Vestmannaeyjar – Ný vatnsleiðsla, sagan 2008
Grein/Linkur: Ný vatnsleiðsla Vestmannaeyja komin á land
Höfundur: Eyjar.net
.
.
Júlí 2008
Ný vatnsleiðsla Vestmannaeyja komin á land
Það var í nótt um klukkan 01:00 að endi nýju vatnsleiðslunnar kom á land í Skansfjöru en lagning leiðslunnar hafði staðið yfir síðasta sólarhringinn.
Það var á mánudagsmorguninn að lagning hófst við Bakkafjöru en blíðskaparveður hefur verið allan tíman en talsverður straumur sem tafið hefur lagninguna að hluta. Rétt fyrir kvöldmatarleitið í gærkvöldi drógu dráttarbátarnir kapalskipið Henry P. Lading inn fyrir klettsnefið á Ystakletti og eftir það var beðið eftir komu Herjólfs til hafnar. Eftir að Herjólfur kom til hafnar hófst lokavinnan við að koma leiðslunni í land og gekk sú framkvæmd vel fyrir sig.
Það var svo um klukkan 01:00 að endi vatnsleiðslunnar kom að landi í Skansfjöru og var þá eftir að draga á land nokkur hundruð metra og sökkva hluta leiðslunnar. Starfsmenn Hitaveitu Suðurnesja nutu aðstoðar starfsmanna og tækja Gámaþjónustunnar og miðað við hversu vel aðgerðin gekk fyrir sig mætti halda að þeir hefðu gert þetta áður.
Nýja leiðslan er 8 tommu vatnsleiðsla en eldri leiðslurnar sem lagðar voru 1968 og 1971 eru 4 tommu og 6 tommu leiðslur. 2008 leiðslan mun miðað núverandi flutningsgetu eldri vatnsleiðslna flytja 30% meira vatnsmagn en þær eldri til samans. Vatnsleiðslan nýja er yfir 12.000 metrar að lengd og þyngdin yfir 1.200.000 kg. Unnið verður næstu daga að frágangi leiðslunnar og tengingu hennar í Vestmannaeyjum og gert er ráð fyrir því að vatni verði hleypt á hana fyrir þjóðhátíð.