Ísland, 2008 – Vísbendingar um olíu og gas 

Grein/Linkur: Drekasvæðið

Höfundur: Ketill Sigurjónsson

Heimild: Orkubloggið

.

.

Drekasvæðið

Orkubloggið hefur beint athyglinni að olíuvinnslu á hafsbotni. Litið til þess hvernig olíuleit er að byggjast upp á djúpi Mexíkóflóans. Þar eru menn bjartsýnir um olíu- og gasvinnslu á hafdýpi sem er yfir 3 þúsund metrar.

Drekasvaedid_3

Drekasvaedid

Á Drekasvæðinu íslenska er dýpið mun minna; 1-1,5 km. Hreint smotterí. Þaðan gæti þurft að bora ca. 3-3,5 km niður í hafsbotninn til að finna olíu og gas. Tæknilega séð yrði vinnsla þarna alls ekki sú dýrasta í heimi. Aftur á móti vantar alla innviði olíuiðnaðar hér. Það er eflaust eitt af því sem dregur úr áhuga fyrirtækja eins og Diamond Offshore Drilling. Sem vitnað var í hér á blogginu í síðustu færslu.

Í dag ætlar bloggið að rekja stuttlega hvað búið er að gera á Drekasvæðinu – af hverju menn telja að þar geti hugsanlega fundist olía og gas í vinnanlegu magni og hvernig stendur til að haga leyfiskerfinu.

Dreki_sildarsmuga

Dreki_sildarsmuga

Orkubloggið hefur eins og aðrir Mörlandar auðvitað lengi verið meðvitað um ungan jarðfræðialdur Íslands. Sem mun gera vonir um olíufund á Klakanum góða að engu.

En við erum aftur á móti svo ljónheppinn að eiga lögsögu norður á Jan Mayen hrygginn. Sem sést svo prýðilega á myndinni hér til hliðar. Hluta hans svipar mjög til bæði landgrunns Noregs og Grænlands. Olíuauðlindir norska landgrunnsins eru alkunnar og einnig er gert ráð fyrir mikilli olíu við austurströnd Grænlands. Sama gæti einmitt verið upp á teningnum á Jan Mayen hryggnum – a.m.k. ákveðnum hluta hans. Eftir því sem sunnar dregur á hryggnum, hverfur hann undir landgrunn Íslands, sem er miklu yngri jarðfræðimyndun.

Drekasvaedi_4

Drekasvaedi_

Ýmislegt jákvætt hefur komið fram við rannsóknir á svæðinu. Niðurstöður af hljóðendurvarpi, gerð jarðmyndana og ummerki um gas í yfirborðsseti eru allt vísbendingar um að olíu- og gas sé þarna að finna. Þetta mun sérstaklega eiga við um norðurhluta Drekasvæðisins. Sem liggur við efnahaglögsögumörkin að Jan Mayen.

Þar hefur sérstaklega verið afmarkað ca. 4.400 ferkm svæði, sem telst hvað álitlegast. Af því eru um 3.600 ferkm innan íslensku lögsögunnar (afgangurinn er innan þeirrar norsku annars vegar og sameiginlegrar norsk/íslenskrar lögsögu hins vegar, sbr. landgrunnssamningurinn milli Íslands og Noregs frá 1981).

oliudekasvaedi_1

oliudekasvaedi

Umræddar ályktanir um hugsanlegt íslenskt olíuævintýri eru ekki síst byggðar á skýrslu norska olíuleitarfyrirtækisins Sagex. Sem Jón Helgi Guðmundsson, oftast kenndur við í BYKO, á stóran hlut í. Eins og Orkubloggið hefur auðvitað löngu áður sagt frá.

Eignarhluti Jóns Helga í Sagex er í gegnum íslenskt fyrirtæki hans, Lindir Resources. Samkvæmt heimasíðu Linda, á félagið einnig í norska olíuleitarfyrirtækinu Nor Energy og í kanadíska Athabasca Oil Sands (AOSC). Hið síðastnefnda sérhæfir sig í olíuvinnslu úr olíusandi – sem er einhver óþrifalegasti bransinn í olíuiðnaðinum. Orkubloggið hefur ekki hugmynd um hvort þetta hafa reynst góðar fjárfestingar fyrir Lindir. En það er mikil synd og skömm að íslenskt fjármagn skuli ekki hafa horft meira til orkugeirans. Og hefur takmarkast um of við vatnsafl og jarðvarma.

Sagex-skýrslan er unnin með hliðsjón af þeim rannsóknum, sem gerðar hafa verið á Drekasvæðinu, m.a. hljóðendurvarpsmælingum norska InSeis. Þeir sem hafa áhuga á kolvetnisauðlindum svæðisins, munu geta keypt öll þessi gögn. Ekki veit ég hvert verðið er – en þeir hjá Sagex virðast duglegir að hæpa upp þann mikla ávinning sem svæðið búi yfir. Sem er væntanlega bara eðlileg markaðssetning á þeim gögnum sem í boði eru.

Nú virðist loks vera komið að því að senn verði boðin út leyfi til olíuleitar, rannsókna og vinnslu á svæðinu. Svæðinu verður þá skipt í reiti, svipað og t.d. er gert á norska landgrunninu. Skv. skýrslu iðnaðarráðuneytisins um Drekasvæðið frá 2007, verður hver reitur rétt tæplega 400 ferkm. Og alls um 110 reitir í boði. Þetta fyrirkomulag á þó eftir að ákveða endanlega.

oil_spar_platform

oil_spar_platform

Sjá má framtíðina fyrir sér þannig: Strax á næsta ári verða leitarleyfin væntanlega boðin út. Þá fá útvalin fyrirtæki heimild til frekari rannsókna innan tiltekinna reita. Til að fá slíkt leyfi þarf viðkomandi fyrirtæki að uppfylla kröfur um sérþekkingu og fjárhagslegt bolmagn til að geta komið að olíuvinnslu. Veiting leyfanna verður í höndum Orkustofnunar.

Olíuleitin mun felast í ítarlegri jarðeðlisfræðilegum mælingum, t.d. hljóðendurvarpsmælingum og ýmsum sýnatökum. Ef fyrirtækið telur leitina gefa tilefni til starfsemi á svæðinu hefjast rannsóknaboranir. Þær eru einnig háðar samþykki Orkustofnunar, en að sjálfsögðu á viðkomandi fyrirtæki forgang að leyfi til rannsóknaborana á sínum reit. Til stendur að ránnsóknaleyfin verði gefin út til allt að 16 ára.

helicopter_platform

helicopter_platform

Það er fyrst við þessar rannsóknaboranir að borpallar (eða borskip) munu skjóta upp kollinum á Drekasvæðinu. Ekki ólíklegt að það verði einmitt fljótandi pallar, svipaðir þeim sem Orkubloggið hefur þröngvað upp á lesendur sína í síðustu færslum. Einhver ár eru í að þetta gerist.

Reynist rannsóknaboranirnar jákvæðar er svo ráðist í næsta stig – sjálfa vinnsluna. Fyrirtækið sem var handhafi rannsóknaleyfisins að viðkomandi reit, mun væntanlega geta fengið vinnsluleyfi til allt að 30 ára í senn.

Komi til olíuvinnslu á Drekanum mun skapast talsverður fjöldi starfa í landi við að þjónusta pallana. Þyrluflug íslenskra auðmanna er sagt á hraðri niðurleið þessa dagana. En þarna gætu íslenskir þyrluflugmenn etv. fengið nýjan starfsvettvang. Væntanlega yrði það Egilsstaðaflugvöllur, sem yrði nýttur fyrir þetta flug. Einnig myndu birgðaflutningar verða með skipum – hugsanlega yrði Húsavík eða Vopnafjörður kjörinn fyrir þá starfsemi?

bell430-1

bell430

Vandi er að spá um það hvaða fárhagslega ávinningi olíuvinnsla á Drekasvæðinu gæti skilað Íslandi. Þar eru óvissuþættirnir fjölmargir. Fer t.d. algerlega eftir því hversu mikil olía finnst á svæðinu, kostnaði við vinnsluna, hversu hátt olíuverð verður á næstu árum og áratugum, skattlagningarprósentunni o.s.frv.

Þess vegna er eiginlega útí bláinn að nefna einhverjar tölur. En hafa má í huga að í Noregi er vinnslan hressilega skattlögð. Sem hefur gert norska olíusjóðinn útbólginn og Norðmenn einhverja ríkustu þjóð heims. Þar er skattlagningin í olíuiðnaðinum líka all svakaleg eða nærri 80% (tekjuskattur plús sérstakur olíuskattur). Eitt er víst – ef veruleg olía finnst á Drekasvæðinu verður þetta margfalt meiri fjárfesting en Kárahnjúkavirkjun og allt það álvers-ævintýri var. Kannski ráðlegast að skipta fyrst yfir í alvöru gjaldmiðil, áður en þetta hugsanlega olíuævintýri fer af stað!

lng-tanker320

lng-tanker320

Einnig er mögulegt að verulegt gas sé að finna á Drekasvæðinu. Sem myndi væntanlega þýða að lögð yrði leiðsla í land og hér byggð upp verksmiðja sem kælir gasið og breytir því í fljótandi gas. Um slíka starfsemi geta lesendur Orkubloggsins t.d. lesið í færslunni “Mjallhvít”. Slík LNG-vinnsla myndi kalla á umtalsverða orku – m.ö.o. nýjar virkjanir. Menn ættu kannski að doka við með hugmyndir um Bakkaálver og geyma orkuna á Þeistareykjum fyrir meira spennandi verkefni en enn eina álbræðslu. Hafa orkuna fremur tilbúna til framleiðslu á LNG – fljótandi gasi. Og þá verður Húsavík kannski eins konar Hammerfest Íslands.

Nú gæla menn við að olían á Drekasvæðinu gæti enst í ca. 50 ár, en þetta er að sjálfsögðu skot í myrkri. Svo eru önnur svæði á íslenska landgrunninu, sem einnig hafa hugsanlega að geyma olíiu og gas. Kannski meira um þau síðar.

oil_platform_fire_night

oil_platform_fire_night

En hvenær getum við gert ráð fyrir því að eldspúandi olíupallar verði komnir í fulla vinnslu á Drekasvæðinu? Þ.e.a.s. ef svarta gullið finnst. Sumir segja eftir svona áratug. Orkubloggið myndi veðja á að það taki allt að 15 ár. Rannsóknaboranir gætu byrjað strax 2010-12. En vinnsla verður varla komin á fullt fyrr en um eða eftir 2020.

Það er a.m.k. tómt mál að tala um að íslenskt olíuævintýri reddi málunum fyrir þjóðina nú. En kannski horfa sumir fyrrverandi bankamógúlar engu að síður gráðugum augum til rannsóknaleyfanna. Þó enginn gráðugri en Orkubloggið. Sem er þegar farið að svipast um eftir rétta flotpallinum.

Peningalyktin er spennandi í nefi margra. En minnt skal á að það er alls óvíst að olía finnist á Drekasvæðinu. Þó svo sumir leyfi sér bjartsýni, er vel mögulegt að þarna sé því miður enga vinnanlega olíu að hafa. En ávinningurinn gæti vissulega orðið mikill ef sullið leynist þarna í faðmi Drekans.

———————————————————————

gaddafi_sunglasses

Gaddafi

PS:  Reyndar munu olíuhagsmunir Íslands teygja anga sína mun víðar, en segir hér að ofan. T.d. hafa verið að birtast fréttir um eign gamla Kaupþings í írska olíuleitarfyrirtækinu Circle Oil. Sem er m.a. í olíuvinnslu víða í N-Afríku. Enda mun líbýska ríkið eiga stóran hlut í þessu félagi.

Kannski hafa hinir dularfullu og ofurlítið slímugu angar íslensku bankanna fjárfest í fleiri olíufyrirtækjum. Alveg örugglega. Og jafnvel í N-Afríku. Það myndi gleðja Orkubloggið. En kannski er Gaddafi hershöfðingi ekki  alveg sá sem maður ímyndaði sér fyrstan í slíkt samstarf með íslenskum bankamönnum. „Circle completed a GBP 33 million equity funding – principal subscribers were Libya Oil Holdings and Kaupthing bank„:

Fleira áhugavert: