Rör í rör – Kerfið fékk ekki að þróast

Grein/Linkur: Er rör í rör lagnakerfið horfið?

Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: 

.

ror ror b

.

Nóvember 2004

Er rör í rör lagnakerfið horfið?

Ekki svo að einhver hafi týnt þessu kerfi í orðsins fyllstu merkingu, ekki þannig að það hafi fokið á haf út af vörubílspalli undir Hafnarfjalli; samt sem áður er full ástæða til að leita að því og að allir lagnamenn spyrji sjálfa sig hver hafi orðið örlög þess.

En áður en lengra er haldið er sjálfsagt að skýra svolítið nánar hvað „rör-í-rör“-kerfi er, þeim sem allt þykist vita hættir til að vaða elginn og ætlast til að allir séu innvígðir í fræðin.

ror i rorRör-í-rör“-kerfi er lagnakerfi úr plaströrum, það er notað bæði til að leggja venjuleg ofnakerfi, einnig til neysluvatnslagna, bæði fyrir heitt og kalt vatn. Galdurinn er sá að plaströrið, sem vatnið rennur um, er dregið inn í annað rör. Þannig er hægt að leggja þetta um húsið endilangt, í gólf sem veggi. Ef eitthvað skyldi koma fyrir vatnsrörið er einfaldlega hægt að draga það út og annað inn í staðinn. Þessi aðferðafræði er þekkt hjá rafvirkjum, þeir leggja rör um allan hússkrokkinn og draga síðan rafmagnsvíra í rörin.

Þetta lagnakerfi hefur marga góða kosti en tveir skara þó fram úr. Hinn fyrri er sá að ef rör bilar rennur vatnið inn í ytra rörið og skilar sér á lægsta punkt þar sem vera á, samkvæmt fræðunum, niðurfall sem tekur við vatninu, það getur verið í baðherbergi eða þvottahúsi. Hinn stóri kosturinn er sá að geta skipt um rör án þess að þurfa að brjóta og bramla veggi og gólf.

Þetta kerfi var í upphafi þróað í Sviss fyrir aldarfjórðungi og síðan hafa fjölmörg fyrirtæki víðsvegar um Evrópu skapað sín eigin kerfi undir völdum nöfnum.

Lagnamenn hérlendis tóku þessu kerfi fagnandi og haldin voru mörg námskeið til að þjálfa menn í að leggja þau, en af einhverjum ástæðum hefur notkun þessa lagnakerfis ekki orðið eins útbreidd og þeir bjartsýnustu bjuggust við. Sérstakar vonir voru bundnar við það að notkun þess mundi stórlega draga úr vatnstjónum og er ekki nokkur vafi að þessi lagnamáti gerir það.

En því verður ekki á móti mælt að þetta kerfi, „rör-í-rör“-lagnakerfið, er umtalsvert dýrara en önnur kerfi og það er ekki nema von að húsbyggjendur horfi í hverja krónu, að minnsta kosti að vissu marki.

Kerfið fékk ekki að þróast

Í upphafi var fylgt mjög ströngum reglum; allt efni skyldi vera frá sama framleiðanda, framræsing hugsanlegs lekavatns skyldi vera tryggð að fáum en öruggum stöðum þar sem vatnið gæti horfið án þess að valda skaða, jafnvel voru settar hérlendis enn strangari reglur og kröfur en erlendis.

Var þörf á þessum mjög svo ströngu reglum? Því er hægt að svara neitandi og skal reynt að rökstyðja það nokkuð. Eina hættan sem steðjar að rörunum, pex plaströrum, er sú að mannshöndin skemmi þau og það hefur gerst. Þar koma oft við sögu aðrir iðnaðarmenn en pípulagningamenn, sem vinnu sinnar vegna þurfa að bora í gólf og veggi. Það þarf litlar áhyggjur að hafa af því að rörin bili nema vegna slíkra utanaðkomandi áfalla. En ef slík óhöpp gerast kemur í ljós hve heppilegt er að geta skipt um rörin án þess að brjóta og bramla, skemmda rörið út, heilt inn í staðinn.

En af hverju er þetta kerfi dýrara en önnur lagnakerfi? Ekki eru pexrör dýrari í slíkum lögnum, þau eru notuð við margskonar aðstæður, Barkinn, sem pexrörin eru dregin í, ekki er hann svo dýr, ódýrari en einangrunarhólkar sem ella væru stundum notaðir.

Skýringin eru tengidósirnar sem hvarvetna var krafist að væru settar þar sem rörin komu út úr vegg, þær voru og eru fokdýrar.

Og það er talsvert sem þarf af slíkum dósum í eitt einbýlishús. Þar geta verið 12 ofnar, þar þarf 24 dósir, í baðherbergi og þvottahús kann að þurfa 8 dósir, samtals eru þetta 32 dósir sem kosta skildinginn, í heilli blokk verður þetta umtalsverður póstur.

En er hægt að spara dósirnar og halda samt eiginleikum kerfisins? Já tvímælalaust og sú þróun er hafin erlendis.

Ef við ætlum að halda þeirri kröfu til streitu að hægt sá að skipta um borað eða neglt pexrör án þess að hreyfa við flís á vegg er hægt að komast af með í mesta lagi 6 dósir í einbýlishús í stað 32.

Í Svíþjóð er farið að leggja ofnakerfi þannig að engar dósir eru notaðar. Rörin koma einfaldlega út úr veggnum bak við ofninn og tengjast þaðan við stúta hans, barkinn um pexrörið skorinn slétt við vegg. Þetta er engum til ama og enginn sér þetta. Á sama máta er hægt að tengja heitt og kalt vatn í skápum undir vaski í eldhúsi og handlaug í baði og auðvitað við vegghengda salernið.

Það er einna helst að nota þurfi tengidósir við blöndunartæki í baði og þvottahúsi og við vatnsstút fyrir þvottavél.

En nú er best að ganga endanlega fram af rétttrúnaðarmönnum; það er hægt að tengja við öll tæki án þess að nota dýrar dósir, sú staða getur komið upp að þá þyrfti að höggva frá stútum ef skipta þyrfti um rör. En slysin gerast yfirleitt á byggingartímanum áður en bað og þvottahús eru flísalögð.

Tökum aftur upp umræðuna um „rör-í-rör“-kerfið og leyfum því að þróast, skerum af því agnúana og gerum það samkeppnisfært í verði.

Það verður aldrei af þessu lagnakerfi skafið að það er besta vörnin gegn vatnskaða, gleymum því ekki.

Fleira áhugavert: