Orka, loftlagsbarátta – Eftirspurn, framboð
Grein/Linkur: Draumalandið þarf orku
Höfundur: Sveinbjörn Finnsson
.
.
Október 2022
Draumalandið þarf orku
Orkumál munu leika lykilhlutverk í loftslagsbaráttu Íslands. Umræðan um orku fyrir orkuskipti er þó oft hörð og einkennist af kunnuglegum átakalínum. Enda verkefnið stórt og hagsmunir miklir.
Fjögur sjónarmið eru áberandi í umræðunni. Tvö snúa að eftirspurn orkunnar og tvö að framboði. Hver nálgun hefur sína kosti og galla og þær falla misvel að mismunandi hagsmunum og samfélagssýn fólks.
Við notum mikið af olíu
Orkuskiptin eru gríðarstórt verkefni. Sérfræðingar hafa gróflega metið að um 15-16 TWst af raforku þurfi til að skipta út allri olíu sem notuð er á Íslandi til að fljúga, sigla og keyra. Það magn slagar upp í alla núverandi raforkuvinnslu landsins.
Um helmingur viðbótarinnar færi í alþjóðaflug, fjórðungur í orkuskipti á hafi og tæplega fjórðungur í landsamgöngur. Mest óvissa ríkir um orkumagnið sem snýr að alþjóðaflugi enda tækni fyrir nýja orkugjafa þar skammt á veg komin og á sama tíma erfitt að slá því föstu hver flugumferð verður til og frá landinu áratugi fram í tímann.
Áskorunin og átökin snúa að því hvernig mæta skal þessari orkuþörf og það fyrir árið 2040 eins og stjórnvöld stefna að.
I) Minni orka notuð
Einhver vilja grípa í neysluhandbremsuna og vísa almennt til þess að mannkynið, sérstaklega Vesturlönd, hafi farið fram úr sér í orkunotkun. Fyrir Ísland myndi það þýða að hætta olíunotkun án þess að græn orka kæmi í staðinn að fullu.
Mest af olíunotkun Íslands knýr millilandaflug svo færri flugferðir til og frá landinu vega þyngst ef minnka á orkuþörf orkuskipta. Bæði þyrftu Íslendingar að sætta sig við færri utanlandsferðir en einnig nánast engan ferðamannaiðnað. Það væri umdeilt og erfitt að sjá fyrir sér pólitískan vilja til að raungera á þeim stutta tíma sem er til stefnu.
Ýmsar aðrar leiðir eru í boði til að minnka orkuþörf en þær duga skammt miðað við millilandaflugið. Þar má nefna öflugar almenningssamgöngur, aukna orkunýtni farartækja og almennt hófsamari lífsstíl.
II) Orka nýtt frá stórnotendum
Einhver líta hýru auga til stórnotenda raforku sem nota álíka mikið af rafmagni í dag og er áætlað að þurfi fyrir orkuskipti Íslands í heild. Ef einhver þeirra stærstu ákveður að loka þá losnar mikið magn raforku sem nýta mætti í orkuskipti.
Það hefði þó efnahagslegan kostnað í för með sér enda umsvif þessara fyrirtækja töluverð, verðmætasköpun mikil og fjöldi beinna og óbeinna starfa tengjast rekstri þeirra. Lokun starfandi iðnaðar hér skapar einnig hættu á kolefnisleka (þegar losun færist milli landa í stað þess að minnka) og mögulega frekar við hæfi að hann verði kolefnishlutlaus t.d. með kolefnisföngun eða breyttum framleiðsluferlum.
Þó er ljóst að engin verksmiðja starfar að eilífu og mögulega mun einhver eigandi vilja loka á næstu áratugum. Sú orka gæti þá nýst í orkuskipti. Ekkert bendir þó til þess að sá vilji sé fyrir hendi og umrædd orka er bundin í samningum til langs tíma.
III) Grænt rafeldsneyti flutt inn
Einhverjar hugmyndir eru um útvistun orkuskiptaverkefnisins og innflutning grænu orkunnar sem við þurfum. Stærri farartæki á borð við skip og flugvélar fyrir millilandaflug munu fæst nota raforku beint heldur frekar óbeint í formi rafeldsneytis. Mest af raforkuþörf orkuskipta Íslands felst í framleiðslu á þessu rafeldsneyti. Í stað þess að framleiða það sjálf mætti ímynda sér að það yrði framleitt úr endurnýjanlegum orkulindum erlendis.
Innflutningur drægi úr þörf á aukinni raforkuvinnslu á Íslandi. Með innflutningi fengist mögulega hagkvæmara rafeldsneyti í sumum tilfellum þökk sé stærðarhagkvæmni erlendis. Þá myndi innflutningur hlífa okkur við áhættunni sem felst í stórum fjárfestingum í raforkuvinnslu og rafeldsneytisframleiðslu til að sinna eftirspurn sem um ríkir mikil óvissa þegar kemur að magni (sérstaklega í millilandaflugi) og gerð (t.d. metanól eða ammoníak).
Ókostur innflutnings yrði sá að orkuskiptin væru ekki í okkar eigin höndum. Við þyrftum að treysta á aðgang að alþjóðlegum markaði fyrir grænt rafeldsneyti. Slíkur markaður er ekki til. Líklega verður slegist um hvern dropa af grænu rafeldsneyti í heiminum til að bæði draga úr losun en ekki síður til að tryggja orkuöryggi. Þar væri staða Íslands ekki sterk.
IV) Endurnýjanleg raforkuvinnsla aukin
Að lokum er sjónarmið sem snýr að aukinni raforkuvinnslu. Þá stýrum við sjálf ferðinni að jarðefnaeldsneytisleysi, tryggjum orkusjálfstæði landsins og aukum verðmætasköpun.
Við eigum fyrir hagkvæmt raforkukerfi sem getur vaxið. Það eru ýmis tækifæri til frekari nýtingar vatnsafls og jarðvarma. Hlutur vindorkunnar gæti orðið býsna stór í raforkukerfi framtíðarinnar enda mikil tækifæri fyrir hana á Íslandi. Hagkvæmast er að vinna hana á landi en einnig gæti vinnslan færst út á sjó eins og virðist vera þróunin víða erlendis þrátt fyrir hærri kostnað.
Ókostirnir við að mæta allri orkuþörfinni með nýrri raforkuvinnslu er umfangið. Á næstu 18 árum þyrfti að tæplega tvöfalda raforkukerfi landsins sem tók okkur 60-70 ár að byggja upp. Í því felst einnig nýting náttúru sem einhver vilja ekki raska. Þá er hver virkjun flókin og tímafrek framkvæmd og það er lítill tími til stefnu.
Draumalandið
Ísland gæti orðið fyrst allra landa til að knýja heilt samfélag einungis á endurnýjanlegri orku. Það væri merkilegt afrek. Það verður sem allra fyrst að varða veginn að þessu draumalandi og finna málamiðlun mismunandi hagsmuna sem birtast í þessum fjórum megin leiðum að orkuskiptum.