Orkuskipti, gæfuspor – 60% raforka, 40% olía

Grein/Linkur: Ekki fyrstu orkuskiptin

Höfundur: Sigríður Mogensen SI

Heimild:

.

.

Október 2022

Ekki fyrstu orkuskiptin

Sigríður Mogensen

Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs SI bendir á að yfirvofandi orkuskipti séu ekki þau fyrstu í sögu Íslands. Áður hafi verið ráðist í orkuskipti með góðum árangri.

Í viðtali í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins ræðir Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs Samtaka iðnaðarins raforkuþörf og orkuskipti. Hún segir ljóst að búa þurfi til meiri raforku hér á landi ef markmið um orkuskipti og kolefnishlutleysi eigi að nást. Á dögunum stóðu samtökin, ásamt Landsvirkjun, Samorku og EFLU, fyrir opnun á nýjum upplýsingavef, orkuskipti.is.   Á vefnum má nálgast upplýsingar um orkunotkun Íslands, orkuskiptin og efnahagslegan ávinning Íslands af orkuskiptum.

Sigríður bendir á að yfirvofandi orkuskipti séu ekki þau fyrstu í sögu Íslands. „Við höfum gert þetta áður með mjög góðum árangri. Framundan eru þriðju orkuskiptin. Það er áhugavert að rýna söguna í því samhengi að hitaveituvæðing landsins var ekki átakalaus. En í dag held ég að flestir Íslendingar séu sammála um að þetta hafi verið mikið gæfuspor.

Orkukrísan sem geisar nú á meginlandi Evrópu vegna innrásar Rússa í Úkraínu, sem Ísland er að mestu leyti í skjóli fyrir, staðfestir þetta enn og aftur. Við þurfum einnig að hafa það í huga að allar þjóðir í kringum okkur hafa skuldbundið sig til að draga úr losun samkvæmt Parísarsáttmálanum og stefna einnig á að skipta út olíu fyrir græna orku. Það er því ekki hægt að stóla á að það verði verulegt framboð á endurnýjanlegri grænni orku eftir nokkur ár eða áratugi sem Ísland getur flutt inn. Við þurfum að treysta á okkur sjálf. Ef við ætlum í full orkuskipti með innlendri orku, og tryggja þar með orkusjálfstæði Íslands, þá þarf að búa til meiri orku.“

Jarðhitinn er í dag helsti orkugjafi Íslands. Um 60% af frumorkunotkun Íslands er heitt vatn til húshitunar, baða og annarrar neyslu. Um 25% frumorkunotkunar er raforka sem ýmist er unnin úr vatnsafli eða jarðhita. Þá er 15% frumorkunotkunar olía. Skipting orkunotkunar Íslands án húshitunar er 60% raforka og 40% olía. Sigríður segir þetta varpa ljósi á hve háð olíu samfélagið sé í raun. „Við erum fyrst og fremst að fara í þessi orkuskipti á Íslandi vegna loftslagsvandans. En þróun síðustu mánaða í Evrópu sýnir okkur líka að orkuskiptin skapa annan ávinning sem felst í auknu orkuöryggi og -sjálfstæði Íslands. Veruleg hækkun orkuverðs í Evrópu sýnir okkur hvaða áhrif það getur haft að vera öðrum háður í orkumálum. Vegna fyrri orkuskipta á Íslandi erum við sem betur fer að mestu varin fyrir orkukrísunni ólíkt öðrum löndum í kringum okkur.“

Fleira áhugavert: