Brunavarnir – Reykskynjarar, eldvarnateppi, slökkvitæki

Grein/Linkur:  Hefði verið hægt að slökkva eldinn með slökkvi­tæki

Höfundur: Lovísa Arnardóttir Fréttablaðinu

Heimild:

.

.

Desember 2021

Hefði verið hægt að slökkva eldinn með slökkvi­tæki

Sólrún Alda Waldorff brenndist alvarlega þegar eldsvoði kom upp í íbúð í Mávahlíð árið 2019. Hún tekur nú þátt í árlegu eldvarnarátaki Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) og Landssambanda slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna sem hófst þann 1. desember og stendur út mánuðinn.

HMS birti í vikunni viðtal við Sólrúnu Öldu Waldorff sem brenndist alvarlega þegar eldsvoði kom upp í íbúð í Mávahlíð árið 2019. Sólrún Alda steig einnig fram í Kastljósi í RÚV en í báðum viðtölum hvetur hún fólk til að efla eldvarnir á heimilum sínum.

Í viðtalinu á vef HMS segir Sólrún Alda frá því að hafa farið að sofa eitt kvöldið í október og svo vaknað þremur vikum síðar á sjúkrahóteli í Svíþjóð eftir mjög alvarlegan bruna sem kviknaði út frá olíu sem var eldað með.

„Eftir tvo mánuði í Svíþjóð og margar húðígræðslur þá var talið að þeir væru búnir að gera allt í Svíþjóð sem þeir gætu gert,“ segir Sólrún Alda og að 30 prósent líkama hennar hafi brunnið, á báðum lærum, bringu, handleggjum og andliti og að innvortis hafi hún brunnið alvarlega á lungum.

„Það voru engar eldvarnir“

Sólrún Alda lýsir því hvernig bataferlið gekk og hvernig það hafi tekið á andlega að leita sér aðstoðar en stuttu eftir að hún kom aftur heim til Íslands talaði hún fyrst við prest og svo við sálfræðinga.

„Ég áttaði mig á því að ég þurfi hjálp,“ segir Sólrún Alda.

Hún segir að eigandi íbúðarinnar hafi ætlað sér að hlaupa út með pott sem var kviknað í en misst hann fyrir framan útidyrahurðina og þannig lokað einu útgönguleiðinni.

Sólrún Alda segir í viðtalinu að slökkviliðið hafi slökkt eldinn með venjulegu slökkvitæki en í íbúðinni voru ekki reykskynjarar, eldvarnateppi eða slökkvitæki.

„Það voru engar eldvarnir,“ segir Sólrún Alda og að þær skipti máli og ítrekar mikilvægi þess að fólk hugi að þeim og hvernig eigi að bregðast við ef eldur kemur upp.

Loftur Þór Einarsson og Jón Ernst Ágústsson Berndsen slökkviliðsmenn segja í myndbandinu frá útkallinu, hvernig aðkoman var og hvernig gekk að slökkva eldinn.

Viðtalið má sjá hér að neðan og er einnig birt í heild sinni á vef HMS, facebook og Youtube-rásinni Vertu eldklár.

Til að styrkja sínar eldvarnir er fólki ráðlagt að hafa reykskynjara í öllum herbergjum, að heimilisfólk þekki flóttaleiðir af heimilinu. Þá eiga slökkvitæki að vera staðsett við bæði útgang og flóttaleiðir og eldvarnateppi að vera aðgengileg og sýnileg í eldhúsi.

Fleira áhugavert: