Þórgrýti, Noregur – Þrumuguð
Grein/Linkur: Þrumuguðinn!
Höfundur: Ketill Sigurjónsson
.
.
Ágúst 2008
Þrumuguðinn!
Þegar stráksi minn var 4ra ára spurði hann mig: „Pabbi – af hverju eru engar mörgæsir á Norðurpólnum„. Ég svaraði að bragði: „Það skal ég segja þér, ef þú getur sagt mér af hverju það eru engir ísbirnir á Suðurpólnum?“
Sá litli hrukkaði ennið, hugsaði sig aðeins um. Og virtist svo fá hugmynd og sagði: „Af því að mörgæsirnar átu þá alla!“
Þá vitum við það. Og mér fannst þetta reyndar skemmtilegt svar. Það er líka svolítið fyndið, að nú segja menn að olía Norðmanna sé senn uppurin. Sem er auðvitað tómt rugl. Því Norðmenn eiga nánast örugglega eftir að finna miklu, miklu meiri olíu í norðurhluta lögsögu sinnar. Sú olía verður auðvitað því aðeins sótt, að verðið standi undir dýrri vinnslu á miklu dýpi. Eins og staðan er i dag, yrði vonlaust að keppa við 5 dollara kostnað pr. tunnu hjá t.d. Venesúela.
Það er staðreynd að eftirspurnin eftir olíu vex sífellt. Hversu hratt eftirspurnin eykst, fer eftir efnahagsástandinu. En líklega um ca. 2% árlega og jafnvel meira. Það þýðir að olíufélögin verða að geta fundið og unnið aukalega um 1,5 milljónir tunna á dag. Og reyndar talsvert mikið meira, því margar af olíulindunum sem eru nú í notkun fara þverrandi og vinnslan þar minnkar ár frá ári.
Ef framboðið frá nýjum olíulindum eykst ekki jafn hratt eins og eftirspurnin, mun verðið hækka. Og þá verður olíuvinnsla í íshafinu líklega hagkvæm.
Reyndar eiga Norðmenn annan ás í erminni, ef olían hættir að vera þeirra gullnáma. Sem er þórín (thorium). Enn er þó óvíst hversu ábatasöm þórínvinnsla yrði í Noregi. En margir líta á þórín sem kjarnorku-eldsneyti framtíðarinnar.
Fróðlegt er að skoða nýjar rannsóknir Norðmanna á því hvaða möguleikar kunna að felast í þóríni sem þar finnst. Í næstu færslum, ætlar Orkubloggið að beina athyglinni að þessu frumefni sjálfs þrumuguðsins. Þórs!
Stutt er síðan Orkubloggið var með nokkrar færslur um úran og hvernig það er nýtt i kjarnorkuverum. Eitt vandamálið við úran er að það finnst óvíða í vinnanlegu magni. Endurvinnsla á úrani leysir reyndar þann vanda að nokkru leyti. En skapar um leið mikla hættu. Af því hægt er að nota endurunnið úran í kjarnorkusprengjur. Þess vegna er t.d. Bandaríkjastjórn fremur andvíg endurvinnslu á úrani. Slíkt auðveldar vafasömum mönnum aðgang að auðguðu úrani og eykur líkur á misnotkun; að fleiri ríki geti búið til kjarnorkuvopn.
Þórín, aftur á móti, er annars konar og nánast útilokað að nýta það í kjarnavopn. Og svo er líka til miklu meira af þóríni heldur en úrani. Auk þess skal minnt á að einungis um 0,7% af úrani nýtist beinlínis til að framleiða eldsneyti fyrir kjarnaofna (þ.e. U 235 samsætan, eins og tryggir lesendur Orkubloggsins auðvitað vita frá eldri færslum um úran). Fyrir vikið er þórín hugsanlega mun álitlegri kostur en úran. Og því vel þess virði að spá aðeins betur í þetta frumefni þrumuguðsins.
Það fer alltaf smávegis í taugarnar á mér hvað Íslendingar hafa litið notað öll gömlu, flottu heitin frá þjóðveldistímanum. Eða öllu heldur úr goðafræðinni, vildi ég sagt hafa. Meðan Norðmenn hafa nánast náð einkarétti á Óðni og Þór, er Ísland enn fast í einhverri leiðinda uppáþvingaðri kristnitöku. Þórsnes urðu Jónsnes. Og man varla eftir einu einasta íslenska örnefni þar sem Óðinn kemur við sögu. Enda er það svo, að meðan www.odin.no ein af mikilvægustu heimasíðum norska ríkisins, er www.odinn.is heimasíða hjá sundfélagi. Hálf fúlt.
Nefni þetta bara af því þórín, er einmitt kennt við Þór (thorium – thor). Heitið kom þannig til að Norðmaður að nafni Jens Esmark, sem segja má að hafi verið einn fyrsti jöklafræðingurinn, fann sérkennilegt grjót heima í Noregi. Og sendi það til greiningar til Svía nokkurs; efnafræðingsins fræga, Berzelius. Og það var Berzelius hinn sænski sem greindi efnið í grjótinu sem frumefni- og nefndi það þórín. En til að sagan sé rétt er vert að nefna að það mun reyndar hafa verið sonur Esmark sem fann grjótið og kom með það til pabba síns. Þetta var 1828.
Upp á íslensku mætti e.t.v. kalla grjót með þóríni, t.d. þórgrýti? Mynd af slíku þórgrýti er hér aðeins ofar í færslunni. Það liðu reyndar mörg ár þar til menn gerðu sér grein fyrir því að þórín væri óvenjulega merkilegt efni. Líklega má segja að einn af feðrum kjarneðlisfræðinnar, Ernest Rutherford, hafi verið sá fyrsti sem rannsakaði þórín almennilega. Þegar hann uppgötvaði geislavirkni í úrani og þóríni og hvernig kjarninn hrörnar – og gat þannig skilgreint helmingunartíma fyrstur manna. Ef ég man rétt.
En sem sagt: Þórín er efni sem gæti nýst vel í kjarnorkuvinnslu. Í reynd er það svo, að verði þórín nýtt til kjarnorkuframleiðslu gerist það með þeim hætti, að það tekur auðveldlega við nifteindum og umbreytist í úransamsætu. Nánar tiltekið samsætuna U 233. Sem er mjög kjarnakleyf.
Til að gera málið sáraeinfalt, er sem sagt unnt að nota þórín sem grunn að eldsneyti fyrir kjarnorkuver. Það er í fyrsta lagi áhugavert sökum þess mikla magns af þóríni sem finnst í náttúrunni. Í annan stað (eins og Jón Baldvin sagði svo oft!) yrði þá minni hætta af því að óvandaðir menn komist yfir efni í kjarnorkusprengju (samsætan U 233 nýtist illa sem efni í kjarnorkusprengju). Í þriðja lagi veldur tækniferillin við notkun þóríns í kjarnorkuver því að hætta á háskalegri og stjórnlausri keðjuverkun er hverfandi (eins og gerðist t.d. í Chernobyl). Loks eru líkur á að byggja megi þórín-kjarnaver með þeim hætti að kjarnorkueldsneytið frá þóríninu endist allan líftíma versins.
Enn sem komið er, er þessi tækni á rannsóknastigi. Sem fyrr segir er mikið af þóríni í Noregi. Og þar tala menn nú jafnvel um að reisa þórín-kjarnorkuver í Telemark. Þar sem Þjóðverjar komust yfir þungavatnið í heimsstyrjöldinni síðari. Og norska andspyrnan sprengdi upp vinnsluna þar og bjargaði því að Nasista-Þýskaland gæti orðið sér úti um kjarnorkusprengju. Góðir strákar, Norðmenn.
Næst mun Orkubloggið segja frá rannsóknum og hugmyndum Norðmanna um nýtingu þóríns, sem orkugjafa. Ásamt því, auðvitað, að nefna snillinginn Carlo Rubbia, sem er ítalskur eðlisfræðingur og Nóbelsverðlaunahafi. Rubbia er nefnilega bæði talsmaður þess að þórín verði notað til kjarnorkuframleiðslu – og að þjóðirnar við Miðjarðarhaf byggi upp orkuframleiðslu sem Orkubloggið hefur ítrekað snobbað fyrir: Concentrated Solar Power eða „brennipunkta-sólarorka“.