Varmadælur – Eiginleikar

Grein/Linkur: Eiginleikar varmadælunnar

Höfundur:  Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: 

.

.

Júní 2001

Eiginleikar varmadælunnar

Nokkur áhugi virðist vera fyrir því að kynnast leyndardómum varmadælunnar en um hana var fjallað nýlega sem fýsilegan kost fyrir Grímseyinga og efalaust fleiri.

Sjálfsagt er að reyna að skýra fyrirbærið þótt alltaf sé hætta á við slíkar útskýringar að detta í pytt torræðinna tæknilýsinga, en reynum okkar besta.

Hugsum okkur að við séum að fara í ferðalag og meðfylgjandi mynd sé landakortið og við ætlum að hlusta á stutta lýsingu á því ósnortna víðerni sem bíður okkar.

Ferkantaða rörið með kössunum tveimur, bláum til vinstri og rauðum til hægri, er kjarninn í dælunni og þetta rör og kassarnir tveir eru fylltir með gasi eða gasvökva en þekktasta kæligasið hérlendis er ammoníak sem allir þekkja sem í frystihúsi hafa unnið.

Ammoníak og sambærilegt gas hefur þann eiginleika að sjóða við mjög lágt hitastig, þá breytist það úr flótandi formi í gas, þetta er nauðsynlegur eiginleiki til að varmadælan geti unnið.

Hugsum okkur að um græna spíralinn renni sjór, eða vatn úr Flosagjá svo eitthvað sé nefnt.

Förum þessa slóð í nokkrum þrepum.

1. Hefjum ferðina þar sem stendur uppgufari, þangað kemur gasið í fljótandi formi en breytist þar í loft eða gas réttara sagt og við það tekur það til sín varma úr sjónum eða vatninu sem er í græna spíralnum.

2. Gasið sogast síðan inn í þjöppuna þar sem þrýstingur þess eykst en við það hækkar varmi þess mikið, jafnvel allt upp í 80°C.

3. Þetta heita gas fer inn í þéttinn og gefur um leið frá sér uppsafnaðan varma til vökvans (vatnsins) sem er í rauða spíralnum sem miðlar þessum varma síðan til hitakerfa eða til að gefa heitt vatn í kranann.

4. Við það að tapa varmanum og kólna aftur þéttist gasið og verður fljótandi vökvi og þegar það fer í gegnum mótstöðuventilinn fellur þrýstingur þess og ný hringrás hefst.

Þannig gengur þetta koll af kolli, gasið í kælikerfinu er „þrællinn“ sem er stöðugt knúinn til að flytja varma frá einum stað, magna hann upp og skila honum þangað sem á að nýta hann.

Loft í stað vatns

Varmadælan getur einnig unnið með lofti í stað vatns sem varmagjafa og ef við hugsum okkur loft í báðum spírölunum í stað vatns erum við komin með kæliskáp, þetta er sams konar búnaður og vinnur stöðugt að því að snuðra uppi hvern þann varma sem inn í skápinn berst og kasta honum burtu.

Það má því segja að það sé varmadæla á hverju heimili.

Í stórum verslunum, þar sem mikið er um kælikistur og stórar kæligeymslur, fæst svo mikill varmi frá kælitækjunum að hægt er að nota hann til að hita upp umtalsvert húsrými.

Eiginleikar varmadælunnar eru þeir að safna saman lághita, þjappa honum saman og hækka hann.

Þetta er ekki ósvipað og eiming, með því að ná þessum litla 2,25% vínanda úr Egils pilsnernum með atorku og elju má að lokum fá einn sterkan.

Gleymum því ekki að varmadælan skilar 3 kílówöttum af orku fyrir hvert 1 kílówatt sem hún notar.

Fleira áhugavert: