Hlutverk hitaveitunnar, hitun húsa – Upphituð stæði/stéttar, heitir pottar, sund/baðlaugar

Grein/Linkur: Höfum við fjarlægst hlutverk hitaveitunnar?

Höfundur: Haraldur Ingólfsson

Heimild: 

.

Notkun á heitu vatni hefur breyst gríðarlega á nokkrum áratugum. Myndin er úr Skógarböðunun. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson.

.

Nóvember 2023

Höfum við fjarlægst hlutverk hitaveitunnar?

VATN – I

Íslendingar státa sig gjarnan af hreina og heilnæma drykkjarvatninu og eiga fyrir því nokkra innistæðu. Gott vatn er sannarlega lífsgæði sem við teljum sjálfsögð en sem margir íbúar heims búa ekki við. Heita vatnið er líka lífsgæði á annan hátt. Hitaveitur spara okkur kyndingarkostnað miðað við aðra orkugjafa auk þess að færa okkur alls konar lífsgæði sem mörgum okkar þykja orðið sjálfsögð og sjálfgefin og umgöngumst auðlindina ef til vill af ónærgætni þess vegna.

Akureyri.net ræddi ítarlega við Hjalta Stein Gunnarsson, sviðsstjóra framkvæmdasviðs Norðurorku, og Hörð Hafliða Tryggvason, fagstjóra hita- og vatnsveitu. Afraksturinn birtist í greinaflokki um hitaveitu- og vatnsveitumál í sjö hlutum. Ljósmyn: Haraldur Ingólfsson.

Upphaflegt og aðalhlutverk hitaveitunnar hefur ef til vill minna vægi í dag en það ætti að gera. Hitaveitur eru fyrst og fremst – eða voru – hugsaðar til að hita upp hús. Hin síðari ár hafa upphituð bílastæði og gangstéttar, heitir pottar við annað hvert hús, sundlaugar, baðlaugar og alls konar tekið æ stærri bita af kökunni, eða hita úr lögnunum.

Í þetta allt þurfum við heitt vatn og mörg okkar láta eins og það sé óþrjótandi. En svo er ekki. Lokanir sundlauga í kuldakasti síðastliðinn vetur vekja okkur vonandi til umhugsunar um þessa auðlind, hvernig við nýtum hana og hvernig við umgöngumst hana.

Hvernig er staðan á Akureyri og öðrum svæðum þar sem Norðurorka kemur að þessum málum? Akureyri.net hitti tvo sérfræðinga Norðurorku fyrir nokkru til að ræða um vatn, bæði heitt og kalt, frá öllum mögulegum hliðum. Eða flestum.

Afraksturinn verður birtur hér í nokkrum hlutum í dag og næstu daga. Í þessari grein er farið yfir helstu áherslupunkta varðandi hitaveituna, hvaðan vatnið kemur, hvaða áskorunum starfsfólk Norðurorku stendur frammi fyrir varðandi öflun á heitu vatni og leit að nýjum svæðum til að taka við af núverandi svæðum þegar að því kemur.

Engin dramatík, kerfið stóðst, en erfiður kafli

Hörður Hafliði Tryggvason, fagstjóri hita- og vatnsveitu, og Hjalti Steinn Gunnarsson, sviðsstjóri framkvæmdasviðs Norðurorku, taka á móti sendiboða frá Akureyri.net og fyrsti umræðupunkturinn er kuldakaflinn síðastliðinn vetur. Nokkrum sundlaugum á sunnanverðu og suðvestanverðu landinu var lokað um tíma vegna skorts á heitu vatni. Það liggur því beinast við að spyrja hér fyrir norðan hvort við erum að nálgast eitthvað slíkt, hvort hættuástand sé yfirvofandi hér á svæðinu.

Í kuldakasti síðastliðinn vetur þurfti að loka sundlaugum á nokkrum stöðum á landinu. Starfsfólk Norðurorku fylgist alltaf vel með stöðu mála. Ljósmynd: Haraldur Ingólfsson.

Hörður og Hjalti Steinn eru sammála um að ekki sé rétt að tala um hættuástand. „Við fylgjumst alltaf vel með stöðu hitaveitukerfisins, ekki síst í kuldatíð, og metum stöðuna mjög reglulega,“ segir Hörður og bætir við að ekki hafi þurft að grípa til lokunar sl. vetur þó að það hafi staðið tæpt á Ólafsfirði þar sem Norðurorka rekur hitaveitu.

Hjalteyri hefur séð fyrir aukningunni

Á vef Norðurorku má finna ýmsan fróðleik um starfsemina, meðal annars hvaðan heita vatnið kemur. Vinnslusvæðin eru tólf talsins, þar af ellefu sem nýtt eru til hitaveitu í Eyjafirði og eitt fyrir Fnjóskadal og Grenivík. Hjalteyrarsvæðið, sem virkjað var 2002, gefur rúmlega 60% af hitaveituvatni Akureyringa. Raunar er litið á Akureyri, Hörgársveit og hluta Eyjafjarðarsveitar sem eina heild í þessu sambandi.


Veðurfar hefur að sjálfsögðu áhrif á notkun okkar á heitu vatni og sömuleiðis breytingar á lífsstíl, til dæmis með upphituðum bílastæðum, heitum pottum og fleiru. Ljósmyn: Haraldur Ingólfsson.

Í ársskýrslu Norðurorku fyrir árið 2022 kemur fram að heitavatnsnotkun Akureyringa hafi tvöfaldast á síðastliðnum 20 árum. Þessi aukning hefur öll komið frá vinnslusvæðinu á Hjalteyri. En það eru blikur á lofti varðandi borholurnar þar og mikilvægt að finna út hversu miklu hægt er að dæla án þess að fá klóríð í kerfið.

Innstreymi sjávar veldur áhyggjum

Um áramótin 2021-22 varð vart við örlitla breytingu á efnasamsetningu vatnsins sem kom úr borholum á Hjalteyri og viðvörunarbjöllur hringdu. Klóríð greindist í mjög litlu magni, en það getur verið ábending um að holurnar séu farnar að draga inn sjó. Örlítil aukning skiptir máli. „Það er breytileikinn sem við erum hrædd við,“ segir Hjalti Steinn og bætir við að mjög mikilvægt sé að fylgjast áfram vel með stöðunni.

Fyrir nokkru varð vart við minnkandi streymi úr hverastrýtunum undan Hjalteyri og er uppstreymi úr þeim raunar hætt yfir vetrartímann. Borholurnar á Hjalteyri eru nálægt sjó og eru hverastrýturnar í rúmlega tveggja kílómetra fjarlægð frá vinnsluholunum. Það er því eðlilegt að spurt sé hvort tengsl gætu verið á milli borana og nýtingar heita vatnsins við Hjalteyri og breytingar á útstreymi úr hverastrýtunum.

„Þetta er jafna með mörgum óþekktum stærðum, en við erum með okkar helstu sérfræðinga í að skoða hvað er að hafa áhrif á þetta,“ segir Hjalti Steinn og bendir á að samhengið gæti verið enn stærra. „Það eru að renna 300 lítrar á sekúndu af heitu vatni út úr Vaðlaheiðargöngum. Eru kerfin mögulega öll tengd? Eru áskoranir okkar á Hjalteyri afleiðing af Vaðlaheiðargöngum, eða er þetta eitthvað annað?“ Hjalti Steinn og Hörður leggja áherslu á að um sé að ræða áskoranir sem mikilvægt sé að bregðast við og leysa.

Fleira áhugavert: