandi verur. Vegna þess að vatnið er slíkt grundvallarefni fyrir allt líf á jörðinni þá þarf að byggja upp gott siðfræðikerfi fyrir það og fyrir náttúruna. Hafa ár, vötn og streymi einhvers konar rétt? Komast þarf til botns í þessum málum til þess að vatnsstjórnun verði sem sanngjörnust, þannig að bæði menn og náttúra hafi hag af. Í siðfræði vatns er spurt spurninga eins og hvernig menn eigi að stjórna vatni og þeim straumi sem því fylgir. Hvernig eigi að geyma það og hvernig hægt sé að haga málum þannig að sem flestir fái að njóta vatnsins. Þetta á ekki bara við um vatnið sjálft heldur á þetta einnig við um jarðveginn, landið, lífverurnar, fólkið og vistkerfið sem byggist upp á vatninu.

Hægt er að byrja að ræða siðfræði vatns með því að meta gildi þess. Hvert er gildi vatns fyrir mennina, tilfinningalega, fjárhagslega og líffræðilega? Þeir geta verið án margs annars í náttúrunni og lifað við ótrúlegustu aðstæður en þeim er gjörsamlega ómögulegt að lifa án vatnsins og oft virðist það gleymast þegar nóg er til af því. Vandamálið er ekki einungis bundið við að vatninu sé ekki eignað gildi heldur einnig hvernig sá gildisdómur rekst á við aðra hagsmuni. Þarna má nefna hagsmunaárekstra milli manna, einstaklinga, fyrirtækja, samfélaga, menningarsamfélaga og lífríkja. Hvernig á að meta hvað er mikilvægast? Hvaða hagsmunir vega þyngst?

Guðmundur Andri Thorsson

Samkvæmt siðfræði vatns er ekki nóg að taka saman vísindalega og tæknilega þekkingu þegar kemur að vatnsstjórnun ef aðrir þættir eru hunsaðir. Vegna flókinna kerfa sem vatnið kemur úr og áhrifanna sem það hefur á hringrás lífsins þá virðist oft vanta heilsteypta mynd ef raska þarf til dæmis farvegum áa. Að því sögðu virðist vera ljóst að þörf er á skýrri og heildrænni stefnu hjá bæði íslenskum stjórnvöldum og almenningi og ekki síður á breyttu hugarfari gagnvart vatninu og náttúrunni í heild sinni.

Guðmundur Andri Thorsson, rithöfundur og skáld, telur að mikilvægt sé fyrir Íslendinga að hafa útópískar hugmyndir og fráleita drauma að leiðarljósi. Það er að segja ef þessir draumar snúist um samvinnu og virðingu fyrir mannlífi og náttúru og umhyggju og ást gagnvart jörðinni. Hann telur að Íslendingar verði að átta sig á því að vatn sé verðmætt í sjálfu sér. Það sé ekki bara verðmætt vegna þess að hægt er að selja það, sýna það ferðamönnum eða að virkja það. Hann bendir á að vatn sé sjálf forsenda lífsins því þar sem er vatn þar er líf. „Og við þurfum að fara að gera okkur grein fyrir því að við getum ekki farið að láta skammsýn nytjasjónarmið ráða eingöngu umgengni okkar við vatnið og yfirleitt bara við náttúruna,“ segir hann.

.

Við berum öll skyldur gagnvart náttúrunni

Regnið fellur til jarðar, tært vatnið safnast saman í gjótum, vötnum, árfarvegum og streymir síðan til sjávar. Þessi hringrás er endalaus, nauðsynleg öllu lífi og án hennar væri ekki byggilegt fyrir menn, dýr og plöntur. Á Íslandi eru íbúar vel settir miðað við margan úti í hinum stóra heimi og í fámenninu er hægt að réttlæta ofnotkun og jafnvel hugsunarleysi gagnvart vatninu.

Þrátt fyrir að staðan sé góð þá firrir hún ekki almenning eða stjórnmálamenn ábyrgð sinni. Hún felst í þeim skyldum sem við berum öll gagnvart náttúrunni og komandi kynslóðum. Að við skiljum eftir okkur sjálfbæra og tæra auðlind sem hægt er að nýta og ekki síst njóta. Leiðirnar að þeim markmiðum liggja í breyttu hugarfari gagnvart náttúrunni, vatnsstjórnun og hvernig komið er fram við umhverfið. Því forgangsröðun í þessum málum mun koma sér vel fyrir dýr og menn til langs tíma litið. Guðmundur Páll kemur kannski manna best orðum að því viðhorfi sem mannkynið þarf að tileinka sér gagnvart vatninu:

„Vatn streymir og það syngur, fær vængi og fer um alla Jörð, lofthjúp, land og bergiður. Oftast er það í félagi við lífið enda hönnuður þess og umgjörð. Vatn er líka undraefnið sem smyr jarðskorpufleka og mótar yfirborð Jarðar og í hver sinn sem fugl syngur og fluga suðar, fiðrildi blakar vængjunum eða angan blóma berst að vitum, skulum við hafa hugfast að þar er lifandi vatn á ferð, himneskt og jarðneskt.“Guðmundur Páll Ólafsson

Heimildir

  • Álagsþættir á grunnvatn, Veðurstofa Íslands
  • Ferðamálastofa, www.ferdamalastofa.is
  • Gæði neysluvatns á Íslandi 2002-2012, Matvælastofnun
  • Hvítbók um löggjöf til verndar náttúru Íslands, Umhverfisráðuneytið
  • Reglugerð um fráveitur og skólp
  • Stöðuskýrsla fyrir vatnasvæði Íslands, Umhverfisstofnun
  • Vatn í náttúru Íslands, Guðmundur Páll Ólafsson
  • Water Ethics: Foundational Readings for Students and Professionals, Dr. Peter G. Brown (ritstj.), Mr. Jeremy J. Schmidt M.A. (ritstj.).
  • Veitur ohf., www.veitur.is
  • Vísindavefur Háskóla Íslands, www.visindavefur.is

Ljósmyndir: Bára Huld Beck og Birgir Þór Harðarson

Upptökur og klipping: Bára Huld Beck

Umfjöllunin er lokaverkefni Báru Huldar Beck í blaða- og fréttamennsku við Háskóla Íslands. Vor 2017.

Fleira áhugavert: