Noregur, Bergen – Ókeypis rafmagn
Grein/Linkur: Ókeypis rafmagn í dag
Höfundur: Morgunblaðið
.
.
September 2023
Ókeypis rafmagn í dag
Neytendur í Ósló og Bergen, tveimur stærstu borgum Noregs, greiða ekkert fyrir rafmagnsnotkun í dag, frá miðnætti til miðnættis, vegna rigningatíðar undanfarið en skemmst er að minnast regnveðursins Hans sem olli stórtjóni í Austur-Noregi í byrjun mánaðarins.
Rafmagnsverð í Noregi veltur á stöðunni í stórum vatnsmagasínum sem safna í sig regnvatni. Lækkar verðið eftir því sem vatnsstaðan er hærri en að sama skapi greiða neytendur rafmagnsnotkun sína dýrara verði í þurrkatíð.
Framleiðendur greiða neytendum
Er þetta í annað skiptið sem heil byggðarlög njóta ókeypis rafmagns en skammt er frá fyrsta skiptin, það var 8. ágúst, eftir að Hans hafði geisað. Í raun táknar þetta að raforkuframleiðendur greiða íbúum téðra borga fyrir að nota framleiðsluna.
Í Kristiansand kostar kílóvattstundin hins vegar um 94 aura, rúmar tíu íslenskar krónur, svo verð á mismunandi svæðum fylgir úrkomu þar.
Norska veðurstofan greindi frá því í síðustu viku að meðalhitastig ágústmánaðar hefði verið 0,9 gráðum hærra en í fyrra og um leið hefði úrkoma í mánuðinum verið 45 prósent meiri en í meðalári. Veðurstöð í Suður-Noregi mældi 392,7 millimetra af regni í ágústmánuði sem er 257 prósentum yfir meðaltali mánaðarins.