Innleiðing Orkustefnu ESB – Sagan, 1-4 orkupakkar

Grein/Linkur: Forvarnir og viðbrögð vegna gróðurelda

Höfundur: Eyjólfur Ármannsson, formaður Orkunnar okkar

Heimild: 

.

.

Nóvember 2022

Orkustefna ESB innleidd á Íslandi

Við undirritun EES-samningsins 1992 byggði samstarf ESB á ákveðnum sáttmálum.

Eyjólfur Ármannsson

Rómarsátt­málinn frá 1957 er stofnsáttmáli Evrópubanda­lagsins (EB). „Single European Act“ 1986, var fyrsta meiri háttar endurskoðun Rómarsáttmálans og hafði að markmiði stofnun innri markaðarins. Maastricht­sáttmálinn 1992 stofnar ESB og gamla þriggja stoða kerfið. Fyrsta stoðin þar var innri markaðurinn. Samvinna í orkumálum hefur verið einn af hornsteinum ESB frá stofnun Kola­ og stálbandalagsins 1951.

Lissabonsáttmálinn frá 2009 var ekki hluti af EES­samningnum við undirritun. Með Lissabon­ sáttmálanum setur ESB sér markmið um orkustefnu ESB sem orkusambandi er ætlað að ná. Orkusamvinna er ekki það sama og orkusamband. Líkt og með aðra sáttmála ESB samþykktu aðildarríkin Lissabonsáttmálann. EFTA­ríki EES­samningsins gerðu það hins vegar ekki. Með EES­ samningnum samþykkti Ísland að taka þátt í orkusamvinnu en ekki aðild að orkusambandi ESB. Það felur í sér óumsamda grundvallarbreytingu og mikilvægt atriði hefði Ísland hafnað þriðja orkupakkanum.

Kjarninn í orkustefnu ESB er samtenging raforkukerfa í einn heildstæðan innri raforkumarkað ESB. Orkustefnu ESB er skipt í fimm víddir, sem eru eftirfarandi:

  1. Orkuöryggi
  2. Fullsamþættur innri orkumarkaður
  3. Orkunýtni
  4. Aðgerðir í loftslagsmálum afkolefnavæðing efnahagslífsins
  5. Rannsóknir, nýsköpun og samkeppnishæfni

ESB innleiðir orkustefnu sína með orkupökkum og er markmið þeirra að koma á samtengdum innri orkumarkaði í áföngum. Með samþykkt orkustefnu ESB er Ísland að tengjast markaði með lögum sem það tengist ekki í raun. Það er fráleitt.

Fyrsti orkupakkinn

Fyrsti orkupakkinn var tekinn upp í EES­samninginn með stjórnskipulegum fyrirvara með ákvörðun sameiginlegu EES­ nefndarinnar nr. 168/1999. Hann var tekinn upp í íslenskan landsrétt með raforkulögum nr. 65/2003. Með lögunum tók uppbygging raforkumarkaðar á Íslandi mið af reglum EES­svæðisins og innri markaðar ESB.

Markmið ESB hefur verið skýrt frá upphafi og það er að koma á innri raforkumarkaði ESB með samtengdum og rekstrarsamhæfðum raforkukerfum á milli ESB­ríkja. Það kemur skýrt fram í inngangi fyrstu orkutilskipunarinnar, þar sem segir m.a. eftirfarandi:

  • Mikilvægt er að gerðar verði ráðstafanir til að tryggja að innri markaðurinn geti starfað hnökralaust. Innri markaðurinn er svæði án innri landamæra þar sem tryggður er frjáls flutningur á vörum, fólki, þjónustu og fjármagni, sbr. 1. mgr. inngangsins.
  • Sérstaklega er mikilvægt að koma á fót innri markaði á sviði raforku til að auka skilvirkni í framleiðslu, flutningi og dreifingu á raforku og auka um leið öryggi orkuframboðs og samkeppnishæfni hagkerfis bandalagsins og taka tillit til umhverfisverndar, sbr. 4. mgr.
  • Stofnun innri markaðar á sviði raforku stuðli að samtengingu og rekstrarsamhæfi kerfanna, 6. mgr.

Annar orkupakkinn

Annar orkupakkinn var tekinn upp í EES­samninginn með stjórnskipulegum fyrirvara með ákvörðun sameiginlegu EES­ nefndarinnar í árslok 2005. Þar er Ísland skilgreint sem „lítið einangrað raforkukerfi“.

Annar orkupakkinn samanstendur af fjórum ESB­gerðum; tveimur um raforku (raforkuviðskipti yfir landamæri og reglur innri raforkumarkaðar ESB); einni um reglur innri jarðgasmarkaðar ESB; og einni um að koma á fót evrópskum hópi eftirlitsaðila með rafmagni og gasi, fyrirrennara Samstofnunarinnar.

Í orkupakka tvö gilda ESB­ gerðirnar um jarðgas um Ísland. Þær gilda hins vegar ekki um Ísland í þriðja orkupakkanum. Ekki er vitað hver rökin eru fyrir þessari miklu stefnubreytingu. Hún sýnir að ákvarðanir sameiginlegu EES­nefndarinnar eru ekki óum­ breytanlegar og geta tekið breytingum með síðari ákvörðun.

Þriðji orkupakkinn

Þriðji orkupakkinn var tekinn upp í EES­samninginn með stjórnskipulegum fyrirvara með ákvörðun sameiginlegu EES­ nefndarinnar vorið 2017. Þriðji orkupakkinn samanstendur af átta ESB­gerðum, þrem um raforku, fjórum um jarðgas og einni um stofnun Samstarfsstofnunar eftirlitsaðila á orkumarkaði. Gerðirnar um jarðgas gilda ekki um Ísland samkvæmt ákvörðun líkt og þær gerðu ekki í orkupakka tvö. Sama ætti að eiga við um ESB­gerðirnar um raforku og um Samstarfsstofnunina. Þessar gerðir ættu ekki að gilda um Ísland, þar sem landið er ekki tengt innri raforkumarkaði ESB með sæstreng.

Evrópuþingið telur að með þriðja orkupakkanum hafi verið lagður hornsteinn að innri orkumarkaði ESB. Hann feli einnig í sér aukið frelsi á innri raforku­ og gasmarkaði ESB. Reglugerð um að koma á fót Samstarfsstofnuninni sé grundvallarbreyting á innri orkumarkaði ESB.

Þriðji orkupakkinn er að stórum hluta tæknileg markaðslöggjöf sem ætlað er að auka virkni innri orkumarkaðar ESB og felur í sér bæði uppfærslu á öðrum orkupakka og viðbót. ESB­gerðir orkupakkans um raforku lúta að 1) auknum aðskilnaði samkeppnis­ og sérleyfisþátta; 2) aukinni neytendavernd; 3) eflingu raforkueftirlits; og 4) Samstarfstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði.
Ekki þarf orkupakka ESB til að auka samkeppni, neytendavernd og raforkueftirlit á raforkumarkaði á Íslandi. Það má gera með íslenskum lögum. Á Íslandi eru í gildi samkeppnislög og lög um neytendavernd og lagareglur um raforkueftirlit og getur Ísland sett sér sjálfstætt reglur sem er á þessum sviðum sem tengjast sérstaklega íslenska raforkumarkaðinum. Sameiginlega EES­nefndin skilgreindi Ísland sem „lítið einangrað raforkukerfi“ í ákvörðun sinni um annan orkupakkann. Ísland er það enn í dag. Ísland átti því ekki að skuldbinda sig að þjóðarrétti til að innleiða þriðja orkupakkann.

Fjórði orkupakkinn – Hrein orka fyrir alla Evrópubúa

ESB samþykkti 2019 viðamikla uppfærslu á umgjörð orkustefnu ESB til að auðvelda orkuskipti frá jarðefnaeldsneyti til hreinnar orku og til að standa við skuldbindingar ESB vegna Parísarsamkomulagsins frá 2015 um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

„Hrein orka fyrir alla Evrópubúa“
kallast fjórði orkupakki ESB og er hann skref í innleiðingu á orkusambandsstefnu ESB sem samþykkt var árið 2015. Orkupakkinn samanstendur af átta ESB­gerðum, sem eru eftirfarandi:

  1. Tilskipun um orkunýtingu bygginga 2018/844
  2. Endurskoðuð tilskipun um endurnýjanlega orku (ESB) 2018/2001
  3. Endurskoðuð tilskipun um orkunýtni (ESB) 2018/2002
  4. Reglugerð um orkusambandið og loftslagsaðgerðir (ESB) reglugerð
    2018/1999
  5. Reglugerð um áhættuviðbúnað í raforkugeiranum (ESB) 2019/941
  6. Reglugerð um stofnun Evrópusambandsstofnunar fyrir samvinnu orkueftirlitsaðila 2019/942 (endurgerð)
  7. Reglugerð um innri markað fyrir raforku (ESB) 2019/943
    (endurgerð)
  8. Tilskipun um sameiginlegar reglur um innri markað fyrir raforku (ESB) 2019/944 (endurgerð)

Reglugerð ESB um stofnun ESB­stofnunar fyrir samvinnu orkueftirlitsaðila er endurgerð á reglugerð þriðja orkupakkans um að koma á fót Samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði. Í orkupakka tvö hét ESB­gerðin 2003 ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar um að koma á fót evrópskum hópi eftirlitsaðila með rafmagni og gasi, sem var fyrirrennari Samstarfstofnunarinnar. Þetta er þróunin frá orkusamvinnu yfir í orkusamband ESB.

Reglugerð ESB um innri markað fyrir raforku er endurgerð á reglugerð þriðja orkupakkans um raforkuviðskipti yfir landamæri. Það sem áður var reglugerð um raforkuviðskipti yfir landamæri er orðið að reglugerð um innri markaðinn. Samrunaþróunin í reglugerðum ESB er frá aforkuviðskiptum yfir landamæri yfir í innri markað fyrri raforku. Ástæður endurgerða á ESB­ gerðum er uppfærsla vegna meiri samruna, ekki ólíkt uppfærslu á forriti eða símaappi.

Samþykki Ísland fjórða orkupakka ESB verður það enn eitt afsalið á fullveldi okkar Íslendinga í orkumálum. Með EES­samningnum samþykkti Ísland að taka þátt í orkusamvinnu en ekki aðild að Orkusambandi ESB. Það felur í sér óumsamda grundvallarbreytingu. Ísland á því að hafna fjórða orkupakkanum og segja upp þeim þriðja, þar sem forsendur fyrir tengingu við innri raforkumarkað ESB (sæstrengur) eru ekki til staðar og EES­samningurinn kveður ekki á um orkusamband. Með innleiðingu orkupakkanna er Ísland án samninga að afsala sér fullveldi í orkumálum.

Fleira áhugavert: