Íbúðarhúsnæði – Er loftræsingu ábótavant?

Grein/Linkur: Loftræsingu í íbúðarhúsnæði er ábótavant

Höfundur: Sigurður Grétar Guðmundsson

Heimild: mbl

.

.

Janúar 2006

Loftræsingu í íbúðarhúsnæði er ábótavant

Það efast víst enginn um að við þurfum loft til að geta lifað eða öllu heldur eina tegund sem er í því lofti sem umlykur okkur, en það er eins og allir vita súrefni. Þegar við drögum andann og fyllum lungun fáum við ekki hreint súrefni, öðru nær. Í því, eða því sem við köllum hreint loft og ekki er fullt af einhverjum óþverra, er súrefnið 20%, hin 80% eru að mestu köfnunarefni. Sú lofttegund gagnast okkur ekki neitt og skaðar okkur ekki heldur, það má segja að köfnunarefnið sé vagninn sem flytur súrefnið. Ef við öndum að okkur hreinu köfnunarefni og fáum ekkert annað má vísast búast við köfnun, ekki af því að köfnunarefnið sé eitrað heldur miklu fremur af súrefnisskorti, en sú lofttegund er öllum lífsnauðsynleg.

Það væri kannski réttara að segja að það sem skortir á loftræsingu í íbúðarhúsnæði sé stýring loftræsingar eða það sem einnig er kallað loftskipti. Það sem bjargar okkur hérlendis er þessi lítt vinsæli vindur sem stundum er gola en æði oft beljandi rok. Þau tæki sem við höfum til að stýra loftræsingu inni hjá okkur eru ekki merkileg. Oftast er opnanlegt gluggafag í hverju rými, hvort sem það er stofa, svefnherbergi eða annað. Sjaldan skortir loftskiptin þegar gluggi er opnaður, miklu fremur er erfitt að hemja dragsúginn sem beljar inn eða út um gluggann. Þá eru opnanleg fög glugga mjög misjöfn að stærð og staðsetningu, sum eru svo lítil að tæpast köttur getur skriðið í gegnum þau. Önnur eru flennistór, aðallega veltigluggar, með þeim er oft erfitt að stilla hversu mikið á að sogast út eða inn af lofti. Þá eru opnanlegir gluggar í mismunandi hæð. Þar hafa arkitektar oft brugðið á leik og hugsað meira um útlit en notagildi hins opnanlega glugga. Ef hann á að notast til loftræsingar er hagkvæmast að hann sé sem hæst, annars sitja efri loftlögin kyrr og endurnýjun verður ekki eins afgerandi og hún ætti að vera.

En vegna þessara grófu verkfæra, opnanlegra glugga, þá hefur svo sem áður verið predikað hér í pistlum og brýnt fyrir fólki að loftræsa vel í ákveðinn tíma en láta glugga ekki standa opna daginn út og daginn inn. Ef ekið er um þéttbýli má sjá að þannig er þetta ekki í raun. Víðast hvar má sjá glugga standa opna daginn út og daginn inn, sá grunur vaknar að þannig sé þetta þó enginn sé heima daglangt. Afleiðingin verður aukinn hitakostnaður, heita vatnið rennur stöðugt, hitaveitumælirinn snýst og hitareikningurinn hækkar að óþörfu. Þess vegna ætti það að vera regla að loka öllum gluggum þegar enginn er heima, enda skiptir súrefnisbúskapur íbúðarinnar engu þegar enginn þarf á súrefni að halda. Það þarf enginn að hafa áhyggjur af því að það taki langan tíma að loftræsa þegar heim er komið, okkar vindasama veðurfar sér fyrir því, nægur er krafturinn þar.

Hiti, vatn og loft

Á síðari árum hefur áhugi húseigenda vaknað meir og meir á því að hafa hæfilegt hitastig í íbúðum, þó vissulega megi fullyrða að almennt hafi Íslendingar of heitt í híbýlum sínum. Að sjálfsögðu á hver og einn að velja sér það hitastig sem honum er þægilegast, en of hár eða lágur hiti er hvort tveggja vafasamt heilsufarslega séð. Líklega væri hollara að sitja fyrir framan sjónvarpið í léttri peysu og hlýjum inniskóm frekar en hita upp í 24°C og sitja á bolnum til að þola hitann. Eitt sinn þótti 20°C stofuhiti hæfilegur, en nú er krafan að lágmarki 2-4° hærri.

Allir vilja hafa hreint og kalt vatn til drykkjar og matargerðar og nægilegt heitt vatn, ekki aðeins til upphitunar heldur einnig til þvotta og hreinlætis. Hiti og vatn eru flestir með á hreinu að þeim er nauðsynlegt og einnig að stýra þurfi hvoru tveggja þannig að viðunandi þægindi séu tryggð.

En hvað með andrúmsloftið, hefur það ekki setið á hakanum í íbúðarhúsnæði? Eitt er víst; það er ekkert sem tryggir okkur hreint loft nema opnanlegu gluggarnir, svo gróf stýritæki sem þeir eru. Öllu verra er þó ef gluggakisturnar verða alsettar dökku ryki, en það er þekkt fyrirbrigði hjá þeim sem búa nálægt miklum umferðargötum, sérstaklega að vetrarlagi þegar nagladekkin spæna upp malbikið.

Það er því engin vissa fyrir því að útiloftið sé alltaf hreint þegar það streymir inn um gluggann.

Niðurstaðan af öllu þessu málæði er því sú að það er full ástæða til að fara að huga að því að inniloftið okkar sé hreint, einkum hjá þeim sem í þéttbýli búa. Tryggja þarf að útiloftið sé hreint þegar það kemur inn, einnig að auðveldara sé að stýra því en víða er í dag. En ekki síður er ástæða til að hreinsa inniloftið. Það þekkja allir allt horngrýtis rykið sem alls staðar smýgur og déskotans lóna sem sest að í öllum skúmskotum og skríður síðan fram úr sínum felustöðum þegar minnst varir.

Það skyldi þó ekki vera að hreint inniloft geti haft jákvæðari áhrif á heilsufar þessarar velmegunarþjóðar en nokkurn grunar.

Fleira áhugavert: