Vatnsauðlindin – Lítill gaumur gefinn, sagan 2010

Grein/Linkur: Erum við líka að glata vatninu?

Höfundur: Árni Gunnarsson

Heimild:

.

.

.

Júlí 2010

Erum við líka að glata vatninu?

Árni Gunnarsson 1940-2022

Á Íslandi eru margvíslegar auðlindir, sumar nýttar og aðrar ekki. Samkvæmt lögum á þjóðin fiskinn í sjónum, hún ræður yfir mikilli vatnsorku og jarðhita, náttúrufegurð og hreinleika. Ein er sú auðlind, sem lítill gaumur hefur verið gefinn. Það er vatnið. Á allra síðustu árum hefur orðið ljóst, að drykkjarvatn í heiminum er af mjög skornum skammti og margar þjóðir eiga nú í miklum erfiðleikum að afla þess.

Sérfræðingar telja, að innan skamms tíma verði skortur á hreinu drykkjavatni eitt mesta vandamál heimsbyggðarinnar. Verðmæti drykkjavatns muni fara hratt vaxandi og það sé þegar orðið dýrmætara en olía. Einn þessara sérfræðinga hefur látið svo ummælt, að þriðja heimstyrjöldinn verði háð um vatn.  Að undanförnu hafa mörg erlend fyrirtæki leitað eftir því, að fá keypt eða leigð vatnsréttindi hér á landi. Vitað er um eitt, sem hefur gert samning um leigu á notkunarrétti vatns til 90 ára. Slíkur samningur er auðvitað fáheyrður og í eðli sínu fáránlegur.

Á síðustu árum hafa auðmenn keypt jarðir víða um land. Jarðirnar skipta hundruðum og má greina, að með mörgum þeirra fylgja mikil vatnsréttindi. Leiða má að því líkur, að margir kaupendanna hafi það í huga, að nýta þessi vatnsréttindi til átöppunar og útflutnings á vatni.

Hins vegar hefur lítið farið fyrir þeirri umræðu hverjir séu hinir raunverulegu eigendur vatns og vatnsréttinda. Staða málsins er svipuð og þegar umræður hófust um eignarrétt á fiskinum í sjónum, sem lauk með samþykkt kvótalaga og misráðnum framsalsrétti.

Árið 2006 voru samþykkt ný vatnalög á Alþingi, en gildistöku þeirra var frestað til 1. júlí á þessu ári. Fljótlega varð ljóst, að gera yrði breytingar á lögunum svo almannaréttur til vatns yrði ekki fyrir borð borinn, réttindaákvæði vatnalaganna frá 2006 yrðu endurskoðuð og tekið mið af vatnatilskipun Evrópusambandsins, þar sem mikil áhersla er lögð á sjálfbæra þróun og vatnsstjórnunaráætlanir, sem taka tillit til nýtingar og verndar vatns á tilteknum svæðum, svokölluðum vatnaudæmum.

Til að taka á þessm málum var skipuð Vatnalaganefnd II. Sú nefnd skilaði frágengnu frumvarpi 1. desember á síðasta ári og náðist full samstaða allra stjórnmálaflokka um málið. Þetta frumvarp hefur nú legið hjá iðnaðar- og umhverfisráðuneytum í þrjá og hálfan mánuð og hefur ekkert bólað á afgreiðslu þess frá ráðuneytunum. Sú spurning hlýtur að vakna hvað valdi þessum drætti á afgreiðslu frumvarpsins, líklega frá embættismönnum ráðuneytanna,  í ljós þess hve gríðarlega mikilvægt er, að frumvarpið verði afgreitt frá Alþingi fyrir 1. júlí n.k..

Ef vatnalögin frá 2006 taka gildi er einboðið, að ekki verður unnt að tryggja viðgang og vern auðlindarinnar með hóflegri nýtingu. Þá verður eignaréttur á vatni, leiga vatnsréttinda, leyfisveitingar og fleira í algjöru uppnámi og þjóðin missir alla stjórn á notkun þessarar mikilvægu auðlindar og ekkert tillit tekið til hasmuna almennings.

Ef frumvarpið, sem Vatnalaganefn II samdi og samstaða er um í stjórnmálaflokkunum, kemur ekki fram á allra næstu dögum og fái skjóta afgreiðslu á  Alþingi, standa Íslendingar frammi fyrir nýju kvótamáli, þar sem fámennur hópur getur nýtt auðlind, sem er í eigu þjóðarinnar.

Hér er á ferðinni mikið hagsmunamál fyrir þjóðina í heild og er aldeilis fráleitt, að það dagi uppi á borðum ráðuneytanna. Gerist það mun Alþingi, enn á ný, afsala sér því valdi, sem það hefur til að gæta hagsmuna þjóðarinnar í bráð og lengd.

Fleira áhugavert: