Hvað er ryðfrítt stál?
Grein/Linkur: Ryðfrítt stál í vatnsveitulögnum
Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson
.
.
Október 2001
Ryðfrítt stál í vatnsveitulögnum
Pottsteyptir emaleraðir eldhúsvaskar munu tæplega vera í notkun í dag, en fyrir 50-70 árum þóttu þeir mikið þarfaþing. Þá voru ekki eldhúsvaskar í hverju húsi, fram að því var vaskafatið eitt notadrýgsta heimilisgagnið og úr því var skvett út fyrir dyrnar að lokinni notkun.
Síðan kom ryðfría stálið til sögunnar og hver einasti eldhúsvaskur varð ryðfrír vaskur.
Eitthvað er fjölbreytnin að aukast, plastið ryður sér til rúms þar eins og annars staðar og emaleraðir vaskar eru jafnvel farnir að sjást aftur.
Enn eitt dæmið um þá fortíðarhyggju sem sækir á nútímamanninn.
Hvað er ryðfrítt stál?
Það er til fleiri en eitt og fleiri en tvö afbrigði af ryðfríu stáli eða réttara sagt; mismunandi málmblöndur, sem allar eru þó líkar og hafa mikla mótstöðu gegn súrefni og raka, sem er orsakavaldur þess að stál tærist eða ryðgar.
Ryðfrítt stál er aðallega blanda úr stáli og nikkel, þannig fæst þessi ómetanlegi styrkur gegn tæringu. Hins vegar eru ýmis ljón á veginum, ryðfrítt stál er langt í frá eitthvert efni sem hægt er að nota við hvaða aðstæður sem er; hvarvetna þar sem ryðfrí rör eru notuð þarf að vanda frágang umhverfis rörin, hvort sem þau eru notuð óhulin, einangruð eða í jörðu.
Notkunarsvið
Vaska úr ryðfríu stáli þekkja allir og á síðari tímum er þetta efni notað meir og meir í rör til margvíslegra nota. Í matvælaiðnaði, t.d. í mjólkurbúum, eru rör úr ryðfríu stáli sem er eitthvert öruggasta fáanlega efnið í lagnir og tanka. Það er auðvelt í hreinsun, vegna þess hve efnið er hart og slétt festast efni ekki við yfirborðið.
Höldum okkur við lagnasviðið, auðvitað er ryðfrítt stál notað hvarvetna í hvers konar iðnaði, en það er önnur saga.
Við erum vön því að hreinlætistæki, svo sem handlaugar og salernisskálar séu úr postulíni með glerjungi, en hreinlætistæki úr ryðfríu stáli eru að verða talsvert algeng erlendis, lítið fer fyrir notkun þeirra hérlendis. Þau eru einkum notuð á opinberum stöðum, þar má nefna skóla og veitingahús, staði þar sem mikið mæðir á tækjunum.
Hérlendis eru frárennsliskerfi í flestum tilfellum lögð úr plaströrum, í einstaka tilfelli úr steypujárnsrörum sem kölluðust áður fyrr pottrör.
Framleiðsla frárennslisröra úr ryðfríu stáli og tengja þeim tilheyrandi fer vaxandi til nota þar sem árásargjarnir vökvar renna um kerfin.
Og nú eykst notkun á ryðfríum rörum í vatnsveitulagnir og þar eru Skandinavar í broddi fylkingar, Svíar eru framarlega sem framleiðendur.
Eldhúsvaskar úr ryðfríu stáli hafa verið notaðir óslitið hérlendis í meira en hálfa öld og lengi vel, á hinum illræmdu haftaárum, voru allir vaskar úr því efni íslensk framleiðsla.
Þar kom við sögu einn merkasti brautryðjandi í íslenskum iðnaði, Sveinbjörn Jónsson, oftast kenndur við fyrirtæki sitt, Ofnasmiðjuna við Háteigsveg í Reykjavík.
En Sveinbjörn framleiddi fleira en eldhúsvaska úr ryðfríu stáli í smiðju sinni, en það verður að bíða betri tíma að segja frá því.