Sólin – Óþrjótandi orkubrunnur

Grein/Linkur: Óþrjótandi orkubrunnur

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: 

.

.

Janúar 1996

Óþrjótandi orkubrunnur

Litlum fjármunum hefur verið varið til að þróa búnað til að beizla sólarorkuna. Þróunin hefur verið bundin við örsmá sólarorkukerfi fyrir einstök hús.

Það er kátt í höllinni hjá Dönum í þessu skammdegi, ekki að eins að yngri prinsinn hafi fundið sér konu austur í Asíu og gengið í það heilaga með pompi og prakt, heldur tókst Norðmönnum að finna nýjar olíulindir um jólin á dönskum hafsbotni í Norðursjó. Að sjálfsögðu gera Norðmenn slíkt ekki ókeypis, þeir munu fá sinn skerf af gróðanum en engu að síður er þetta mikill happdráttur fyrir Dani. Þeir sem hafa fundið olíu í jörðu á þessari öld hafa átt velsældina vísa, hvort sem það eru arabar í eyðimörk eða norrænir menn sem borað hafa undir þorskinn á hafsbotni. Heyrst hafa nokkrar stunur hérlendis hvort ekki væri ráð að byrja að bora og hefur Öxarfjörður verið nefndur í því sambandi, þar væru setlög og jafnvel gasuppstreymi.

Blessunarlega hefur lítið verið aðhafst en þetta sýnir hvaða glýju menn fá í augun þegar olía í jörðu er nefnd, jarðvarminn sem gufa og vatn eða orka fallvatna virðist ekki hafa sama ljóma. Allar þjóðir þarfnast orku Jarðolía er merkilegt efni og hefur komið í góðar þarfir sem brennsluefni til að framleiða orku og yl eða til að knýja farartæki í lofti, láði eða legi. En það er ýmislegt athugavert við þessa nýtingu; hún mengar himinn, haf og jörð, hún mun að lokum ganga til þurrðar og ekki síst er olían svo verðmætt og margslungið efni til ýmiss konar iðnarframleiðslu að segja má að það sé yfirgengileg sóun að brenna henni. Nú orðið ætti jarðarbúum að vera ljóst að það er ekki svo langt þar til olían er uppurin og hvað þá?

Milli þess að þjóðarleiðtogar hafa verið að leika sér að því að búa til litlar og stórar bombur úr kjarnorku hafa þeir einnig látið búa til nokkur kjarnorkuver til orkuframleiðslu. Að vísu hefur komið í ljós að þessi miklu orkuver eru ekki síður hættuleg en atómbomburnar og má það teljast mikil mildi að ekki hefur farið verr en dæmin sanna. Að vísu veit enginn ennþá hvaða afleiðingar sprengingin í Sjernóbyl í Úkrarinu á eftir að hafa á menn, dýr og gróður, geigvænlegur skaði á mjög líklega efir að koma í ljós því geislavirkni frá slíkum slysum kemur efalaust fram mörgum ættliðum síðar. En hvað skal gera? Verður ekki mannkynið að fá orku? Vissulega, en það eru til aðrar leiðir, það er til orkugjafi sem mun gefa orku svo lengi sem líf þróast á jörðinni vegna þess að um leið og sú orkulind er uppurin deyr allt líf. Þessi orkugjafi er sólin.

.

Örsmá sólarorkukerfi fyrir einstök hús. Svartir þakgluggar eða hvað? Nei, þetta eru „sólfangarar“, lítil kerfi úr svörtum vökvafylltum plaströrum sem sjá húsinu fyrir hita og heitu vatni

.

Blessuð sólin elskar allt Það er með fádæmum hvað ráðandi menn í heiminum, hvort sem það eru stjórnmálamenn eða vísindamenn, eru blindir fyrir þeirri gífurlegu orku sem við höfum stöðugt yfir höfðinu. Það er ótrúlegt hvað litlum fjármunum hefur verið varið til að þróa búnað til að beisla þessa óþrjótandi orku, öll þróun búnaðar hefur verið bundin við örsmá sólarorkukerfi fyrir einstök hús og þá er það yfirleitt álitin sérviska að standa í slíku.

Það er ekki aðeins hægt að fá orku frá sólinni til að hita upp hýbýli og vatn til þvotta, það væri hægt að hefja stórfellda raforkuframleiðslu með sólarorku. Þá raforku væri síðan hægt að nýta á margvíslegan hátt svo sem með beinni notkun til að knýja umhverfisvæn farartæki eða til að framleiða umhvefisvæn brennsluefni eins og vetni. Hvers vegna að tala um þetta á norðlægum breiddargráðum þar sem sjaldan sést til sólar, kann einhver að spyrja. Vissulega eru möguleikarnir mestir nær miðju jarðar þar sem sólin skín sterkast, en það er svo einkennilegt að það er einmitt í norðlægum löndum sem helst hefur verið unnið að þróun á nýtingu sólarorku til orkuframleiðslu. Sá árangur sem þar hefur náðst vísar veginn, möguleikarnir eru geysimiklir enda er meira sólskin á norðurslóðum en menn vilja viðurkenna.

Vanþróuðu löndin svokölluðu eru flest í sólríkum löndum, þar væri hægt að ráða bót á orkuskorti á tiltölulega skömmum tíma. Það þyrfti ekki nema brot af þeim fjármunum sem fara í það að framleiða vígvélar til að drepa mann og annan í þessum sömu löndum til að þróa búnað til beislunar sólarorku Áramótabomburnar hans Chiracs kosta ábyggilega sitt. Á meðan þeir sitja íbyggnir yfir þessum vítisvélum Frakkarnir, hellir sólin geislum sínum yfir þá, geislum sem hægt er að beisla án þess að stefna lífi jarðarbúa og afkomenda þeirra í nokkra hættu.

Fleira áhugavert: