Orka – Frumorka, Orkuframboð, Orkueftirspurn, Orkuspá

Grein/Linkur: Fróðleikur um orkumál og orkuskipti

Höfundur: Ari Trausti Guðmundsson

Heimild: 

.

.

Janúar 2023

Fróðleikur um orkumál og orkuskipti

Ari Trausti Guðmundsson

Í tölublaði Bændablaðsins birtast hugtök úr umræðu og skrifum um stöðu orkumála og full orkuskipti. Leitast er við að útskýra þau og setja í innra samhengi í þessum stórvægu og yfirgripsmiklu málaflokkum. Alls verður fjallað stutt og laggott um 48 hugtök, fjögur til fimm samtímis í grein í hverju tölublaði. Frumorka, Orkuspá, fjölnýting, stýrikerfi, glatvarmi, flutningstap, vetnisknúnar vélar, þolmörk, skerðanleg orka og metanól; þetta eru allt dæmi um fjölbreytt umfjöllunarefni Ara Trausta Guðmundssonar jarðvísindamanns, rithöfundar og fyrrum þingmanns sem skrifaði m.a. greinarflokk um umhverfismál í Bændablaðið fyrir allnokkrum árum.

1. hluti:

Þegar orka á í hlut

Frumorka er eitt en orkuframboð eða orkueftirspurn annað. Við hvað miðast orkuspá?

Frumorka

Orka í boði á Íslandi (sem rafmagn, heitt vatn og eldsneyti) kallast frumorka. Um 85% frumorkunnar er framleidd heima fyrir með endurnýjanlegum hætti. Þar af felast 60% í hitaveitum landsins en 25% er raforka frá vatnsafls- og jarðvarmavirkjunum.

Óendurnýjanlega orkan, 15%, á formi innflutts jarðefnaeldneytis, er notuð í samgöngum og atvinnurekstri á land, sjó og í lofti. Frumorkan nýtist misvel eftir því hvernig hún er notuð. Við bifreiðanotkun nýtist raforka allt að 90% frá rafhlöðu til að knýja ökutækið en 10% raforkunar verður að varma sem hitar umhverfið. Til samanburðar nær bensínvél að nýta um 30% orku eldsneytisins til að hreyfa bíl en 70% verða að varma til umhverfisins.

Orkuframboð

Orkuframboð birtst í varma þess heita vatns og gufu sem jarðvarmavirkjanir skila inn á lagnakerfi hitveitna og til landsmanna, enn fremur í raforkunni sem flyst með flutnings- og dreifikerfinu frá raforkuverum til kaupenda og loks í aðgengilegum birgðum jarðefnaeldsneytis, þ.e. olíu, bensíni, þotueldsneyti (svipað og steinolía) og kolum.

Orkuframboð (eins og orkunotkun) er gefið upp í kWst (kílówattstundum), MWst (megawattstundum), GWst (gígawattstundum) eða TWst (terawattstundum).

Kíló: þúsund, mega: milljón, gíga: milljarður, tera: þúsund milljarðar, ein trilljón). Meðalársnotkun meðalheimilis er um 4.000 kWst á ári. Ársframboð á raforku á Íslandi er rúmlega 19 TWst.

Orkueftirspurn

Orkueftirspurn er sveiflukennd; háð allmörgum þáttum svo sem mannfjölgun, heilsu og heilbrigði í samfélaginu, efnahagsástandi, náttúrunytjum, nýsköpun, þróun þjónustu og alþjóðamálum. Meginþróunin í áratugi, hér og erlendis, hefur verið í átt til aukinnar orkueftirspurnar. Hraðar breytingar vegna stefnumörkunar, efnahagsáfalla eða mikils uppgangs í atvinnumálum, náttúruvár, eða vegna tækniþróunar geta kallað á aukna og/eða breytta orkueftirspurn (stundum nefnd orkuþörf).

Orkuspá

Áratugum saman hefur Orkuspárnefnd gefið út svonefnda Orkuspá. Hún áætlar notkun raforku, jarðvarma og jarðefnaeldsneytis á tilteknu tímabili, á almennum markaði og til stóriðjunnar. Raforkuspá fyrir almenna markaðinn, til 40 ára í senn, er unnin af undirhópi nefndarinnar.

Nú liggur fyrir gagnvirkt orkuskiptalíkan Orkustofnunar með innsýn í skipti jarðefnaeldsneytis í nýja orkugjafa og áhrifin á raforkuframboð (www.orkuskiptaspa.is). Gagnvirkt spálíkan Landverndar er líka aðgengilegt og þá á sérstakri vefsíðu sem vísað er til á www.landvend.is. Samtök iðnaðarins, Landsvirkjun, Samorka og Efla standa enn fremur að vefsíðunni www.orkuskipti.is þar sem unnt er að spá gagnvirkt í orkueftirspurn framtíðar.

Fleira áhugavert: