Norðurskautið – Orkulindir

Grein/Linkur: Takk fyrir mig

Höfundur: Ketill Sigurjónsson

Heimild: Orkubloggið

.

.

Takk fyrir mig

arctic_drilling

arctic_drilling

Þann 18. apríl 2008 birtist fyrsta færsla Orkubloggsins.

Ástæða þessarar uppátektar að byrja á Orkublogginu, var af tvennum toga. Annars vegar hálf leiddist mér í þessu MBA-dútli hér í Köben. Fram yfir áramót var ég í vinnu með náminu. En henni hætti ég í byrjun mars – og eftir það var MBA-námið eina viðfangsefnið. Fjölskyldan flutti heim á Klakann góða um áramótin, svo maður hékk yfir tölvunni á kvöldin. Og þá var það einn daginn að Orkubloggið skyndilega fæddist. Með fyrstu lufsufærslunni, sem nefndist „Orka og jarðhiti“. Stefnan var að vera með færslu á hverjum degi – sem tókst – þó stundum væri innihaldið kannski ekki mjög djúpt. En sumar færslurnar eru barrrasta ekki sem verstar – þó ég segi sjálfur frá.

Cartoon_hot_carbon

Cartoon_hot

Hin ástæðan að baki Orkublogginu var sú að mér fannst – og finnst enn – furðu lítil umfjöllun um orkumál í íslenskum fjölmiðlum. Bloggið var innlegg til að vekja fleiri til umhugsunar um þennan gríðarlega mikilvæga málaflokk. Nú verður m.a. fróðlegt að sjá hvaða nýju áherslur munu koma með nýjum forstjórum Orkuveitu Reykjavíkur og Landsvirkjunar. Ég er nokkuð viss um að senn verða verulegar breytingar á þessum stofnunum – vonandi til hins betra fyrir alla landsmenn.

Nú er náminu hér lokið og stefnan sett heim á leið (í kreppuna og atvinnuleysið – sem þýðir auðvitað að næsta gullæði er bara rétt handan við hornið). Um leið hyggst ég sem sagt svæfa Orkubloggið. Það sem orðið er, fær þó að dvelja áfram hér á internetinu um sinn. Og hver veit nema bloggið vakni aftur til lífsins síðar. Af nógu er að taka. T.d. er ósagt frá ævintýrum einnar stærstu olíufjölskyldu Bandaríkjanna, ljúflinganna í Hunt Oil. Allt of lítið hefur verið fjallað um jarðhita og vatnsorku. Tilefni hefði verið til að segja frá olíuvinnslu úr sandi í Kanada. Og nýbyggingum, sem þaktar eru bláum sólarsellum. Af nógu er að taka.

Til að ljúka þessu ætla ég aðeins að fjalla um Norðurskautið og hvaða ríki munu koma til með að eignast orkulindirnar þar.

Arctic-oil-gas

Arctic-oil-gas

Allt umhverfis Norðurskautið fer fram mikil olíu- og gasvinnsla. Og eftir því sem íshellan hörfar, eins og virðist vera að gerast, mun verða horft æ meir til þessara svæða.

Byrjað er eins konar kapphlaup um yfirráð Norðurskautsins. Fyrir ári síðan sendu Rússar kafbát undir íshelluna og komu fyrir rússneska fánanum á hafsbotni Norðurpólsins. Þarna er dýpið meira en 4 þúsund metrar.

Því miður fyrir Ísland yrði til lítils fyrir okkur að gera tilkall til lögsögu á hafsvæðinu umhverfis Norðurpólinn. Þau ríki sem munu rífast um Norðurskautskökuna eru Rússland, Noregur, Grænland (Danmörk), Kanada og Bandaríkin. Allsendis óvíst er hvernig þau mál fara, en þar mun skipta mestu jarðfræði svæðisins og náttúruleg tengsl þess við umrædd lönd. Þarna munu landgrunnsákvæði Hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna líklega leika sitt stærsta hlutverk nokkru sinni.

Ástæða þess að það skiptir máli að ráða yfir Íshafinu og botni þess, er af ýmsum toga. Eitt er rétturinn til siglinga stórra fragtskipa. Annað eru náttúruauðlindirnar á svæðinu. Samkvæmt nýrri skýrslu Bandaríkjastjórnar er gert ráð fyrir að norðan heimsskautbaugs séu enn ófundnar 90 milljarðar tunna af olíu. Og einnig gríðarlega mikið af gasi. Skýrsla þessi segir að mestur hluta gassins muni finnast norður af Síberíu. En stærstur hluti olíunnar út af Alaska og við austurströnd Grænlands. Það sem kannski er mest spennandi, er að olían undir hafbotninum við Austur-Grænland gæti teygt sig inn í íslenska lögsögu. En þetta eru nú meira fabúleringar en vísindi.

Arctic_lomonosov_ridge

Arctic_lomonosov_ridge

Myndin hér til hliðar sýnir þann hluta hafsbotnsins, sem kann að hafa afgerandi þýðingu við ákvörðun lögsögumarka á Norðurskautinu. Þetta er s.k. Lomonosov-hryggur; kenndur við rússneska vísindamanninn Mikhail Lomonosov sem uppi var á 18. öld.

Lomonosov-hryggurinn teygir sig nánast þvert eftir botni Íshafsins, milli Síberíu annars vegar og Grænlands og Kanada hins vegar. Rússar ætla sér að sanna að hryggurinn sé náttúrulegt framhald Rússlands og því eigi lögsögumörk þeirra að miðast við hrygginn. Sem myndi þýða að mjög stór hluti Norðurskautsins félli undir lögsögu þeirra. Aðrar mikilvægar neðansjávarmyndanir á svæðinu eru t.d. Alpha- og Mendeleev-hryggurinn og Gakkel-hryggurinn (sem stundum hefur verið kallaður Nansen-hryggurinn). Þessir neðansjávarhryggir eru einnig kenndir við Rússa; landfræðinginn Yakov Gakkel og efnafræðinginn Dimitri Mendeleev.

arctic_map_russia_claim

arctic_map_russia_claim

Hvernig lögsaga yfir auðlindum á Norðurskautinu mun skiptast er mál sem ekki mun ráðast alveg á næstunni. Það sem etv. fyrst mun reyna á, er rétturinn til siglinga. Ef svo fer sem horfir, gætu opnast nýjar siglingaleiðir milli Kyrrahafs og Atlantshafs. Bæði norður af Kanada (Norðvestur-leiðin) og norðan við Síberíu (Norðaustur-leiðin – stundum einfaldlega kölluð Norðurleiðin). Það er einmitt síðarnefnda siglingaleiðin, sem gæti haft verulega þýðingu fyrir Ísland. Skip frá Kyrrahafi kæmu norðan úr Íshafinu og varningur þeirra færi annað hvort til Evrópu eða austurstrandar N-Ameríku. Hugsanlega yrði þá reist stór umskipunarhöfn á Íslandi.

arctic_sea_routes

arctic_sea_routes

Íslendingar virðast almennt eiga erfitt með að gleypa þá hugmynd að hætta geti stafað af hlýnandi loftslagi. Sem er auðvitað ekki skrýtið, því hugsanlega verða Íslendingar sú þjóð sem mest hagnast á loftslagsbreytingum. Það er þó alls ekki víst; ennþá eru t.d. uppi kenningar um að Golfstraumurinn muni sveigja af leið og á Íslandi komi til með að kólna stórkostlega. Ég held þó að flest okkar séu nokkuð bjartsýn um að við séum u.þ.b. að detta í lukkupottinn.

Loks vil ég þakka öllum lesendum samfylgdina. Og takk fyrir athugasemdir og ábendingar. Ég hlakka til að koma heim. Á Klakann góða.

Fleira áhugavert: