Rör í rör – Kostirnir, enga ókosti?

Grein/Linkur: Rör-í-rör kerfi, hvað er nú það?

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: 

.

Október 1995

Rör-í-rör kerfi, hvað er nú það?

Með rör-í-rör aðferðinni eru pípulagningamenn farnir að vinna svipað og rafvirkjar. Fyrst eru rör lögð í veggi og loft og síðan önnur rör dregin í þau sem flytja heitt og kalt vatn.

Það eru að verða miklar breyt ingar á lagnaefnum og lagnaleiðum í byggingum og ein af þeim athyglisverðustu er rör-í- rör kerfið, sem er nú þegar búið að leggja í nokkur hús á Akureyri og Kópavogi. Reynum að lýsa þessari lagnanýjung í stuttu og skýru máli og höldum okkur við einn framleiðanda, sænsku plaströraverksmiðjuna Wirsbo, en krossbundin plaströr frá þeim hafa langa reynslu hérlendis, elstu hitakerfin eru yfir tuttugu ára gömul, lögð utanáliggjandi, ekki sem rör-í-rör kerfi.

Með rör-í-rör kerfinu eru pípulagningamenn farnir að vinna svipað og rafvirkjar, sem leggja fyrst rör í veggi og loftplötur og draga síðan vírana, sem flytja raforkuna, í rörin. Á sama hátt leggja pípulagningamenn báruð plaströr, sem auðvelt er að beygja, í veggi, gólf og loft, síðan er húsið steypt, þau flytja heita og kalda vatnið í eldhús, bað og þvottahús eða heitt vatn í ofna.

Krossbundin plaströr

Innri rörin eru svokölluð krossbundin plaströr, sem oftast ganga undir skammstöfuninni PEX. Engin sýnileg bönd eða net eru í þessum rörum, krossbindingin kemur af efnafræðilegum áhrifum og gerir það að verkum að efniseindir plastsins raðast öðruvísi saman en áður þekktist í plaströrum, þannig verða pexrörin sterkari, þau þola meiri hita við hærri þrýsting en flest önnur plaströr, a.m.k. eru engin rör úr polyeten með eins mikið hita- og þrýstiþol. Wirsbo Bruk-verksmiðjurnar sænsku, sem eru í smábæ í miðri Svíþjóð og draga nafn sitt af honum, eru alþjóðlegir brautryðjendur í framleiðslu krossbundinna polyeten plaströra, það eru þó ekki nema um aldarfjórðungur síðan framleiðsla slíkra röra hófst, svo það er augljóst að einhverjir landar okkar hafa verið framsæknir fyrst hér finnast yfir tuttugu ára gömul hitakerfi úr pexrörum. Þá má benda á það að snjóbræðsluöldin hófst hérlendis 1973 og þá voru notuð sænsk pexrör í skærum lit, appelsínugulum.

Hverjir eru kostirnir? Já, hverjir eru helstu kostir rör- í-rör kerfisins? Í fyrsta lagi er hér notað efni, sem ekki tærist og er það ekki lítill kostur miðað við þann mikla tæringaskaða, sem orðið hefur á járnrörum í byggingum hérlendis á undanförnum árum. Í öðru lagi sparar þessi lagnaaðferð tíma, styttir vissulega byggingatímann, sem er fundið fé. Þegar húsið er fokhelt er pípulögn komin miklu lengra á leið en ef hefðbundnar aðferðir eru notaðar. Í þriðja lagi er hægt að skipta um lagnir ef eitthvað kemur upp á; það er einfaldlega hægt að draga lögnina út úr kápurörinu og draga aðra inn í staðinn, þetta er sama aðferðin og rafvirkjar nota þegar endurnýja þarf raflagnir í eldri húsum. Í fjórða lagi heyrist minna í plaströrum við rennnsli. Í fimmta lagi fæst heitt eða kalt vatn fljótar úr krönunum vegna þess að plaströrin eru grennri.

En hefur þessi aðferð þá enga ókosti?

Efalaust má eitthvað tína til, sumir eru andvígir plaströrum vegna þess að auðvelt er að bora eða negla í þau og skemma þannig, en á móti kemur að endurnýjun á rörum er auðveld. Það finnst mörgum ótrúlegt að loft, sem umlykur plaströr hvar sem þau eru, getur haft áhrif á vökvann í rörunum, hvort sem það er vatn eða eitthvað annað. Í upphafi notkunar plaströra til innanhússlagna gerðu menn sér ekki grein fyrir að þetta gæti gerst en vöknuðu upp við vondan draum þegar ofnar fóru að tærast innan frá. Súrefni loftsins hafði þröngvað sér inn í rörin og valdið skaða á stálinu í ofnunum. En nú er farið að framleiða pexplaströr með varnarhimnu, sem ekki hleypir súrefni í gegn og á svæði Hitaveitu Reykjavíkur vill svo heppilega til að brennisteinninn í vatninu vinnur það þarfaverk að eyða súrefni.

En það er margs að gæta þegar ný efni og nýjar aðferðir koma á markað, það verða allir að fara varlega og sjá fótum sínum forráð hvort sem það eru húsbyggjendur, hönnuðir, seljendur eða iðnaðarmenn. Það verður að taka þetta föstum tökum strax í upphafi, allar nýjungar á að markaðsfæra samhliða kennslu og streymi upplýsinga til allra sem koma við sögu. Gamalt meistarabréf eða gamalt próf frá háskóla verður lítils virði ef handhafar þeirra eru ekki sífellt að læra allt sitt líf.

Fleira áhugavert: