Uppruni Orku – 90% seldur úr landi
Grein/Linkur: Tæplega 90 prósent uppruna íslenskrar orku seld úr landi
Höfundur: Heimir Már Pétursson
.
Þótt nánast öll orka sem framleidd er á Íslandi teljist græn endurnýjanleg orka er hún það ekki á pappírunum. Aðeins 13 prósent raforku eru rakin til endurnýjanlegra orkugjafa en 63 prósent til kola og olíu og 24 prósent til kjarnorku. Íslensk fyrirtæki og heimili þurfa nú að greiða sérstaklega fyrir að geta sagt að raforkan sem þau nota sé græn orka.
Þessar tölur um uppruna raforku á Íslandi árið 2021 má finna hjá Orkustofnun. Þetta er vegna þess að íslensk orkufyrirtæki hafa selt leyfi til erlendra orkufyrirtækja til að kalla hluta af óhreinni orku þeirra græna orku og hafa þau stundum verið kölluð aflátsbréf. Þannig getur til dæmis þýskt kolaorkuver keypt upprunavottorð af Landsvirkjun og selt evrópskum viðskiptavinum sínum græna orku á pappírunum.
Á móti taka Landsvirkjun eða önnur orkufyrirtæki á móti óhreinni orku í bókhaldi sínu. Þess vegna voru um 63 prósent af allri raforku sem seld var á Íslandi árið 2021 óhrein orka. Íslendingar teljast því stórnotendur á orku sem framleidd er með kolum og kjarnorku þótt engin slík orka sé framleidd á Íslandi.
„Það breytir engu um að öll orkan okkar er græn. Þetta er eitthvað fyrirkomulag sem á að ýta undir að fjármunir séu settir í að framleiða meira af grænni orku. Það er hugsunin á bakvið þetta,“ sagði Guðlaugur Þór.
Íslensk orkufyrirtæki leggi aukna áherslu á sölu upprunavottorða en tekjur af þeim voru um 850 milljónir samkvæmt svari iðnaðarráðherra til þingmanns Miðflokksins árið 2018.
Umhverfisráðherra segir orkufyrirtækin nú þegar hafa umtalsverðar tekjur af sölu upprunavottorða til evrópskra orkufyrirtækja sem framleiða orku með til dæmis kolum.
„Nú eða að þau verða þá að kaupa sér svona syndaaflausn. Syndaaflausnin er keypt af grænum orkuframleiðanda sem á að nota peningana til að framleiða meiri græna orku,“ segir Guðlaugur Þór.
En á sama tíma og evrópsk orkufyrirtæki geta kastað syndum sínum á bakvið sig með þessum hætti, sitja íslensku orkufyrirtækin uppi með syndirnar á pappírunum og þurfa að koma þessari óhreinu orku í verð. Svarið er að þau stefna nú að því að selja íslenskum fyrirtækjum og heimilum græn upprunavottorð þannig að þau greiði þá hærra verð fyrir græna orkuvottun; fyrir orku sem er græn hvort sem borgað er fyrir vottunina eða ekki.
Berglind Rán Ólafsdóttir framkvæmdastýra Orku náttúrunnar segir að þetta muni leiða til hærra orkuverðs til þeirra sem vilji vottun.
„Eins og staðan er núna eru þetta fimm til fimmtán prósent hækkanir sem maður sæi fyrir á næstu mánuðum og örfáu árum. Svo myndi þróunin fara eftir því hvernig verðið á upprunaábyrgðunum þróast í Evrópu,“ segir Berglind Rán
Þótt aðeins 13 prósent uppruna íslenskrar orku teljist endurnýjanleg í dag segir hún hægt að svara mögulegri eftirspurn allra álveranna og annarra fyrirtækja í landinu fyrir upprunavottun. Yfirleitt sé vottun fyrir tiltekið magn orku selt til skamms tíma og því hægt að selja til nýrra kaupenda.
„Þangað til fyrir ekki löngu síðan var það bara gott hjá fyrirtækjum sérstaklega að vera með endurnýjanlega orku en ekki endilega nauðsynlegt. Nú er það farið að verða miklu krítískara hjá fyrirtækjum,“segir Berglind Rán Ólafsdóttir.