Íran, sagan – Kjarnorka, valdatafl

Grein/Linkur: Söknuður

Höfundur: Ketill Sigurjónsson

Heimild: Orkubloggið

.

Mynd – wikipedia.org 10.10.2023

.

Söknuður

Það var auðvitað með ákveðnum söknuði, þegar Orkublogguð kvaddi olíuna. Í bili. Við 120 dollara markið. En nú er bara að þurrka burt krókódílatárin og telja gróðann. Annars er blessaður kapítalisminn svo sniðugur, að auðvitað er lækkandi verð á olíu (eða öðru á mörkuðunum) engin ástæða til að hætta að braska. Þegar allt stefnir niður á við fara menn auðvitað bara yfir í þá skemmtilegu iðju, að sjorta hlutina. Og raka svo saman peningum þegar markaðirnir lækka. Já – kapítalisminn er mikið snilldarinnar fyrirbæri. Jafnvel skemmtilegri en Las Vegas.

Eisenhower1

Eisenhower

Annað skemmtilegt, sem mér kemur í hug, er þegar bandaríski kjarnorkuiðnaðurinn var æstur í að komast í þann bisness að byggja kjarnorkuver í Íran. Sennilega mátti litlu muna, að það yrði gert. En valdataka klerkanna árið 1979 eyðilagði endanlega að hægt yrði að smjatta á þeim góða bita.

Orkubloggið hefur nokkrum sinnum nefnt olíuvinnslu Írana. Og kjarnorkuáætlun þeirra. Nú nýlega rifjaði bloggið upp hvernig BP var lengi nánast einrátt í olíuvinnslu í Íran. Og fékk aðstoð frá Eisenhower og CIA til að steypa þeirri stjórn, sem ekki þótti nægjanlega samvinnuþýð. En samt endaði ballið með þeim ósköpum að 1979 náðu klerkarnir völdum og BP og öðrum útlendum olíufyrirtækjum var fleygt út.

Í dag er það íranska ríkisolíufyrirtækið, sem sér um borinn og brúsann í Íran. Og þetta er ekki nein sjoppa úti á horni. Sem kunnugt er, er ExxonMobil stærsta olíufyrirtæki heims. Markaðsvirði þess í dag er vel yfir 400 milljarðar USD. En reyndar er þetta netta kompaní bara stærst af þeim sem eru á hlutabréfamarkaði. Ríkisolíufélögin í Arabíu og Persíu eru nefnilega mikið stærri.

NIOC_logo

NIOC_logo

Jamm – ef ríkisolíufyrirtækin eru talin með, er ExxonMobil bara peð. Olíufyrirtæki Sádanna, Saudi Aramco, er langstærst og verðmætast. Reyndar veit enginn okkar hér utan Arabíu fyrir víst, hversu miklar olíubirgðir Saudi Aramco eru. En sumir áætla að fyrirtækið sé a.m.k. tvöfalt verðmætara en ExxonMobil.

Og næst stærsta olíufyrirtæki í heiminum er National Iranian Oil Company (NIOC). Sem er alfarið í eigu íranska ríkisins. Tekjur þess á síðasta ári (2007) eru sagðar hafa numið jafnviði 50 milljarða USD – sem er kannski ekki jafn mikið og ætla mætti. Verðmæti fyrirtækisins felst fyrst og fremst í hinum gríðarlegu olíulindum, sem það ræður yfir. Oliulindum sem þeir hjá BP, franska Total, Shell og amerísku olíufyrirtækjunum hljóta að sakna mjög.

Nozari3

Nozari

Staðreyndin er sú að þegar þeir kollegarnir Gholam Hossein Nozari og Ali Al-Naimi, olíumálaráðherrar Írans og Saudi Arabíu, skeggræða málin mega gömlu stórveldin sín ekki mikils. Gæfa Vesturlanda felst kannski aðallega í því að Íranar og Arabar eru ekki endilega neinir perluvinir. Enda af sitthvorri grein Íslam.

En tökum nokkur skref til baka. Og skoðum aðeins þá tíma meðan Bandaríkin voru á góðri leið með að gera Íran að kjarnorkuveldi. Þó svo rekja megi upphaf þess allt til ræðu Eisenhower's snemma á 6. áratugnum, um Atoms for Peace, var þessi samvinna ekki í hámarki fyrr en eftir 1970. Enda var mönnum þá orðið ljóst að líklega yrði olían ekki til staðar nema í takmarkaðan tíma og mikilvægt að tryggja uppbyggingu annarra orkugjafa.

iran-reza-nuclear-power

iran-reza-nuclear-power

Um 1970 fullgilti Íran Samninginn um bann gegn útbreiðslu kjarnavopna. Þar með var allt klárt til að aðstoða Írana við að byggja kjarnorkuver. Bandaríkin komu t.d. að uppbyggingu kjarnorku-rannsóknastöðvar við Teheran-háskóla og írönsk stjórnvöld fengu nokkur kíló af vel auðguðu úrani frá Bandaríkjunum. General Electric og fleiri stórfyrirtæki gerðu samninga um uppsetningu kjarnakljúfa í landinu. Einnig komu evrópsk fyrirtæki að málinu, t.d. Siemens.

Allt gekk þetta hvað hraðast á meðan þeir Nixon og Ford voru í Hvíta húsinu. Eftir að Carter varð forseti 1977 hægði aðeins á ferlinu. Kannski aðallega út af miklum mannabreytingum í Hvíta húsinu, eftir langa valdatíð repúblíkana. Engu að síður leit út fyrir, þegar upp rann árið 1979, að senn myndu rísa nokkur kjarnorkuver í Íran. En eins og stundum vill verða, ganga hlutirnir ekki alveg samkvæmt áætlun. Skyndilega og nánast á augabragði varð Íran einn versti óvinur Bandaríkjanna. Og / eða öfugt.

Iran_shah_ Reza_Pahlavi

Iran_shah_ Reza_Pahlavi

Íranskeisari hafði stjórnað landinu með harðri hendi í um aldarfjórðung. Eða allt frá því 1953, þegar olíuhagsmunir Breta urðu til þess að hann fékk alræðisvald og lýðræðislega kjörinni stjórn íranska þingsins var steypt af stóli. Einkum fyrir tilstilli bresku stjórnarinnar og með aðstoð Bandaríkjanna. Eins og lýst var í færslunni „Skákborð veraldarinnar“:  http://askja.blog.is/blog/askja/entry/606262/

Því miður var þessi leikur Bandaríkjanna í skák alþjóðastjórnmálanna, að styðja keisarann en ekki lýðræðið í Íran, í reynd afleikur. Sem löngu síðar sprakk illilega framan i andlitið á ráðamönnum i Washingtin DC.

Harðstjórn keisarans, andstyggð fólks á leynilögreglunni SAVAK, fátækt almennings í landinu og óheyrilegt bruðl keisarafjölskyldunnar, ýtti undir mikla óánægju meðal írönsku þjóðarinnar.

Time_Khomeni

Time_Khomeni

Árið 1979 var ókyrrðin í landinu orðin það mikil að keisarinn yfirgaf Íran. Og heim snéri öldungurinn, skáldið og heimspekingurinn Khomeni úr útlegð sinni.

Af einhverjum ástæðum, sem erfitt er að skilja eða útskýra, náði Khomeni eyrum fólksins – betur en lýðræðisöflin í landinu sem loks höfðu náð að fæla keisarann burt. Herinn snerist á sveif með Khomeni og svo fór að hann náði öllum valdataumum í sínar hendur. Og Bandaríkin horfðu aðgerðarlaus á fjörið í Teheran.

Þar með varð Íran það íslamska klerkaríki, sem við þekkjum enn þann dag í dag. Þar sem þjóðin sjálf fær litlu ráðið, rétt eins og fyrri daginn. Og nú er kjarnorkuáætlun Írana aftur kominn á fullt. En ekki með alveg jafn miklum velvilja Vesturlanda eins og var upp úr 1970.

Það hlýtur að teljast ein af helsi ráðgátum alþjóðastjórnmálanna, af hverju Bandaríkin gripu ekki inní atburðarásina. Þegar þeir sáu einn af sínum nánustu bandamönnum, steypt af stóli af svörnum óvinum vestrænnar menningar. Í ríki með einhverjar mestu olíubirgðir i heimi.

carter_book

carter_book

Sumir segja að Jimmy Carter hafi einfaldlega ekki skilið alvöru málsins. Eða verið of upptekinn af friðarviðræðum Israela og Egypta. Aðrir segja að þvert á móti hafi Bandaríkin stutt valdatöku klerkanna! Stjórnvöld í Washington hafi skynjað að tími keisarans var á enda og frekar viljað klerkana en að eiga hættu á að kommúnistar næðu völdum í Íran.

Ég veit – þetta hljómar frekar lygilega og jafnvel kjánalega. En margir þeirra ágætu, vel menntuðu og skemmtilegu Írana sem ég þekki, eru þess fullvissir að Khomeni og klerkarnir hafi fengið stuðning að vestan. Og meira að segja er manni sagt að núverandi stjórnendur í Íran njóti ennþá þessa leynistuðnings Bandaríkjastjórnar. Illindin í fjölmiðlum séu bara á yfirborðinu – Bandaríkin vilji frekar klerkana áfram við völd en eiga á hættu að t.d. rússneskt eða kínverskt fjármagn nái yfirráðum í írönskum olíuiðnaði. Maður verður barrrasta að segja eins og er; ég er ekki alveg að kaupa þessa samsæriskenningu.

Fleira áhugavert: