Sumarhús – Lagnamál
Grein/Linkur: Frárennslismál sumarhúsa
Höfundur: Sveinn Áki Sverrisson
.
.
Maí 2003
Frárennslismál sumarhúsa
Það vefst fyrir ýmsum sumarhúsaeigendum að koma í gott horf frárennslismálum húsa sinna og er raunar þar „pottur brotinn“ í mörgum tilvikum. Sveinn Áki Sverrisson hjá VSB Verkfræðistofu hefur mikla þekkingu á þessum málaflokki.
„Yfirleitt er ekkert frárennsliskerfi í kringum sumarbústaði eins og er í bæjarfélögum. Þess vegna þarf að koma skolpi frá húsum í þar til gerðar rotþrær,“ sagði Sveinn Áki.
„Rotþró hreinsar skolp það vel að það megi setja það út í jarðveg. Rotþró er stór geymir úr plasti með einu eða fleiri hólfum og í rotþrónni á sér stað lífrænt niðurbrot á úrgangi.
Frárennsli frá þökum er leitt um sérkerfi og má ekki að leiða inn í rotþró.
Í frárennsli eru notuð PVC eða PP plaströr sem fást í byggingarvöruverslunum.
Tryggja þarf lagnir gegn frosti
Kalt neysluvatn má fá úr lækjum og tjörnum en í sumarhúsabyggðum er yfirleitt séð um það mál sérstaklega af landeiganda.
Vatnið er leitt inn í húsin um plaströr og helsta hættan sem þarf að tryggja gegn er frost. Það er gert með því grafa lagnir það djúpt að frost nái ekki til þeirra eða um einn metra – eftir aðstæðum þó.
Þar sem ekki eru hitaveitur þarf að framleiða heitt neysluvatn með rafmagni. Settur er í bústaðinn kútur, rafhitaður, slíkir kútar fást í byggingarvöruverslunum.
Loks þarf að hita bústaðinn. Ef ekki er hitaveita á staðnum til að láta renna í gegnum ofna eru notaðir rafmagnsofnar undir glugga. Ef um hitaveitusvæði er að ræða er öruggast að leggja í bústaðina lokað ofnakerfi með varmaskiptum.“
Hvað ef ekki er hægt að komast í vatn?
„Þá eru til kerfi með uppsöfnun á regnvatni. Þá eru keyptir geymar sem safnað er regnvatni í og talið er óhætt að drekka slíkt vatn.
Einnig er hægt að grafa brunna eins og gert hefur verið frá ómunatíð á Íslandi. Dælur fást til að dæla vatni upp úr brunnunum.“
Bæklingur um frárennslismál sumarhúsa að koma út
Nú er hjá Rannsóknarstofnun byggingariðnararins verið að búa til leiðbeiningar fyrir sumarhúsaeigendur og hönnuði slíkra húsa um hvernig eigi að ganga frá lagnakerfum þannig að þau séu örugg gagnvart leka og frosti. Bæklingur, svokallað RB-blað, um þetta efni á að koma út núna í maí. Í þessum bæklingi verður fjallað um öll lagnamál sem koma til greina í einum sumarbústað.