Vatnstjón – Fyrirhyggja, þekking, ný lagnaefni

Grein/Linkur: Gamlar syndir og nýjar

Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: mbl

.

.

Júlí 2004

Gamlar syndir og nýjar

Margt getur valdið vatnstjónum og orsökum þeirra má skipta í tvo aðalflokka, gamlar syndir og nýjar. Flest vatnstjón verða vegna gamalla synda og oft er hægt að koma í veg fyrir þau tjón með fyrirhyggju. Það er hinsvegar ekki hægt að segja að húseigendur sýni alltaf fyrirhyggju, jafnvel þó þeim sé ljóst að í húsi þeirra leynist galli sem fyrr eða síðar getur komið í ljós í öllu sínu veldi og valdið miklum skaða.

En hverjar eru þessar gömlu syndir? Þær eru gömul mistök sem sjá hefði mátt fyrir, en það er til lítils að reyna að finna einhverja sökudólga, það breytir engu í dag og í þá daga unnu flestir í góðri trú.

Í fyrsta lagi eru það lagnaleiðir sem urðu almennur um 1960. Þá komst í tísku, ef svo má að orði komast, að leggja miðstöðvarlagnir og lagnir fyrir heitt og kalt vatn í raufar í neðstu steyptu gólfplötu hvort sem hún var í kjallara eða á fyrstu hæð.

Svört, snittuð stálrör eru úrvals lagnaefni ef þeim er valinn réttur umbúnaður, en þar sem raki kemst að þeim að utanverðu er voðinn vís. Það gerðist í gólfraufunum, jarðraki leitaði upp í þær og tærði rörin. Stundum hrundu þau á nokkrum árum og verst varð útkoman þar sem vikur eða rauðamöl var sett beint á rörin til einangrunar. Þeir sem búa í 20-50 ára gömlum húsum ættu að íhuga eða láta kanna hvort rör finnast í þeirra gólfi og ef svo er hvort ekki sé rétt að bregðast við áður en lögnin brestur.

Til að koma í veg fyrir misskilning er rétt að taka fram að það er ekkert að óttast gólfhita, sem nú er mjög vinsæll, þar er notað allt annað lagnaefni og öðru vísi gengið frá rörum.

Í öðru lagi eru það eirrörin sem mikið voru notuð fyrir 30-40 árum. Þeir sem búa við eirrörakerfi ættu einnig að láta athuga þau. Það er hægt að gera með því að taka sýni úr röri. Ef það er farið að þynnast og með kolaðri svartri húð að innan þá er rétt að bregðast við hið fyrsta.

Í þriðja lagi hefur frágangur í böðum, sérstaklega innmúruð baðker, valdið miklum skaða, þar er rétt að vera á verði.

Nýjar syndir

Lagnaefni eru gjörbreytt og úrval nýrra lagnaefna mjög fjölbreytt og nýjar lagnaleiðir eru einnig valdar í dag. Við eigum því alla möguleika á að leggja örugg lagnakerfi, við ætlum ekki að gera sömu mistökin og áður.

Er einhver ástæða til að ætla að einhver mistök verði við lögn nýrra lagnaefna? Nú höfum við pexrör, álplaströr, PP rör, þunnveggja stálrör og ryðfrí rör, létt lagnaefni og auðveld í meðförum, jafnvel verið auglýst að lögn þeirra sé barnaleikur!

Það verður að segjast eins og er að þarna er veruleg hætta á ferðum ef þeir sem rörin leggja eru ekki fróðir um efnið sem er í rörunum og ekki síður ef þeir þekkja ekki hvað ber að varast við tengingu þeirra. Vegna þess hve rörin eru létt og lipur þá halda margir að allir geti unnið við lögn þeirra en þar eru margar fallgryfjur.

Nú er ekki mikið um það að rör séu snittuð, pökkuð og skrúfuð saman, þetta gamla handverk sem pípulagningamenn hafa notað mann fram af manni með ágætum árangri. Í flestum tilfellum eru þessi nýja lagnaefni tengd með því að hulsa er þrykkt eða dregin á rörið. Það er gífurlega mikilvægt að notuð séu rétt tengi við rétt rör, það er ekki nóg að vita þvermál rörs og tengis, það getur verið að þvermál hvors tveggja sé það sama en þá kemur spurningin í hvaða þrýstiflokki er rörið, það skiptir miklu máli.

Plaströr eru aðallega af tveimur þrýstiflokkum, 6 bara og 10 bara en þessa þyngdareiningu þekkja margir úr veðurfregnum áður fyrr, þá sem millibör. Þvermál plaströra er utanmál en rör í 10 bara flokki hefur meiri veggþykkt en 6 bara rör. Þess vegna er innanmál þeirra ekki það sama og þar liggur hættan.

Verkfærin, sem ýmist þrykkja eða draga, vinna af mikilli nákvæmni, þau gefa ákveðinn þrýsting til að þétting verði örugg en ekki meiri en nauðsyn krefur. Ef svo slysalega vildi til að 6 bara rör er tengt með 10 bara tengi næst ekki nægilega góð þétting vegna þess að plaströrið er ekki af þeirri þykkt sem reiknað er með. Þetta getur valdið leka strax, en það getur verið að leki komi ekki í ljós fyrr en löngu seinna.

Þetta er aðeins eitt af mörgu sem getur skeð ef menn vinna ekki af nægri nákvæmni eða þekkingu, það getur einnig komið þeim ófaglærða í koll ef hann ætlar að bjarga sér sjálfur og trúir því að þetta sé barnaleikur.

Ábyrgðin er ekki aðeins á herðum pípulagningamanna, önnur stétt hefur einnig þunga byrði að bera. Það eru þeir sem selja og afgreiða lagnaefni, þeir þurfa sannarlega að hafa yfirgripsmikla þekkingu á nýjum lagnaefnum. Eflaust hafa margir þeirra góða þekkingu á vörunni sem þeir selja, en er sú þekking nægilega almenn?

Fleira áhugavert: