Eldur, vatni – Á verði yfir jól og áramót

Grein/Linkur:  Á verði gegn eldi og vatni yfir jól og áramót

Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: mbl

.

Desember 2004

Á verði gegn eldi og vatni yfir jól og áramót

Eldur og vatn hafa fylgt mannkyninu frá örófi alda. Vatnið er að sjálfsögðu undirstaða alls lífs, hver mannvera er að miklu leyti byggð upp af vatni og án þess að hafa það til drykkjar gæti enginn lifað. Oft er vitnað til þess að það hafi verið eitt af risaskrefum í þróun mannsins þegar hann uppgötvaði eldinn. Réttara væri reyndar að segja þegar hann uppgötvaði notagildi eldsins og tók hann í þjónustu sína. Auðvitað hafa fyrstu forfeður okkar séð eldinn sem eldsumbrot jarðar, sem eldingar á himni eða sem eyðandi bál í gróðri jarðar.

En hvorttveggja, eldur og vatn, hefur aðra hlið. Hvorttveggja er oft eyðandi afl og það sem næst stendur okkur í dag eru vatnsskaðar og eldsvoðar í byggingum. Nokkuð hefur verið rætt um tíða eldsvoða hérlendis í þessum pistlum að undanförnu og nokkur viðbrögð hafa orðið. Ekki þó í opinberum miðlum heldur á persónulegum nótum, aðallega með tölvupósti á netfang pistilsins og satt best að segja hafa ekki allir verið sáttir við hvað hér hefur verið sagt. Því miður hefur þetta ekki orðið til þess að tekist hafi verið á um slóðaskapinn sem eigendur fyrirtækja og fasteigna komast upp með varðandi brunavarnir, ekki heldur hafa orðið umræður um hann.

En nú eru að koma jól og þá á auðvitað ekki að vera að ýfa menn með kerskni.

Elstu menn muna ekki eftir þeim jólum og áramótum að ekki hafi orðið tjón af völdum elds, því miður hafa stundum einnig orðið slys á mönnum, stundum mannskæð slys.

Það er minna um vatnsskaða á seinni árum eða áratugum og spyrja má af hverju svo er. Þar koma til betri og vandaðri byggingar og ekki síður betri og öruggari hitakerfi og jarðvarmi sem aldrei bregst. Eitt sinn var engin hitaveita, það muna aðeins gamlir þulir.

.

vatnsbrunavarnir4

.

Ef farið er nokkra áratugi aftur í tímann er komið að gömlu kolakyntu miðstöðvarkötlunum sem útheimtu mikla vinnu. Húsmóðurstörfunum fylgdi oftast starf kyndarans. Það var nánast regla að eldur í kolakatli var látinn dvína að kvöldi og síðan fór húsfreyjan upp fyrir allar aldir og kveikti upp.

En um stórhátíðir fengu jafnvel húsfreyjur að hvílast svolítið lengur á morgnum, alveg eins og annað heimilisfólk. Meðan allir sváfu var hvergi opnað fyrir krana, hvergi rann vatn í leiðslum. Þegar eldurinn kulnaði í miðstöðvarkatlinum hætti vatnið einnig að renna um miðstöðvarkerfið, enginn kraftur dreif það áfram.

En á þeim árum voru húsakynni víða léleg, illa einangruð og gisin. Þetta gaf kuldabola ráðrúm til að skríða inn um minnstu glufur og þar voru fórnarlömbin, vatnsleiðslurnar, auðveld bráð. Í þeim fraus og oft endaði þetta með því að rörin sprungu.

Pípulagningamenn á þeim gömlu árum höfðu oft talsvert mikið að gera eftir hátíðahöldin þegar fólk gáði ekki að sér, svaf og hvíldist, við að lagfæra sprungnar lagnir. Eflaust seinni tíma illkvittni að þessir gömlu meistarar röranna hafi ekki talið lakara að „það frysi vel um jólin“.

Sem betur fer eru miklu minni líkur á að skaði verði af vatni en á þessum gömlu tímum. Þó er ekki úr vegi að muna eftir að hafa ekki þrýsting á slöngum að þvottavélum þegar þær eru ekki í notkun, það á að vera föst regla allt árið, ekki bara um jólin.

En snúum okkur aftur að eldinum. Nú eru jólaljósin komin í hvert skot og hvers kyns ljósaseríur eru í gluggum og víðar innanhúss. Ekki er vafi á að fyrir jól verða til fleiri rafvirkjar á landi hér en á nokkrum öðrum tíma ársins, reyndar óskólagengnir og þar af leiðandi próflausir.

Ekki úr vegi að muna það að grönn snúra getur ekki flutt endalaust mikið rafmagn, ekki frekar en örmjótt rör vatn. Reykskynjarinn er eflaust á sínum stað, en er nokkur rafhlaða í honum? Jafnvel þótt honum „súrni í auga“ getur hann ekki stunið upp nokkurri aðvörun ef hann hefur ekkert afl. Þá gæti hann farist eins og fleiri innanstokksmunir ef eldur yrði laus.

Já, andstæðurnar eldur og vatn geta valdið miklum spjöllum ef ekki er farið með gát. Hlutverk vatnsins er að hefta eldinn þegar hann ætlar allt að gleypa. Það vantar hvorki meira né minna en þjóðarvakningu til að efla eldvarnir hérlendis. Það verður örugglega minnst enn og aftur á vatnsúðakerfið, sem í daglegu tali er kallað sprinkler, þegar kemur fram á nýtt ár. Það kerfi er því miður í dag njörvað niður í fjötra hefðar og reglugerða, þá fjötra þarf að slíta.

Fleira áhugavert: