Fláráðs ástand, sagan 2008 – Yfirtaka olíuauðlinda Íraks
Grein/Linkur: Fláráður og vinir hans
Höfundur: Ketill Sigurjónsson
.
.
Nóvember 2008
Fláráður og vinir hans
„Je veux devenir calife à la place du calife“. Þannig hafa margir látið sig dreyma. T.d. dreymir nú margan íslenskan stjórnmálamanninn um digran bankastjórnar-bitling. Og Fláráð stórvesír dreymdi um að verða kalífi. Rétt eins og gömlu olíurisana hefur lengi dreymt um að komast aftur yfir olíuna i Írak. Og nú rætast draumarnir hver á fætur öðrum. Meðan almenningur stendur, horfir á og blæðir.
„Ég vil verða kalífi í stað kalífans!„. Hver man ekki eftir þessari yndislegu setningu hans Fláráðs stórvesírs. Eða Iznogoud eins og hann heitir í upprunalegu frönsku útgáfunni. „Is-no-good“! Í teiknimyndasögunum um þrenninguna sprenghlægilegu; hinn sípirraða og gráðuga skíthæl Fláráð stórvesír, hinn ljúfa en vitgranna aðstoðarmann hans og grunlausu fitubolluna hann Harún kalífa.
Nú sýnist manni Ísland skyndilega lent í einu allsherjar Iznogoud-ástandi. Þar sem hefnigjarnir gamlir stjórnmálamenn og gráðugir bankastjórar sameinast í að vera klónar af stórvesírnum sjálfum. Honum Fláráði.
Og það er ekki leiðum að líkast. Í dag er Fláráður auðvitað snilldartáknmynd fyrir gömlu stóru olíufélögin. Sem nú keppast um að komast yfir einhverjar mestu olíubirgðir heimsins. Hinar svakalegu olíulindir í Írak.
Eins og sjá má á myndinni hér til hliðar er olíuveröldin í reynd tvískipt. Annars vegar eru gömlu bandarísku olíufélögin, ásamt nokkrum evrópskum kunningjum, sem öll hafa mikla reynslu og tækniþekkingu en vantar aðgang að nýjum olíulindum. Hins vegar eru nýju ríkisolíufélögin, sem ráða yfir öllum stærstu olíulindum heimsins.
Mitt í valdabaráttu þessara tveggja fylkinga liggur einskismannslandið Írak. Sem ekki er enn útséð með í hvorri klíkunni lendir. Það munskipta gríðarlegu máli. Í Írak er að finna næstmestu olíubirgðir heimsins. Einungis Sádarnir eiga meiri birgðir (og auðvitað Kanada ef olíusandurinn er talinn með).
Nýjustu fréttir eru reyndar þær, að í Írak kunni jafnvel að vera ennþá meiri olía en í arabíska sandinum. Þess efnis að allt að 350 milljarðar tunna af olíu eigi eftir að finnast í Írak! Sem er hressilega meira en þær skitnu 215 milljarðar tunna sem Sádarnir líklega eiga. Orkubloggið barrrasta svitnar af sælu við þessa tilhugsun.
Þeim sem ráða á Vesturlöndum hryllir við þeirri tilhugsun að olíulindirnar í Írak lendi undir hrammi enn eins ríkisolíufélagsins. Eins og málin hafa þróast undanfarið, bendir allt til þess að íraski olíuauðurinn eins og hann leggur sig, hafni í faðmi gömlu olíurisanna. Sem Orkubloggið leyfði sér nýlega að kalla dvergana sjö.
Nú sjáum við sem sagt möguleikann á upprisu dverganna. Eftir innrás Bandaríkjanna í Írak upphófst mikið baktjaldamakk vestur í Washington. Um það hvernig skyldi farið með olíulindir Íraka. Gömlu afkvæmi Standard Oil auðvitað slefuðu yfir því að komast í þetta massífa gums. Meðan aðrir töldu heppilegra að íraska olían yrði heldur í höndum nýfrelsaðra Íraka – og vildu einkavæða olíuiðnaðinn í Írak með aðkomu íraskra fyrirtækja.
Svo fór að sjónarmið gömlu olíufélaganna urðu ofaná. Kannski aðallega vegna þess að mennirnir í Vesturálmunni voru meðvitaðir um „hættuna“ sem annars gæti skapast – að skyndilega myndu írösk yfirvöld þjóðnýta olíulindirnar. Og kannski byrja að selja olíuna til Kínverja, Indverja eða annarra álíka vandræðagemsa. Vitað er að Kínverjar voru u.þ.b. að landa slíku samkomulagi við Saddam Hussein, skömmu fyrir innrásina í Írak.
Nei – þetta skyldi sko ekki gerast. Þarna var komið dásamlegt tækifæri til að styrkja gömlu, góðu vestrænu olíufélögin – og tryggja sér aðgang að einhverjum mestu olíulindum heimsins.
Um leið myndi Vesturlöndum hugsanlega takast að klekkja á ofurvaldi OPEC-ríkjanna. Með því að nota írösku olíuna til að neyða OPEC til að lækka olíuverðið.
Þar með myndu Bandaríkin og önnur lönd í vestrinu hugsanlega ná aftur því mikla valdi á olíumörkuðunum, sem þau misstu í kjölfar orkukreppunnar 1973 og klerkabyltingarinnar í Íran1979.
Þarna er að rætast ekki ósvipaður draumur og ljúflingurinn Fláráður stórvesír hafði – um að verða kalífi í stað kalífans! Kannski verður óhamingja Íraka, sem í áratugi máttu þola harðstjórn Saddam Hussein, til þess að við ljúflingarnir á Vesturlöndum fáum aftur ódýra olíu. Og getum nýtt hana sem eldsneyti á enn eina bóluna og staðið keik, enn um sinn.
Já – kannski renna hinir „gömlu og góðu“ dagar upp á ný. Í sumar var Pentagon einmitt búið að ákveða að Shell, BP, ExxonMobil, Chevron og Total gætu byrjað að stinga fingrunum í Íraska jörð. Svo skemmtilega vill til að þetta eru einmitt sömu olíufélögin og lengi vel réðu yfir olíunni í Írak. Í reynd allt fram til þess að Saddam Hussein þjóðnýtti gumsið árið 1972. Rétt fyrir olíukreppuna, sem Orkubloggið nefndi einmitt í síðustu færslu.
Fjárans delanum honum Saddam tókst nefnilega að fleygja vestrænu olíufélögunum burt – og var að því leyti árangursríkari en íraski hershöfðinginn Abd al-Karim Qasim, sem reyndi hið sama árið 1961. Fyrir vikið varð Saddam þjóðhetja í Írak – tímabundið – og styrkti sig mjög í endalausri valdabaráttunni þar í landi.
Því miður fékk þetta fína plan Pentagon ekki snurðulausan framgang. Einhverjir hundleiðinlegir öldungadeildarmenn vestur í Washington þurftu að skemma planið hjá Pentagon. Með því að byrja að nöldra um óeðlileg hagmunatengsl. Og þar með fresta örlítið þessari fínu fléttu hjá Pentagon.
En það er huggun harmi gegn að nú í lok september – þegar allir voru hættir að huga um annað en forsetakosningarnar þarna vestra – fékk Shell loks samning um aðgang að olíulindum í Basra.
Og nú í byrjun nóvember – fyrir örfáum dögum – bárust þær fréttir að Shell hefði að auki fengið einkarétt til 25 ára að mestöllum olíu- og gaslindum í suðurhluta Íraks. Þannig að þetta er allt í áttina. Nú verður spennandi að sjá hvaða félag fær olíuna í Kirkuk!
Já – hann Fláráður virðist barrrasta vera orðinn kalífi. Kannski ekki í Bagdad ennþá – en a.m.k. í Basra.
Og íslensku pólitíkusarnir eru aftur að komast í bankaráðin sín. Og sumir náðu bönkunum úr höndum „óreiðumannanna“ og „götustrákanna“. Gripu tækifærið og kaffærðu Glitni – og svo restina. En kannski voru íslensku bankarnir að drukkna hvort sem var…
Allt gerðist þetta án þess að íraska þjóðin eða íslenska þjóðin væru spurðar álits. Þetta er eitthvað svo sætt. En auðvitað hvílir ennþá skuggi óvissu yfir Fláráðum heimsins.