Ísland versus Brúnei – Olía í sjó

Grein/Linkur: Bakkafjarðar-Soldáninn

Höfundur: Ketill Sigurjónsson

Heimild: Orkubloggið

.

.

Bakkafjarðar-Soldáninn

Fyrir nokkrum dögum kynnti pattaralegur iðnaðarráðherra Íslands, olíudrauma sína fyrir íbúum Bakkafjarðar, Vopnafjarðar og annarra þeirra sem búa á norðausturhorni Klakans góða. Í nágrenni Drekasvæðisins.

brunei_sultan_2

brunei_sultan

Og ráðgjafar iðnaðarráðherrans, Norsararnir frá Sagex Petroleum, segja okkur að hugsanlega finnist 10 milljarðar tunna af olíu á Drekasvæðinu íslenska. Þetta hljómar óneitanlega vel.

Vegna olíubjartsýninnar sem nú ríkir bæði í hjarta Orkubloggsins, iðnaðarráðherra og nágranna Drekans varð blogginu hugsað til Soldánsins af Brúnei. Einfaldlega vegna þess að Brúnei er einmitt með álíka marga íbúa og Ísland og býr yfir svipuðu olíumagni og nú er verið að spá á Drekasvæðinu.

En fyrst smá upprifjun fyrir lesendur bloggsins. Sagex segir sem sagt að hugsanlega finnist 10 milljarðar tunna af olíu Íslandsmegin á Drekasvæðinu. Það er næstum helmingur af allri olíu- og gasvinnslu Norðmanna í 35 ár (1971-2005). Og um þriðjungur af allri framleiðslu þeirra frá upphafi og fram í nóvember á nýliðnu ári.

Þessi samanburður Orkubloggsins er vel að merkja byggður á nýjustu og ferskustu tölum, sem til eru í norska olíumálaráðuneytinu. Bloggið hafði nefnilega samband við menn þar á bæ í gær, til að þetta færi ekkert á milli mála. Já – tímabilið 1971-2008 komu í land 21,4 milljarðar tunna af olíu og 8,2 milljarðar tunna af gasi úr norska landgrunninu öllu. Gasmagnið er hér umreiknað í s.k. oil-equivalents, sem kannski mæti þýða sem „olíujafning“ á íslensku.

drekasv

drekasvæðið

Samtals jafngildir því öll olíu- og gasframleiðsla Norðmanna frá upphafi og fram í nóvember s.l. 29,6 milljörðum tunna. Og enn skal minnt á, að samkvæmt orðum Sagex getur framleiðslan á Drekasvæðinu einu orðið 20 milljarðar tunna – þar af 10 milljarðar Íslandsmegin.

Það er varla annað hægt en hrista höfuðið yfir þessar algerlega ótímabæru og nánast kjánalegu bjartsýnisspá Sagex. Og það er eiginlega hálf sorglegt að íslenskir fjölmiðlar grípi þessa tölu á lofti. En Orkubloggið hefur líklega tuðað nóg um þetta (sbr. færslan „Æpandi bjartsýni„).

Spá sem sett var fram í skýrslu iðnaðarráðuneytisins frá árinu 2007 er öllu hógværari. Þar virðist gert ráð fyrir að framleiðslan á Drekasvæðinu Íslandsmegin, geti orðið allt að 1 milljarður tunna af olíu og annað eins af gasi, eða rúmlega það. Samtals um 2,1 milljarðar tunna af olíu og olíujafningi.

Brunei_WaqifMosqueNighttime

Brunei_WaqifMosqueNighttime

Nú má hverjum lesenda Orkubloggsins vera augljóst, að það mun skipta talsvert miklu máli hvort 2 milljarðar eða 10 milljarðar tunna af olíu finnast á Drekasvæðinu.

En reyndar gæti allt eins verið að þar finnist ekki ein einasta vinnanleg olíulind. Vonandi verða vonbrigðin þá ekki jafn mikil hjá Íslendingum, eins og hjá Færeyingum. Sem hafa leitað olíu án árangurs i nærri áratug.

Það er reyndar alls ekki öll von úti enn á færeyska landgrunninu. Þó svo bandarísku olíufélögin virðist nú öll vera búin að missa áhugann á því ljúfa svæði frænda okkar. Þeir hjá norska Statoil eru öllu þolinmóðari en Kanarnir. Statoil náði sér einmitt í enn eitt leyfið í þriðja leitarútboði færeysku landstjórnarinnar nú skömmu fyrir jól. Þolinmæði hlýtur að vera álitin dyggð i Noregi?

Brunei- Palace

Brunei- Palace

Gefum okkur nú að lægri spáin hér að ofan um olíufund á Drekasvæðinu rætist. Þ.e. að samtals 2 milljarðar tunna af vinnanlegri olíu finnist innan íslensku lögsögunnar á Drekasvæðinu. Og að þar með geti Ísland státað sig af tveimur milljörðum tunna af „proven oil reserves“. Á Drekasvæðinu einu. Enn er þá eftir að krukka í önnur álitleg svæði; svæðin sem kennd hafa verið við Gamminn og Bergrisann.

Skellum okkur svo í smá samanburð. Miðað við þessa einföldu forsendu (2 milljarða olíutunna) yrði íslenska Drekasvæðið með sem jafngildir u.þ.b. 10% af öllum vinnanlegum olíu- og gasbirgðum Noregs. Og um þriðjung af öllum vinnanlegum birgðum Bretlands. Með hinar risastóru gaslindir í hollenskri lögsögu í huga, þá yrði Ísland með samtals um 25% af vinnanlegum gasbirgðum Hollendinga. Og íslenska Drekasvæðið er skv. þessu með meiri vinnanlegar olíubirgðir en eru í allri dönsku lögsögunni – Baunarnir góðu eru sagðir ráða yfir u.þ.b. 1,7 milljörðum tunna samtals (reyndar eru margir sem ekki gera sér grein fyrir því, að efnahagslíf Dana er svo gott sem raun ber vitni, fyrst og fremst vegna olíuframleiðslunnar i Norðursjó; mýtan um að Danir séu þekkingar- og þjónustusamfélag er lífseig).

ossur_bloggari

ossur_bloggari

Ísland yrði skv. þessu fjórða mesta olíuveldi Vestur-Evrópu (á eftir Noregi, Bretlandi og Hollandi). Og líklega fimmta hið mesta í Evrópu allri (Rússland undanskilið). Rúmenía býr yfir verulegum gaslindum; um 4 milljörðum tunna í olíujafningi – og skipar því fjórða sætið.

Miðað við fólksfjölda þýðir þetta aftur á móti að Ísland yrði langmesta olíuríki Evrópu. Alltaf gaman að fólksfjölda-viðmiðuninni. Og vert að minna á, að hér er einungis miðað við vinnanlegar birgðir upp á 2 milljarða tunna, en ekki þá svakalegu 10 milljarða eins og Sagex og Morgunblaðið hafa kynnt fyrir okkur síðustu dagana. Ef 10 milljarðar tunna reynast vera á Drekasvæðinu, mun Ísland í framtíðinni væntalega verða eitt af mestu olíuframleiðsluríkjum heims.

Jafnvel þótt einungis sú hógværa spá um 2 milljarða tunna á Drekasvæðinu rætist, yrði Ísland mjög öflugur olíuframleiðandi. Skjóta má á að þetta magn myndi leyfa framleiðslu upp á ca. 3-400 þúsund tunnur á dag. Til samanburðar, þá framleiða Bretar nú u.þ.b. 1,7 milljón tunnur daglega í allri sinni lögsögu. Og Danirnir hjá Mærsk Oil og Dong Energi eru með framleiðslu upp á rúmar 300 þúsund tunnur á danska landgrunninu í Norðursjó.

brunei_map

brunei_map

Prufum nú að að finna ríki með u.þ.b. 330 þúsund íbúa og rétt rúma 2 milljarða tunna af olíu. Þá kemur fyrst upp í huga Orkubloggsins hið sérkennilega soldánsríki langt, langt í austri. Olíuríkið smávaxna á eyjunni Borneó; Brúnei.

Brúnei kallast reyndar fullu nafni Brunei Darussalam, sem mun útleggjast Brunei – heimili friðarins! Landið er einungis um 6 þúsund ferkm að flatarmáli, en stærð þjóðarinnar er ekki ósvipuð Íslendingum (íbúar Brunei eru um 380 þús). Birgðir af vinnanlegri olíu í Brunei eru reyndar aðeins meiri en hér er verið að gæla við á Drekanum (proven reserves í Brunei eru um 3,5 milljarðar tunna; þar af um helmingur olía og helmingurinn gas). En þetta er ekki svo ósvipað. Og ef þessar 2 milljarðar tunna finnast á annað borð á Drekanum, er eins víst að það sem upp á vantar, til að birgðirnar verði 3,5 milljarðar tunna, finnist annars staðar i íslensku lögsögunni.

brunei-oil_reserves

brunei-oil_reserves

Sem sagt Ísland v/ Brunei. Einn ríkasti maður veraldar er einmitt sagður vera Soldáninn af Brunei. Metinn á um 20 milljarða bandaríkjadala. Hann hefur sett þá skemmtilegu reglu í hinu brúneygða soldánsríki Brúnei, að þar borgar enginn tekjuskatt né fjármagnstekjuskatt. Því hjá þjóð sem er með innan við 400 þúsund íbúa þarf auðvitað enga slíka leiðinda skattheimtu, þegar milljarðar tunna af olíu liggja í djúpi landgrunnsins. Þannig hljótum við að líka að sjá Ísland framtíðarinnar!

Já – Orkubloggið telur fullt tilefni til að halla sér aftur og lygna augunum. Í trausti þess að Össur hafi rétt fyrir sér og verði útnefndur Soldán Íslands. Um leið bjargar hann okkur öllum úr spennitreyjunni, sem árans útrásar-tilberarnir komu okkur í.

oil_transfer_wealth

oil_transfer_wealth

En því miður rankar bloggið skyndilega við sér. Og minnist þess að olíuvinnsla á Drekanum verður miklu dýrari en vinnslan í Brunei. Og þar að auki er olíudraumurinn ennþá bara draumur. Kannski er nefnilega engin vinnanleg olía á Drekanum.

Enga fjárans svartsýni! Þessir tveir milljarðar olíutunna eru alveg örugglega þarna. Og kannski finnast ekki bara 2 milljarðar tunna á Drekanum – heldur 10 milljarðar tunna. Rétt eins og hann Terje Hagevang hjá Sagex segir. Og svo finnst ennþá meira á Bergrisanum og Gamminum. Og þá verður Ísland með 25 milljarða tunna af olíu og gasi í undirdjúpunum og olíuframleiðslu upp á 4 milljón tunnur á dag. Það er í reynd framtíðarsýnin sem álykta má af spádómum Sagex. Og þess vegna er iðnaðarráðuneytið væntanlega farið að hringja niður í fjármálaráðuneyti, til að undirbúa stofnun íslenska olíusjóðsins. Sem verður einn sá öflugasti í heimi.

Því miður verður Orkubloggið að klykkja út með því, að þessar spár eru allar algjört rugl. Það eru vissar vísbendingar um að olía og/eða gas kunni að finnast á Drekasvæðinu. Ef svo fer, veit enginn hversu mikið það magn verður. Að nefna 2 milljarða tunna eða 10 milljarða tunna er bara skot í myrkri. Þó sínu meira kæruleysi að skjóta á 10 milljarða tunna en 2 milljarða.

SULTAN_BRUNEI

SULTAN_BRUNEI

Eitt er aftur á móti öruggt. Olía verður ekki unnin á Drekasvæðinu meðan verðið á olíutunnunni er undir 60-80 dollurum. Einfaldlega vegna þess að break-even í djúpvinnslunni er í kringum 70 dollarana (ca +-10 dollarar). Í dag er olíuverðið… 35 dollarar á Nymex. Er þetta í alvöru rétti tíminn að bjóða út leit á Drekasvæðinu? Tæplega.

Fleira áhugavert: