Stundum er sagt að mannveran sé einn allsherjar vani, það sem einstaklingurinn hefur gert í gær gerir hann í dag og mun gera á morgun. Ekki er nokkur vafi á að þessi eiginleiki, vaninn, getur verið af hinu góða og gagnlega. Það hjálpar hverjum og einum að komast í gegnum lífið, það er svo margt sem er „rútína“ svo ein lítil sletta fái að fljóta með.

En það er einnig þekkt að vaninn getur orðið slæm árátta, ef einhver hefur tekið upp slæma siði verða þeir oft fastir í farinu þeim sjálfum og öðrum til skapraunar og leiðinda. En vaninn getur einnig stafað af leti, einstaklingurinn hefur gert þetta svona og nennir ekki að hugsa um hvort hægt sé að gera það öðruvísi. Svo eru þeir umbyltingasinnuðu sem alltaf eru að reyna að finna nýjar leiðir, lenda auðvitað hvað eftir annað í blindgötum, en oft leiðir þetta til betri lausna. Sumir eru svo uppátækjasamir að samferðamenn þeirra dæma þá allt að því með lausa skrúfu.

Allt þetta er þekkt þegar kemur að tækninni og þar er lagnatæknin ekki aldeilis undanskilin. Það hefur áður verið bent á það hvað sumir hönnuðir eru fastir í farinu, láta vanann ráða hönnun hita- og lagnakerfa, gárungar hafa kallað þess konar hönnun á slangmáli „kópýpeist“ en hér er aðeins reynt að milda slettuna með íslenskari stafsetningu.
En komir þú inn á verkstæði, segjum dekkjaverkstæði, eða í matörubúð svo sem Bónus, Krónuna, Tíu-ellefu og svo mætti lengi telja, mætir þér yfirleitt alltaf sama hitatækið; hitablásarinn. Nú er ekkert víst að þú takir eftir hitablásaranum, þú horfir á manninn sem skiptir um dekkið eða starir úr þér augun á ríkulegan forða hvers kyns matvæla, hollra sem óhollra eða þarfra sem óþarfra. Blásarinn er oftast fyrir ofan sjónlínu og áhuginn á öðru en aðleita að hitagjafa ef á annað borð hitinn er nægjanlegur.

Ef litið er fyrst á verkstæðin, hvort sem þar er skipt um dekk eða eitthvað annað gert, framleiddir hlutir eða þar er lagerhald á hverskonar vörum. Þarna hefur hitablásarinn verið svo sjálfsagður hitagjafi í áratugi að líklega hefur tæplega nokkrum hönnuði dottið í hug að annað kæmi til greina.
Er hitablásarinn heppilegt hitatæki við slíkar aðstæður?

Því má eflaust svara bæði neitandi og játandi. Þó hefur hann slæma galla og ekki síður er það bagalegt að uppsetningu þeirra er nær ætíð ábótavant. Lítum fyrst á hvað neikvætt er við þetta útbreidda hitatæki. Þar má nefna hljóðið, mótorinn og viftan gefa frá sé talsvert hljóð sem stundum kemur að sök, annars staðar ekki svo sem þar sem starfsemin er svo hávær að blásarahljóðið drukknar. Sums staðar fylgja starfseminni talsverð óhreinindi, má þar nefna dekkjaverkstæði enn og aftur, þau óhreinindi fara eðlilega á flakk. Hitablásarinn sogar að sér loft og blæs því yfir menn og málleysingja, hrærir í óhreinindum sem er engan veginn hollt fyrir öndunarfærin. Í verslunum er einnig ryk á ferðinni en þar er það hljóðið sem er það hvimleiða. Sanngirninnar vegna verður að nefna það að hitablásarar eru mismunandi háværir og vonandi er meira farið að velja þá eftir því.

En hverju er ábótavant við uppsetningu hitablásara?

Það getur verið röng eða ófullnægjandi stýring á hitanum, stýring sem gætir ekki nægjanlega vel að nýtingu heita vatnsins sem um element hitablásarans rennur. Þetta er þó líklega frekar sjaldgæft. Hins vegar er tvennt annað sem nær ætíð er ekki gert eins og ætti að vera.

Í fyrsta lagi ætti að vera rykgrind eða ryksía sogmegin við blásarann. Að koma að gömlum blásara sem er búinn að puða árum saman er ekki fögur sjón. Elementið er fullt að ryki og skít sem er orðið þar fast og stórskaðar hitagjöfina, hefur auk þess ausið ryki og óhreinindum yfir stafsmenn þeim til óhollustu.
En það er ekki nóg að setja upp ryksíu, hana verður að hreinsa eða skipta út með vissu millibili.

Í öðru lagi virðast hinir bestu fagmenn ekki gera sér grein fyrir hvað það er nauðsynlegt að einangra vandlega lögnina sem flytur heita vatnið til blásarans. Hvar sem komið er og lagnir og búnaður skoðaður þá eru þessar leiðslur óeinangraðar. Á leiðinni missir vatnið svo og svo mikinn varma og eflaust hugsa margir sem svo að þessi varmi farið út í rýmið sem hita á, en það nýtist lítið. Ef vatnið tapar á vegferð sinni 10-20°C hita þá tapar hitablásarinn enn þá meira prósentvís af afkastagetu sinni.

En hvað getur komið í stað fyrir hitablásarann?

Í flestum tilfellum er best að velja hitakerfi sem ekki sjást og menga ekki loftið sem starfsfólk og viðskiptavinir anda að sér.

Slík hitakerfi eru gólfhitun eða geislahitun.