Orkustefnuleysi – Sagan 2008

Grein/Linkur: Íslenskt orkustefnuleysi

Höfundur: Ketill Sigurjónsson

Heimild: Orkubloggið

.

.

Júlí 2008

Íslenskt orkustefnuleysi

Sökum þess að Orkubloggið er enn statt utan almennilegs netsambands, er pistil dagsins lítt fræðandi og án skýringarmynda. Í staðinn kemur smá hugleiðing um orkunotkun á Íslandi framtíðarinnar. Og vonandi er í lagi að tengja þetta við frétt úr efnahagslífinu.

Eins og allir vita kemur nánast allt rafmagnið á Íslandi frá endurnýjanlegum orkugjöfum – m.ö.o. vatnsorku og jarðvarma. Og mikill hluti húshitunar er jú með hitaveituvatni. Þetta veldur því að flest önnur lönd virðast óttalegir umhverfissóðar í samanburði við Ísland.

Fyrir vikið segja íslensk stjórnvöld að við séum betri en hinir og að við eigum að fá undanþágur frá losunarmarkmiðum. Að það sé í lagi að skíta á hreina stéttina hér heima, af því hinir eru enn að bisast við að þrífa gamla kúkinn af sinni stétt. Eða rökin um að Ísland eigi að bjarga heiminum. Ef ekki verði leyft að drita í garðinn okkar, verði sannkallaður fíladellir settur á erlenda grund. Hydro versus Coal. Og það sé vont fyrir blessaða jörðina. Mér hálfleiðast þessar kjánalegu röksemdir um að stóriðja á Ísland muni bjarga lífríki jarðarinnar.

Hvað um það. Við notum sem sagt endurnýjanlega orku til rafmagnsframleiðslu og húshitunar. Eftir stendur sú orka sem knýr, bíla, skip og flugvélar. Innflutt orka, sem gott væri að losna við að spreða gjaldeyrinum okkar í. Orka sem etv. væri hægt að framleiða innanlands. Með endurnýjanlegum orkugjöfum.

Sennilega er Ísland það land í heiminum sem hvað auðveldast gæti nær alfarið byggt á endurnýjanlegri orku. Að svo stöddu er slíkt varla raunhæft í fluginu. Fiskveiðiflotinn gæti hugsanlega nýtt vetni? En vegna kostnaðar við slíka umbreytingu á flotanum er kannski rétt að bíða aðeins með svoleiðis plön. Kannski væri sniðugast að ganga í EB, selja útlendingunum kvótann og svo setja reglur um bann við veiðum á íslensku hafsvæði nema með endurnýjanlegum orkugjöfum. Láta aðra borga brúsann. Nú er blogginu reyndar ekki alvara – nema hvað það hefur í 15 ár stutt inngöngu í EB.

Stick to the point. Við erum hér að tala um að öll orkunotkun á Íslandi verði frá endurnýjanlegum innlendum orkugjöfum. Flugvélar og skip eru útúr myndinni í bili. En bílaflotinn aftur á móti. Þar eru líklega bestu tækifærin.

Þrír bestu möguleikarnir á nýjum orkugjafa fyrir bíla eru líklega rafmagn, vetni og metanól. Ég er ekki sérstaklega vel upplýstur um hver þessara tæknimöguleika er bestur, hagkvæmastur eða lengst á veg kominn tæknilega. En svo virðist sem hægt gangi að smíða hagkvæma rafbíla. Vetnisverkefnið sem framkvæmt hefur verið hjá strætó í Reykjavík virðist hafa tekist nokkuð vel. Um metanólið er það að segja, að það hefur þann kost að við framleiðsluna er notað koldíoxíð. Við metanólframleiðslu væri t.d. hægt að nýta koldíoxíðlosunina frá stóriðju og þar með minnka heildarlosun Íslands á sk. gróðurhúsalofttegundum. Tvær flugur í einu höggi. Kannski má ímynda sér að smærri bílar gengju fyrir rafmagni, en vetni eða metanól væri notað á hina stærri?

Sama hvaða leið er farin, þá þarf auðvitað innlenda orku til að framleiða viðkomandi orkugjafa. Stóra spurningin er hvort samstæða næðist um að ná í þá orku. Illa gengur að ná sátt um nýjar virkjanir, hvort sem er vatnsafl eða jarðvarmi. Kannski verðum við að bíða uns fyrir liggur hvaða niðurstöður djúpboranir gefa. Kannski yrði sátt um slíka orkuframleiðslu?

Orkublogginu þykir þó sorglegast algert metnaðarleysi stjórnvalda. Í stað þess að liggja alltaf á hnjánum og biðja um undanþágur frá losunarmarkmiðum, væri kannski nær að Össur, Þórunn og félagar í ríkisstjórn landsins, tækju sig til og kæmu fram með alvöru áætlun og framtíðarsýn í íslenskum orkumálum. Og myndu um leið skilja eftir sig jákvæða arfleifð.

Því miður mun það líklega ekki gerast. Margtugginni forgangsröðun virkjanakosta er t.d. enn ólokið. Og verður sennilega orðin úrelt loks þegar loks sér fyrir endann á því verkefni, sem staðið hefur yfir í fjölda ára.

Þess vegna vill Orkubloggið nú skora á orkumálaráðherrann að hætta að eltast við einhver jarðhitaþróunarverkefni í krummaskuðum veraldarinnar. Og þess í stað einbeita sér að því að koma á íslenskri orkustefnu. Orkustefnu sem á að vera grundvöllur framtíðarþróunar og uppbyggingar landsins. Orkustefnu sem stóriðjustefna mun byggjast á. En ekki öfugt og umsnúið, eins og verið hefur hingað til. Já – koma á skynsamlegri og raunhæfri orkustefnu, en um leið metnaðarfullri stefnu.

Og leggja skammtímahagsmunina til hliðar í bili. Þó svo vissulega sé alltaf stutt í næstu kosningar.

Fleira áhugavert: