Golíat Barentshafi – Risa olíulind

Grein/Linkur: Leyfi nr. 229: Golíat

Höfundur: Ketill Sigurjónsson

Heimild: Orkubloggið

.

.

Leyfi nr. 229: Golíat

Mjallhvít litla var rétt nýkomin á svæðið, þegar risinn ógurlegi birtist. Og færði henni blóm, með von um ástríka framtíð. Enda ekki nema u.þ.b. 50 km á milli þeirra, þessara tveggja krúttlegu orkubolta í norska Barentshafinu.

goliat_article

goliat_article

Menn voru auðvitað pínupons hræddir við að leggja mikinn pening í að leita að olíu og gasi alla leið norður í Barentshafi. En varla voru Norsararnir byrjaðir að byggja upp gasvinnsluna á Mjallhvítarsvæðinu utan við Hammerfest í N-Noregi, þegar þeir römbuðu á hann Golíat. Pissfullan af olíu.

Reyndar voru það ekki norskar skotthúfur, heldurt suðrænir töffarar með 3ja daga skegg, sem fundu olíulindirnar kenndar við Golíat. Nefnilega Ítalir frá orkufyrirtækinu Eni. Sem lesendur Orkubloggsins ættu að vera farnir að kannast vel við. Og þar með gat gönguskíðaþjóðin góða byrjað að undirbúa fyrstu olíuvinnslu norður í Barentshafi.

Goliat_area_map

Goliat_area_map

Já – einungis um 50 km suðaustan við hana Mjallhvíti hafa nú fundist nýjar og spennandi olíulindir. Sem fékk auðvitað Norsarana í Hammerfest til að brosa enn breiðar. Þar sem þeir mauluðu hádegisnestið sitt framan við tölvurnar og horfðu dreymandi út á sjóinn.

Aðdragandinn var sá að árið 1997 gáfu skriffinnarnir í norska olíumálaráðuneytinu út leyfi til olíuleitar á Golíat-svæðinu í Barentshafi. Framleiðsluleyfi nr. 229! Og haustið 2000 uppgötvaðist svo olíulindin. Næstu árin var talsverð andstaða við að fara í olíuvinnslu á þessu viðkvæma hafsvæði. Sem er ríkt af fiskimiðum og mengunarslys gæti valdið miklu tjóni. En í desember 2003 var ákveðið að slá til, eftir að ítarlegar rannsóknir höfðu farið fram á svæðinu. Og hinir rómantísku Ítalir – Gente di mare – settu allt á full swing.

Já – það var auðvitað Eni sem var fengið til að gera prufuboranirnar vegna Golíat – enda fáir með jafn mikla og góða reynslu af olíuleit á hafsbotni. Þeir ljúflingarnir suðrænu fleygðu dallinum Eiríki rauða þarna úti Barentshafið og boruðu alls þrjár holur. Eða brunna, eins og það er kallað í olíubransanum. Eni er reyndar það fyrirtæki sem hvað mest hefur komið að ævintýrinu á norska landgrunninu – komu þangað strax í upphafi partýsins á sjöunda áratugnum og hafa nú líklega ein 14 vinnsluleyfi innan norsku lögsögunnar.

Goliat_logoENI fékk 65% eignarhlut í leyfi nr. 229, Statoil átti 20% og norska fyrirtækið DNO (Det Norske Oljeselskap) 15%. Nýlega keypti Statoil DNO út og því eru nú einungis tveir handhafar að leyfinu.

Í kjölfar tilraunaborana leit út fyrir að Golíat byggi yfir u.þ.b. 50 milljón tunnum af olíu. Nú hafa tveir brunnar verið boraðir í viðbót – með þeirri ljúfu niðurstöðu að þarna séu a.m.k. 200-250 milljón tunnur. Og auðvitað gasið, sem liggur ofan við olíuna. Svo er aldrei að vita nema þetta sé rétt smjörþefurinn af olíunni af svæðinu – sólbrúnu jaxlarnir hjá Eni hafa hvíslað því að mér að þeir vonist eftir allt að 800 milljónum tunna frá Golíat!

Sjávardýpið þarna eru skitnir 340 metrar, en sjálfar auðlindirnar er að finna í tveimur lögum. Sem annars vegar eru ca. 1.000 m undir hafsbotninum og hins vegar heila 1.800 m. Þrýstingurinn virðist í lægri kantinum, þ.a. það verður ekki beint sáraeinfalt að ná svarta gullinu upp á yfirborðið. Enda er heildarkostnaður vegna vinnslunnar áætlaður um 20 milljarðar norskra króna. Sem er nú samt líklega ekki meira en svona rétt rúmlega tvær Kárahnjúkavirkjanir. Það þætti Landsvirkjun varla mikið…?

Undanfarna mánuði hefur Eni verið að velta vöngum yfir því hvernig best verði að standa að vinnslunni. Sem gæti staðið yfir í ca. 10-15 ár. Þeir í N-Noregi vildu auðvitað að vinnslan skapi sem flest störf í landi. Og vonuðust t.d. eftir því að leggja stóran og mikinn rafmagnskapal út á vinnslupallinn – sem myndi kalla á byggingu rafvirkjunar í landi.

Goliat_tech

Goliat_tech

Fyrr á þessu ári ákvað Eni aftur á móti að þeir muni nýta bortækni sem verður á hafsbotninum og fljótandi pallur verði notaður sem olíugeymir og virkjun. Væntanlega verður gasið frá Golíat nýtt til rafmagnsframleiðslunnar. Hæpið er að olíunni verði dælt í land, heldur sent beint til útflutnings. Ef fyrst ætti að senda gumsið til Hammerfest, myndi það nefnilega kosta aukalega ca. 13 milljarða norskra króna. Sem varla getur talist réttlætanlegt – nema kannski þar sem ríkir íslensk byggðastefna eins og hún gerist best.

Þess er vænst að byrjað verði að koma græjunum þarna fyrir eftir tvö ár og vinnslan byrji svo 2012. Framleiðslugetan verður þá ca. 100 þúsund tunnur á dag. Til samanburðar þá eru mestu olíuvinnslusvæði Norðmanna í dag, Tröllasvæðið og hið dásamlega gullepli Ekofisk, líklega að gefa af sér hátt í 300 þúsund tunnur daglega hvort um sig. Þannig að þetta verður sæmilegasta búbót frá honum Golíat.

Vonandi verður hinn norski Golíat langlífari en hinn íslenski Samson. Báðir voru þessir goðsögulegu risar heldur ógæfusamir í hinum upprunalegu sögnum.

samson_logo_3Svo fór, sem kunnugt er, að Samson hinn íslenski tórði einungis í fáein ár – þó menn hér héldu að umrætt eignarhaldsfélag yrði kjölfestan í íslensku atvinnu- og fjármálalífi til ókominnar framtíðar. Til allrar hamingju eiga Bjöggarnir líklega ennþá smávegis skotsilfur – sem þeir geta kannski sett í Drekasvæðið íslenska?

E.t.v. eru Norðmenn bara einfaldlega snjallari fjárfestar en Íslendingar. A.m.k. virðist flest ganga upp hjá þeim í olíuævintýrinu mikla. Og hefur gengið þokkalega í meira en 40 ár.

.

Fleira áhugavert: