USA, Olíframleiðsla minnkar – Nýjar orkulindir, sagan
.
Febrúar 2009
Vatnaskil í Vestrinu
Í febrúar árið 2009 leið Bandaríkjamönnum líklega ekki ósvipað eins og Íslendingum. Þegar við hugsum til þess hvernig þorsk- og síldveiðar hafa hrunið á Íslandi, frá því sem var þegar best lét.
Kannski er svolítið hæpið af Orkublogginu að líkja saman fiskveiðum og olíuvinnslu. En það er samt athyglisvert að Íslandsmið gáfu einu sinni af sér meira en 500 þúsund tonn af þorski árlega. Í dag eru þorskveiðarnar varla þriðjungur af því. Og allir sæmilega þroskaðir Íslendingar muna líka eftir síldarævintýrinu mikla.
Þetta minnir svolítið á olíuframleiðslu Bandaríkjamanna. Hún var einu sinni 3,5 milljarðar tunna á ári. En er nú einungis um 1,8 milljarður tunna.
Rétt eins og Íslendingar „skiptu“ yfir í aðra fiskstofna þurfa Bandaríkin nú að ganga rösklega til verks við að skipta yfir í aðra orkugjafa.
Á sjöunda áratugnum var uppistaðan í afla Íslendinga þorskur og síld. En þorskveiðarnar fóru minnkandi og svo hrundi síldin. Til að þetta ylli ekki langvarandi efnahagshruni tóku Íslendingar upp á því að veiða loðnu og ýmsa aðra stofna. Þannig var hægt að auka fiskaflann á Íslandsmiðum verulega, þrátt fyrir samdráttinn í þorsk- og síldveiðum. Nýjasta æðið er svo kolmunni. Þannig hafa nýjar fisktegundir komið í stað þeirra gömlu, ef svo má segja.
Þetta þurfa Bandaríkjamenn nú að gera. Að finna nýjar orkulindir til að standa undir vaxandi orkunotkun og minnkandi olíuframleiðslu innanlands. Að öðrum kosti þurfa þeir að eyða alltof miklum fjármunum í innflutta olíu.
Í dag öll er öll framleiðsla Bandaríkjamanna á olíu og fljótandi gasi nánast nákvæmlega sú sama eins og var fyrir rúmum 50 árum síðan. Og sé einungis litið til hráolíunnar, þarf að fara 60 ár aftur í tímann til að finna sambærilega olíuframleiðslu vestan hafs. Þ.e. skömmu eftir seinna stríð.
Olíuframleiðsla Bandaríkjanna óx hratt fyrstu 70 ár 20. aldar. Náði hámarki árið 1970 í um 3,5 milljörðum tunna eða 9,6 milljón tunnur á dag.
Síðan framleiðslu-toppnum var náð í upphafi 8. áratugarins hefur framleiðslan minnkað jafn og þétt. Ársframleiðslan nú er einungis 1,8 milljarður tunna eða um 5 milljón tunnur á dag. Þetta er nánast nákvæmlega jafn mikil olíuframleiðsla og var í Bandaríkjunum árið 1948 og einungis um helmingur þess þegar framleiðslan var í toppi um 1970.
Samdrátturinn í olíuframleiðslu Bandaríkjanna hefur því verið um 50% á innan við 40 árum. Á sama tíma hefur olíunotkun þeirra aukist jafnt og þétt. Upp úr 1970 notuðu Bandaríkin um 17 milljón tunnur af hráolíu á dag en nú er notkunin tæplega 21 milljón tunnur á dag. Afleiðingin er einfaldlega æ meiri olíuinnflutningur. Um 1970 fluttu Bandaríkjamenn inn u.þ.b. 40% allrar olíunotkunarinnar en nú er þetta hlutfall komið í um 70%.
Og þó svo stór hluti af innfluttri olíu Bandaríkjanna komi frá vininum í norðri – Kanada – eru Bandaríkin einnig háð olíu frá „vinum“ sínum í Venesúela, Mið-Austurlöndum o.s.frv. Það eru því bæði mjög sterk efnahagsleg og pólitísk rök að baki því að Bandaríkin leggi nú höfuðáherslu á að framleiða orku með öðrum orkugjöfum. Orkugjöfum sem geta tæknilega leyst umtalsverðan hluta olíunnar af hólmi og keppt við olíuna í verði.
Það sem hefur bjargað Bandaríkjunum frá algeru olíuframleiðsluhruni síðustu 30 árin eru lindirnar miklu við Prudhoe-flóa í Alaska. Sem fundust árið 1968 og byrjuðu að skila olíu á markaðinn 1977. Sú nýja framleiðsla kom reyndar um svipað leyti og samdráttur varð i bandarísku efnahagslífi upp úr 1980. Þetta eru tvær helstu ástæður þess að á þessum tíma dró mjög úr olíueftirspurn í Bandaríkjunum. Og þess vegna minnkaði líka olíuinnflutningurinn um skeið.
Olíulindirnar við Prudhoe-flóa eru langstærstu olíulindir Bandaríkjanna með allt að 25 milljarða tunna af olíu. Þó verður líklega reyndar einungis unnt að vinna um 13 milljarða tunna af því magni.
Nú er þegar búið að dæla upp u.þ.b. 11 milljörðum tunna þarna við Prudhoe-flóann. Framleiðslan þar minnkar hratt, þannig að líklega er Prudhoe bráðum búið spil. Það mun hafa afgerandi þýðingu fyrir Bandaríkin, enda hefur Prudhoe t.d. jafnast á við helminginn af allri olíuframleiðslu Norðmanna. Sem sagt gríðarlegt magn.
Það eru sem sagt horfur á að ævintýrið í Prudhoe verði bráðum fyrir bí. Þess vegna hefur sprottið upp mikil umræðan um að aflétta olíuborunarbanninu af friðuðu svæðunum austan við Prudhoe. Í Arctic National Wildlife Refuge eða ANWR.
Eins og útlitið er núna, verður ekkert af slíku. Breið pólitísk samstaða virðist vera meðal bæði demókrata og repúblíkana um að hreyfa ekki við friðuðu svæðunum. Fyrir vikið munu olíufélögin leggja enn meiri pressu á olíuboranir á djúpi Mexíkóflóans og annars staðar á bandaríska landgrunninu. Og á svæðum eins og Bakken í Montana og Norður-Dakóta, sem Orkubloggið sagði frá nýlega.
Olíuframleiðsla á bandaríska landgrunninu mun fresta því eitthvað að olía Bandaríkjamanna hreinlega klárist. En það tekur mörg ár og jafnvel meira en áratug að hefja vinnslu á nýju olíusvæði. Leitin, rannsóknirnar og undirbúningurinn allur er einfaldlega mjög tímafrekur.
Það skuggalegasta er kannski sú staðreynd, að jafnvel þó olíuvillidýrunum hjá ExxonMobil og ConocoPhillips yrði sleppt lausum í ANWR, yrði það einungis skammtímalausn. Hefði sáralítil áhrif á olíubúskap Bandaríkjanna til lengri tíma litið. Kannski má segja að Bandaríkin séu einfaldlega komin fram af olíuhengifluginu. Það verði ekki aftur snúið – stórveldið mun lenda á fallandi fæti ef ekki koma til nýjar stórar orkulindir. Helst sem allra fyrst.
Besti vinur Orkubloggsins – Boone Pickens – hefur nú a gamals aldri orðið óþreytandi boðberi þessara válegu tíðinda. Fýlupokarnir segja að Pickens sé bara að hugsa um eigin hag, í baráttu sinni fyrir vindorkuvæðingu Bandaríkjanna. Vegna þess að hann er sjálfur búinn að setja stórfé í að kaupa upp land undir vindtúrbínur.
Þetta kann að vera réttmæt gagnrýni á Pickens. Hann er enginn engill, sá gamli bragðarefur. En þegar Pickens minnir menn á þær brjálæðislegu upphæðir sem bandaríska þjóðin eyðir í innflutta olíu, er hann einungis að benda á staðreyndir. Til að koma skilaboðunum áleiðis tók hann nýlega upp á því að birta regluleg upplýsingar um olíuinnflutninginn og dollarana sem í þetta ævintýri fara: www.pickensplan.com/oilimports/
Það er varla ofsagt að Bandaríkin séu olíufíkill. Sem verður að taka sig á, áður en illa fer. En Orkubloggið er sannfært um að Bandaríkin munu standast prófið. Ekkert annað ríki býr yfir jafn mikilli tækniþekkingu. Og Bandaríkin draga ennþá að sér flesta ofurheila heimsins.
Bush seinkaði því reyndar um nokkur ár að ríkisvaldið skapaði grunn að átaki, sem nauðsynlegt er til að hvetja til fjárfestinga í nýjum orkulindum. En nú leika nýir og ferskir vindar um Washington DC.
Sennilega vanmeta flestir hvað mun gerast í Bandaríkjunum á næstu misserum og árum. Líklega gera fæstir sér grein fyrir þeim gríðarlegu fjármunum, sem senn munu streyma til rannsókna og uppbyggingar í orkuframleiðslu. Orku, sem ekki byggir á olíu og mengar eins lítið og mögulegt er.
Það verður hin nýja efnahagsuppsveifla, sem mun festa Bandaríkin í sessi sem mesta og ótvíræðasta heimsveldi veraldar. Um það leyti sem þau hafa endurbyggt orkuframleiðslukerfið sitt, munu lönd eins og Kína og Rússland vakna upp við vondan draum. Sitjandi í mengunarskítnum og langt á eftir Bandaríkjunum í virkjun nýrra orkulinda. Mesta óvissan er kannski um það hvernig fer fyrir Evrópu. Þar á bæ kann ósamstaða að gera Evrópusambandið ennþá háðara innfluttu gasi, en nú er.
Já – þó svo Orkubloggarinn sé mikill Evrópusinni innst inni, trúir bloggið á mátt Bandaríkjanna. En til að svo megi verða, þurfa að verða gríðarlegar breytingar. Og eins gott fyrir bandaríska kjósendur að standa þétt að baki Obama og demókrötum á þingi. Orkubloggið vonar líka að yfirvofandi fall dollarans og verðbólga þarna fyrir vestan, muni einfaldlega styrkja samkeppnisstöðu Bandaríkjanna. Áfram Obama!