Öryggislokar – Sterkir á örlagastundu

Grein/Linkur:  Veikir punktar sterkir á örlagastundu

Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: 

.

Öryggislokar

Öryggisloki fyrir lagnakerfi

.

Febrúar 1999       

Veikir punktar sterkir á örlagastundu

Veiku punktarnir verða  sterkir á örlagastundu Stundum heyrast þær raddir, að öryggisventlar séu með öllu óþarfir í hitakerfum. Þetta er ekki rétt. Öryggisventlar hafa oft komið í veg fyrir mikinn skaða.

Gufuvélin er af flestum rakin til Skotans James Watt og gjarnan nefnt ártalið 1763, en gufuvélin er miklu eldri og margir höfðu komið við sögu hennar á undan Skotanum, fyrsta vélin er jafnvel talin hafa verið gerð í Alexandríu í Egyptalandi 130 árum fyrir Krists burð.

.

Tengd mynd

Gufuvél frá 1867 – Mynd: Wikipedia 20.06.2023

.

En eitt af því fyrsta sem menn gerðu sér grein fyrir, þó efalaust eftir mörg óhöpp og slys, var „veiki punkturinn“, hann var mikilvægasta öryggið.

Þannig varð öryggisventillinn til, ventill sem opnaðist við ákveðinn þrýsting og hleypti gufunni út, þannig kom hann í veg fyrir að stórslys og miklar skemmdir yrðu á skipum eða heilum verksmiðjum. Ekki síður kom öryggisventillinn í veg fyrir örkuml og dauða þeirra sem voru að vinna í námunda við gufuvélarnar.

Sögur eru til um það að í upphafi eimskipaaldar hafi skipstjórum hlaupið kapp í kinn og lagt í æðisgengnar kappsiglingar og jafnvel sett helsi á öryggisventil vélarinnar svo hann gat ekki opnast, þannig fékkst meira afl og með því var hægt að skáka keppinautinum.

En því miður fór það oft á annan veg, menn skákuðu sjálfum sér og skipshöfn sinni beina leið yfir í annan heim, þegar gufuvélin sprakk í loft upp og skipið þar með.

Engum slíkum sögum fer af íslenskum skipstjórum eftir að eimskipin hófu Íslandssiglingar.

Það er ekki víst að almennt geri menn sér ljóst hvað felst í heiti stærsta skipafélags hérlendis, Eimskipafélags Íslands. Það var skýrt eftir þeirrar tíðar tækni þegar það var stofnað, en gufa og eimur er tvö nöfn á sama fyrirbæri, sem þekkist á hverju heimili þegar gleymst hefur að lækka strauminn undir kartöflupottinum, þá streymir gufa upp úr honum og jafnvel sýður uppúr.

Öryggisventlar eru víða

Enn þann dag í dag eru settir öryggisventlar á öll hitakerfi, en stundum heyrast þær raddir að þeir séu með öllu óþarfir, þrýstingur sé það lítill að engin hætta sé á ferðum.

Þetta er ekki rétt, þó ekki sé um lífshættu að ræða hafa öryggisventlar oft komið í veg fyrir mikinn skaða. Það kemur fyrir að of mikill þrýstingur kemst inná hitakerfi og ef öryggisventillinn ekki hleypir út yfirþrýstingi, hvað gerist þá? Næsti „veiki punkturinn“ tekur við og í flestum tilfellum eru það ofnarnir, þá er að sjálfsögðu átt við stálofna sem eru nær eingöngu notaðir í nýrri byggingum.

En því miður er lítið hirt um viðhald lagnakerfa og eitt af því sem gengur úr sér er öryggisventillinn. Með tímanum verður hann stirður, jafnvel fastur, með þeim afleiðingum að hann opnast ekki á ögurstundu.

Stundum slappast hann og á sunnudegi fer hann að væla og gefa frá sér litla bunu af heitu vatni og fljótlega fyllast hitakerfin af gufu. Ráðagóður húseigandi bjargar málunum sjálfur, skýst í Metró, kaupir tappa og teflonrúllu og skrúfar í stútinn, ekkert vatn, engin gufa og ekki heldur neinn öryggisventill.

Því ekki „veikir punktar“ víðar?

Ef við ofhlöðum rafkerfið, eins við samleiðslur eða útleiðslur, slá öryggin út, straumurinn fer af kerfinu. Þessi tækni hefur verið þróuð enn frekar með lekaliðanum, hann hefur ábyggilega bjargað mörgum mannslífum og gerir jarðtengingu rafkerfa ekki eins mikilvæga og áður þó sjálfsögð sé, en hún byggist eins og alkunnugt er á eldingavara Benjamíns Franklín.

Á hverri bílvél er innsteyptur tappi á blokk vélarinnar, sem á að spýtast út og bjarga henni frá því að springa ef kælivatnið frýs, en bjargar þó ekki alltaf. Nú eru veður öll válynd og ekki annað að gera en þreyja þorrann og góuna, en því miður berast fregnir af ýmiss konar hermdarverkum Kára, heilu þökin af hlöðum og skemmum hverfa út í buskann, einn Hornfirðingur fékkmeira að segja óvænta flugferð flugvélarlaust. Önnur þök hafa tæst og kurlast í sundur undan ofurefli vindanna.

Í flestum tilfellum hefði mátt koma í veg fyrir þessa eyðileggingu og þann skaða sem menn verða fyrir með þessari einföldu en sjálfsögðu tækni, sem notuð er við gufuvélar og ekki síður raf- og hitakerfi.

Þetta væri einfaldlega gert með því að setja „veika punkta“ eða öryggisventla á öll þök þar sem búast má við að æðandi vindar geti myndað yfirþrýsting, sem verður að svo miklum krafti að lyft getur heilum þökum og slitið allar festingar. Þetta yrði einfaldlega gert með flekum á þaki eða göflum sem væru með miklu veikari festingar en þökin að öðru leyti.

Þegar vindurinn æðir og yfirþrýstingur myndast undir þakinu opnast flekarnir og þrýstingurinn kemst út ekki síður en inn, flekarnir geta hinsvegar hangið fastir svo þeir skapi ekki hættur fyrir menn og málleysingja.

Þannig björgum við ofnunum frá því að springa og þannig er auðvelt að koma í veg fyrir að heilu þökin springi, sem oft hefur í för með sér miklu meiri skaða en á þökunum eingöngu.

Fleira áhugavert: