Vinsælast/Nr.7 2023: Heitir pottar – Rétt val, góð ráð

Grein/Linkur:  Í leit að rétta pottinum

Höfundur:  Ásgeir Ingvarsson

Heimild: 

.

VINSÆLAST/NR.7 2023

pottur f

.Júní 2008

Í leit að rétta pottinum

Fátt er jafnnotalegt og að láta sig síga ofan í heitan pott á fallegu sumarkvöldi, hvort heldur úti á verönd í borginni eða fyrir utan sumarbústaðinn í guðs grænni náttúrunni.

Úrvalið hefur aldrei verið fjölbreyttara og hægt er að kaupa allt frá einföldum trépottum sem hitaðir eru með eldiviði, upp í hátæknipotta sem nudda hvern vöðva á líkamanum á meðan maður horfir á flatskjássjónvarp, hlustar á tónlist úr hljómtækjunum og lætur jafnframt ljósasýningu leika um kroppinn.

pottur

.

Rafmagn eða heitt vatn?

Valið stendur einkum á milli þess að hita vatnið með rafmagni eða nota heitt vatn af krana til að fylla pottinn.

Rafmagnspottar eru oft nokkuð dýrari enda er í þeim búnaður til að hita vatnið. Vatnið streymir í lokuðu kerfi sem um leið þýðir að potturinn þarf að vera búinn góðum hreinsibúnaði til að losa burt sand og óhreinindi sem berast í pottinn og halda þannig vatninu hreinu og tæru. Um leið þarf að bæta örverudrepandi efni í vatnið, t.d. klórblöndu.

Rafmagnspottar eru yfirleitt seldir tilbúnir í grind og eru því í raun frístandandi. Það er því auðvelt að koma þeim fyrir og þarf ekki að smíða sérstakt virki utan um pottana
Þar sem rafmagnspottar eru flóknari þarfnast þeir meira viðhalds og umhirðu.

Mörgum þykir líka kostur að hægt er að taka rafmagnspottana með þegar flutt er á nýtt heimili þar sem þeir eru frístandandi. Hins vegar þarf iðulega að skilja heitavatnspotta eftir þar sem þeir eru byggðir inn í garðinn.

Rekstrarkostnaður við heitan rafmagnspott er um 2-4.000 kr. á mánuði miðað við að potturinn sé notaður þrisvar í viku.

Hægt er að fá ágætan heitan rafmagnspott fyrir um hálfa milljón króna en þegar komið er upp í milljón er potturinn mjög vel útbúinn, með stillanlegri lýsingu og hljómtækjum.

pottur b

.

Kranavatnspottar

Pottar sem fylltir eru með rennandi heitu vatni geta verið ódýrari, og hægt að kaupa aðeins skelina (karið) ef menn kæra sig ekki um nuddbúnað. Potturinn er tæmdur eftir hverja notkun og þarf því ekki sérstakan hreinsibúnað, en það getur hins vegar tekið dágóðan tíma að fylla pottinn í hvert sinn sem hann er notaður.

Þegar aðeins er keypt skel bætist við kostnaður við að byggja burðargrind utan um pottinn.

Viðhald og umhirða einfaldra heitavatnspotta er í lágmarki. Þess vegna eru þeir vinsælli í sumarbústaði á meðan fólk velur sér frekar rafmagnspott til að hafa í heimahúsum.

pottur c

.

Góð ráð við val og viðhald á heitum potti

*Hægt er að kaupa mjög smáa potta, en flestir velja þó potta með 5-6 sætum. Þótt það gerist sjaldan á venjulegu heimili að svo margir fari í pottinn í einu þá eru sætin í mismunandi hæð og með mismuandi halla og nuddi. Mörgum þykir gott að geta fært sig á milli sæta til að fá nudd á ólíka líkamshluta, eða til að geta laggst betur út af.

*Lykilatriði við umhirðu rafmagnspotts er að fylgjast vel með síunni og hreinsa hana reglulega. Ef potturinn er notaður mikið er ágætt að miða við að hreinsa síuna hálfsmánaðarlega, en annars með mánaðar fresti.

*Það er mikilvægt að hafa dúk eða lok yfir pottinum. Bæði dregur það úr varmatapi þegar vatnið er hitað, og kemur einnig í veg fyrir að óhreinindi berist í vatnið.

* Umfram allt er lok yfir pottinn öryggistæki og kemur í veg fyrir að börn eða gæludýr fari sér að voða í pottinum.

pottur a

*Mikilvægt er að staðsetja heitan pott í vari fyrir ríkjandi vindátt því vindurinn getur kælt vatnið mjög hratt.

*Huga þarf vel að undirlagi heita pottsins og er best að koma honum fyrir á steyptu undirlagi eða sterkbyggðum palli. Þegar potturinn er fullur að vatni getur hann verið um tvö tonn að þyngd.

*Gott er að koma pottinum fyrir nálægt húsi eða hafa stétt umhverfis pottinn svo að gras og önnur óhreinindi berist síður í vatnið með þeim sem nota pottinn. Sumir velja að koma sturtu fyrir við hliðina á heita pottinum til að lágmarka óhreinindi.

*Rafmagnspottar þurfa að vera tengdir beint í rafmagnstöflu á sér grein.

*Koma þarf fyrir afrennsli úr pottinum svo hægt sé að tæma hann fyrir veturinn eða þegar vatnið er orðið óhreint.

pottur e

*Tæma þarf pottinn vel fyrir veturinn og fylgja leiðbeiningum framleiðanda um hvernig tæma á úr öllum lögnum og leiðslum. Sumir pottar eru þannig hannaðir að smálag af vatni situr eftir í botninum og þarf að ná því upp líka. Síðan þarf að byrgja pottinn svo að snjór komist ekki í hann sem getur þiðnað og svo frosið aftur og valdið skemmdum.
*Ekki á að skilja börn eða gæludýr eftir eftirlitslaus ef að heiti potturinn er opinn.

*Þess þarf að gæta að sog sé ekki of kröftugt í hreinsikerfi eða afrennsli pottsins og að allar hlífðargrindur yfir niðurföllum séu vel festar. Slys hafa orðið þegar fólk sogast fast ofan í þessi op.

*Gott er að velja heitan pott frá fyrirtæki sem býður upp á góða varahluta- og viðgerðarþjónustu til að tryggja að hægt sé að nýta heita pottinn til fulls mörg ár.

Fleira áhugavert: