Nordlink sjávarkapall – Noregur, Þýskaland 1400MW

Grein/Linkur: NordLink: 1.400 MW tenging Noregs og Þýskalands

Höfundur: Ketill Sigurjónsson

Heimild: Orkubloggið

.

.

Maí 2015

NordLink: 1.400 MW tenging Noregs og Þýskalands

Norska raforkuflutningsfyrirtækið Statnett hefur um árabil unnið markvisst að því að byggja upp nýjar raforkutengingar við nágrannalöndin. Í vikunni sem leið var svo tilkynnt um að búið sé að semja um smíði og lagningu neðansjávarkapals milli Noregs og Þýskalands.

HVDC-NordLink-Cable

HVDC-NordLink-Cable – Smella á myndir til að stækka

Þessi nýi sæstrengur nefnist NordLink og mun marka tímamót í raforkuflutningum neðansjávar. Síðustu árin hafa Norðmenn kannað ýmsa möguleika á nýjum kapaltengingum milli Noregs og annarra Evrópulanda. Lengsti kapallinn af þessu tagi í dag er NorNed-kapallinn milli Noregs og Hollands, sem hóf rekstur árið 2008. Sá kapall er með flutningsgetu sem nemur 700 MW.

Þessi áhugi Norðmanna á auknum tengingum við nágrannalöndin kemur ekki á óvart. Reynsla þeirra af tengingunum er afar góð. Verkefnin hafa skilað góðri arðsemi og eflt raforkuöryggi. Þess vegna hafa Norðmenn verið áhugasamir um fleiri tengingar af þessu tagi.

Það er ekki síður áhugi í nágrannalöndum Noregs að tengjast norska raforkukerfinu. Síðustu misserin hefur t.a.m. verið bærilegur skriður á viðræðum milli Norðmanna og Breta um lagningu rafstrengs milli landanna. Nýlega birtust fréttir um að fjárfestingaákvörðun um þann kapal verði tekin fljótlega; jafnvel á allra næstu mánuðum. Áætlað er að þessi kapall verði helmingi stærri en NorNed eða 1.400 MW. Hann verður einnig töluverð lengri eða rúmlega 700 km (NorNed er 580 km).

Nú stefnir þó allt í að næsti metkapallinn af þessu tagi verði áðurnefndur sæstrengur milli Noregs og Þýskalands. Þar er nefnilega ekki aðeins kominn pólitískur stuðningur við kapalinn, heldur er nú líka búið að ná samningum um smíði hans ásamt nauðsynlegum spennistöðvum.

Nordlink-Signing_Februar-2015

Nordlink-Signing

Það verða ABB og Nexans sem munu smíða kapalinn. Hann verður alls um 570 km langur og þar af verða 516 km neðansjávar. Þetta verður að sjálfsögðu jafnstraumskapall með spennistöðvum við hvorn enda kapalsins. Þær verða í Tonstad í Noregi og Wilster i nágrenni Hamborgar í Þýskalandi. Gert er ráð fyrir að rafmagnið byrji að streyma þarna á milli eftir einungis tæp fimm ár; fyrstu prófanir verði síðla árs 2019 og kapallinn komist svo í fullan rekstur árið 2020.

Kostnaðurinn er áætlaður á bilinu 1,5-2 milljarðar EUR eða um 225-300 milljarðar ISK. Enda er um að ræða afar öflugan kapal; flutningsgetan samsvarar 1.400 MW. Það er hvorki meira né minna en tvöföld flutningsgeta NorNed. Þetta er til marks um hraða þróun í þessari tækni, sem veldur því m.a. að sá tímapunktur færist nær að kapall milli Íslands og Evrópu verði að raunveruleika.

NordLink verður í eigu tveggja fyrirtækja; norska Statnett (sem er í eigu norska ríkisins) og þýska fyrirtækisins DC Nordseekabel. Þetta þýska fyrirtæki er í   helmingseigu hollenska raforkuflutningsfyrirtækisins Tenne T annars vegar (Tenne T rekur einnig flutningskerfi handan landamæranna í Þýskalandi) og hins vegar þýska þróunar- og fjárfestingabankans KfW (bankinn sá er í eigu þýska ríkisins).

Icelink-HVDC-UK-NG-nov-2013-4

Icelink-HVDC-UK-NG-

Viðskiptamódel NordLink gengur út á að auka nýtingu á þýskri vindorku með því að flytja hana til Noregs á næturnar, þ.a. Norðmenn geti safnað í miðlunarlónin og svo umbreytt þeirri orku í rafmagn og flutt um strenginn til Þýskalands á daginn (þegar raforkuverð er hærra). Þannig bæði eykur strengurinn hlutfall endurnýjanlegrar orku í orkubúskap Evrópu og gerir Norðmönnum kleift að nýta betur sveigjanleika vatnsaflsins til að bæta arðsemi norsku orkufyrirtækjanna (sem að mestu eru í opinberri eigu rétt eins og íslensku orkufyrirtækin eru).

Þetta er ekki ósvipað því viðskiptamódeli sem væri áhugaverðast fyrir Íslendinga vegna sæstrengs milli Íslands og Evrópu (IceLink). Í því sambandi má minna á að af einhverjum ástæðum hafa íslensk stjórnvöld ennþá ekki orðið við ósk Breta um formlegar viðræður um slíkan rafstreng. Hvarvetna annars staðar í hinum vestræna heimi myndu stjórnvöld fagna slíkum áhuga á gjaldeyrisskapandi og arðbærum viðskiptum.

Fleira áhugavert: