Hitakerfi – Nú fer að kólna

Grein/Linkur:  Það er farið að kólna

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: 

.

Mynd – www.theplumbingworks.com / 9.01.2021

.

Janúar 1998

Það er farið að kólna

Hitaskortur stafar oftast af því, að einhvers staðar í kerfinu er hindrun, nánast stíflur. Þær koma í veg fyrir að vatnið renni eðlilega og í réttu magni inn á ofnana til þess að hiti sé viðunandi.

Vetur er tæplega genginn í garð á Suðurlandi, en í öðrum landshlutum hefur hann heilsað uppá, í það minnsta eru þeir farnir að sjá snjó á Norðurlandi og Akureyringar spenna á sig skíðin og bruna í brekkum. Rangæingar mega búa við hinn forna fjanda, sandbylinn, og biðja ákaft um regn, helst snjókomu. En það er óneitanlega farið að kólna um land allt og var tími til kominn, það er engum í hag að hafa endaskipti á árstíðum og veðráttu. En þegar kólnar fer sums staðar að bera á því að ekki er nógu heitt innandyra, þó hitaveitan sé í besta lagi.

.

.

Það er gengið um húsið og stillingar á sjálfvirkum ofnventlum hækkaðar en ekkert dugir, það er ónógur hiti þrátt fyrir það og oft lélegastur hiti á stærstu ofnunum. Er þetta eðlilegt? Já, því miður má kalla þetta eðlilegt, en óviðunandi.

Hvað er þá til ráða, hvert á að leita?

Orsakir – Förum yfir hverjar eru helstu orsakir þess að hitakerfið gefur ekki nægan hita þó vitað sé að það er nóg af heitu vatni, það fossar úr hverjum krana í baði eða eldhúsi. Hitskorturinn er oftast af því að einhversstaðar í kerfinu er hindrun, nánast stíflur sem koma í veg fyrir að vatnið renni eðlilega og í réttu magni inn á ofnana til að hiti sé viðunandi. Í fyrsta lagi getur hindrunin verið í ofnkrönunum.

Hitaveituvatnið hefur margskonar náttúru auk þess að vera heitt og veita hita og hreinlæti. Hitaveituvatnið á Íslandi er ekki einhver ein tegund af vatni, hitaveituvatn getur verið ótrúlega ólíkt frá einum stað til annars. En í því eru ætíð margskonar efni í mismunandi magni og oft ná þessi efni að „falla út“ sem kallað er. Það þýðir að þau ná að einangra sig og setjast á ýmsa hluti, einkum í sjálfvirkum ofnventlun. Þetta getur endað með því að þessi efni ná að festa hreyfanlega hluta ventilsins þannig að hann getur orðið fastur, í lokaðri stöðu oftast nær. Þá getur orðið skortur á hita. Á mælagrindinni, hvar sem hún er nú staðsett, er oftast tæki sem nefnist þrýstijafnari.

Þrýstijafnari-Slaufuloki

Hlutverk þessa tækis er að minnka þrýstinginn á vatninu til að tryggja að ekki springi ofnar eða leiðslur og ekki síður að tryggja það að mismunur á þrýstingi inn á kerfið og út af því sé í lagmarki. Ef þessi mismunur er of mikill getur farið að heyrast niður eða stöðugt hljóð í kerfinu, ákaflega hvimleitt til lengdar. Í þessu tæki eru blöðkur og hreyfanlegir hlutir sem einnig geta orðið fastir af völdum efna í vatninu.

Oft er það svo, og líklega oftast, að þessi tæki eru sett upp í nýrri byggingu og ekki litið á þau meðan allt „slampast“ en í raun þarf að yfirfara þrýstijafnarann á fárra ára fresti. Ef þetta gerist getur orðið skortur á hita. Á öllum inntökum hitaveitna eru sigti sem eiga að stöðva óhreinindi sem mögulegt er að komi með vatninu. Svo mikil geta þessi óhreinindi verið að stórlega hamli vatnsrennsli. Þá verður skortur á hita. Á mælagrindinni, rétt fyrir innan hitamælinn sem telur tonnin af heitu vatni sem við notum, eru tveir kranar sem þó eru ekki með neinu handfangi. Þess í stað eru þeir með hettu úr blikki, í gegnum göt á hettunni er þræddur vír og endarnir þrykktir með innsigli.

Hvaða dularfulli búnaður er þetta?

Þetta eru ventlarnir þar sem starfsmenn hitaveitunnar stilla það hámarksrennsli sem á að geta runnið inn í húsið, þeir eru stilltir eftir stærð hússins og þarafleiðandi vatnsþörf. Þessir ventlar, sem í daglegu tali eru kallaðir hemlar, eru sáralítið opnir þar sem ekki á að renna mikið vatn, svo sem í einbýlishúsi. Þessi litla opnun getur orðið til þess að ýmiskonar útfellingar eða óhreinindi, sem komast í gegnum sigtið, stífla ventlana að einhverju eða öllu leyti. Þá verður skortur á hita. Hvað er til ráða? Það fyrsta er að fá pípulagningameistara til að koma á staðinn og kanna hver er orsök þess að ekki hitnar sem skyldi. Hann lagar stíflur og festur í ofnventlum og hann skiptir um blöðkur og pakkningar í þrýstijafnara. Stundum getur verið að þörf sé á að skipta alfarið um þessi tæki, þá gerir pípulagningamaðurinn það. En komist hann að því að orsökin sé í hemlum hitaveitunnar eða sigtinu kallar hann til mann frá hitaveitunni, þessir hlutir eru í hennar lögsögu og því má hvorki pétur né páll vasast í þeim hlutum.

En ekki má gleyma því að oft er orsök vandans sú, að kerfið er algjörlega vanstillt. Það getur orðið til þess að vatnið renni ljúflega í gegnum litlu ofnana en skilji þá stóru eftir. Þá er sama hve mikið vatnsrennslið er aukið, hita vantar frá stóru ofnunum, kalt er í húsinu en reikningurinn frá hitaveitunni hækkar hressilega.

Fleira áhugavert: