Olíuleit á Íslandsmiðum – Olískattur, sagan

Grein/Linkur: Drekaskatturinn og Gullni þríhyrningurinn

Höfundur: Ketill Sigurjónsson

Heimild: Orkubloggið

.

.

Drekaskatturinn og Gullni þríhyrningurinn

Tilefni þessarar færslu er frétt sem ég heyrði nú undir kvöld í útvarpinu. Um verulegan áhuga erlendra olíufyrirtækja á Drekasvæðinu. Nú bíðum við nefnilega öll spennt eftir því, hversu mikill áhugi verður meðal olíufyrirtækjanna að ráðast í olíuleit á Drekasvæðinu.

Dreki_sildarsmuga

Dreki_sildarsmuga

Sem kunnugt er hófst olíuleitarútboðið – the first licensing round on the ICS, eins og það er kallað í útlöndum – þann 22. janúar s.l. Og áhugasöm fyrirtæki eiga að gefa sig fram ekki síðar en kl. 4 síðdegis þann 15. maí n.k.

Miðað við spár íslensk/ norska fyrirtækisins Sagex Petroleum um gríðarlegt olíumagn á svæðinu, ætti Orkubloggið að leyfa sér bjartsýni. En reyndar er bloggið á því, að Drekasvæðið sé bæði erfitt, dýrt og áhættusamt. M.a. vegna mikils dýpis og basaltsins, sem gæti gert olíudrauminn að martröð.

Svo hefur olíuverð lækkað mikið undanfarið. Verðið núna er langt fyrir neðan það sem þarf til að vinnsla á svo miklu dýpi geti skilað hagnaði. Á móti kemur, að til framtíðar búast flestir við verulegum hækkunum á olíuverði. Þess vegna er mikilvægt fyrir olíufyrirtækin að finna nýjar lindir, til að geta makað krókinn þegar verðið hækkar. Lágt olíuverð núna er m.ö.o. ekki afgerandi þegar fyrirtæki velta Drekasvæðinu fyrir sér.

oil-rig-dollars

oil-rig-dollars

Um það leyti sem Drekaolían ímyndaða kemst á markaðinn – kannski eftir svona 10-15 ár – er líklegt að olíuverð verði langt umfram vinnslukostnað. Svæðið gæti skilað miklum hagnaði, ef þar finnst mikið af olíu og/eða gasi.

Engu að síður er hætt við að áhugi olíufyrirtækja á Drekasvæðinu kunni að vera lítill nú um stundir. Kannski aðallega sökum þess að fyrirtækin eiga í veseni með að fjármagna ný og áhættusöm verkefni. Fjármálageirinn er ekki beint í langtímagírnum þessa dagana.

Þar að auki hafa útlendir menn úr olíubransanum bent Orkublogginu á að skattareglurnar, sem samþykktar voru á Alþingi skömmu fyrir jól, séu verulega íþyngjandi fyrir olíuvinnslu á Drekasvæðinu. Lögin leggi t.a.m. gjald á vinnsluna án tillits til þess hvort hún skilar hagnaði eða tapi – og reglurnar séu þar að auki óþarflega flóknar. Þessar reglur muni draga úr áhuga á Drekasvæðinu.

FPSO_diagram

FPSO_diagram

Synd ef satt er. Óneitanlega varð Orkubloggið nokkuð undrandi á að heyra þetta sjónarmið. Þegar skattareglurnar eru skoðaðar (sjá lög nr. 170/2008 um skattlagningu kolvetnisvinnslu) virðast þær í fljótu bragði ekki ósanngjarnar. A.m.k. ekkert yfirgengilega verri en t.d. norsku reglurnar. En kannski má segja að íslensku reglurnar séu öllu flóknari en þær norsku.

Þarna spila saman annars vegar vinnslugjald og hins vegar hár olíutekjuskattur. Ekki reynir á olíuskattinn fyrr en hagnaður af vinnslunni er orðinn a.m.k. 20% m.v. skattskyldar rekstrartekjur ársins (í lögunum kallað hagnaðarhlutfall). Fram að þeim tíma leggst vinnslugjald á – og það án tillits til þess hvort vinnslan skilar hagnaði eða tapi. Kannski rétt að útskýra þetta aðeins nánar:

Oil_platform_Gas_flare

Oil_platform_Gas_flare

Vinnslugjaldið er eins konar gjald fyrir að fá að stunda olíuvinnslu á íslenska landgrunninu. Vinnslugjaldið er tiltekið hlutfall af olíuverði af allri framleiðslu umfram 10 milljón tunnur. Það leggst á alla olíu sem unnin er, umfram þessar 10 milljón tunnur, allt þar til hagnaður fyrirtækisins hefur náð 20% markinu, sem fyrr segir. Þá tekur olíuskatturinn við.

Það er sem sagt ekkert vinnslugjald greitt af fyrstu 10 milljón tunnunum. Fari framleiðslan lítið yfir 10 milljón tunnur yfir árið er vinnslugjaldið sáralítið, en fer svo sighækkandi með aukinni framleiðslu. Nær t.d. 95% fari vinnslan í 200 milljón tunnur yfir árið!

Orkubloggið veltir fyrir sér hvort þetta vinnslugjald sé sanngjarnt. Hugsunin að baki vinnslugjaldinu er sögð vera sú, að gjaldið sé hvatning fyrir fyrirtækin að skila hagnaði. Kannski spurning að taka þetta kerfi upp í atvinnurekstri yfirleitt? T.d. í sjávarútveginum. Tíkall pr. fisk! Þangað til útgerðin fer að græða þokkalega. Hvernig ætli kvótaeigendum myndi lítast á það?

OIL_PLATFORM_SEMI_SUB

OIL_PLATFORM_SEMI_SUB

Það virðist sem sagt svo, að íslensk stjórnvöld treysti ekki olíufyrirtækjunum til að vilja skila hagnaði. Það þurfi svipu á þau til að þau nenni að hagnast. Svolítið sérkennilegt sjónarmið. En kannski er þetta vinnslugjald barrrasta sanngjarnt. Í stað þess að láta einfaldan olíutekjuskatt nægja.

En til að menn hafi áhuga á Drekanum þarf svæðið að vera skattalega aðlaðandi. Svo einfalt er það. Það á eftir að koma í ljós hvort olíufyrirtækin telji það áhættunnar virði að setja pening í rannsóknir og leit á Drekasvæðinu – þessu nánast ókannaða og óvissa svæði. Eða hvort þau vilji frekar setja þá aura í önnur svæði með minni eða álíka áhættu – þar sem vinnslan er gjaldfrjáls þar til hún skilar hagnaði.

Orkubloggið er á því að setja megi spurningamerki við vinnslugjaldið á Drekasvæðinu. Hugsanlega er ekkert sérstaklega spennandi fyrir olíufyrirtæki í núverandi árferði, að leggja útí mikinn kostnað við olíuleit á nýju og lítt þekktu svæði. Og þurfa svo strax að fara að greiða vinnslugjald – nánast um leið og olía finnst. Og það jafnvel þó svo vinnslan verði rekin með tapi.

Svona vinnslugjald án tillits til hagnaðar er til þess fallið að kæfa fjárfestingaáhuga. Það er alþekkt í bransanum að olíufyrirtækjunum er alveg meinilla við gjald af þessu tagi.

ThunderHorse_damaged

ThunderHorse_damaged

Í versta falli gæti þetta orðið til þess að útboð á leitarleyfum vegna Drekasvæðisins floppi. Allt út af nánast kjánalega háu vinnslugjaldi, sem lagt er á olíuvinnslu þó svo hún verði rekin með tapi.

Fyrstu 10 milljón tunnurnar (m.v. ársvinnslu) eru reyndar „ókeypis“, eins og áður var nefnt. Ekkert vinnslugjald vegna þeirra. Það magn – 10 milljón tunnur – jafngildir vinnslu upp á um 27 þúsund tunnur á dag ef þeim er dreif á heilt ár. Til samanburðar mætti nefna að Perdido-pallurinn í Mexíkóflóanum, sem Orkubloggið hefur áður sagt frá, mun framleiða um 130 þúsund tunnur á dag. M.ö.o. þá er þessi dúsa upp á gjaldfríar 10 milljón tunnur, eitthvað sem hætt er við að skipti litlu máli í djúpvinnslunni og sé ekki ekki nóg til að gera Drekasvæðið sexí.

Auditor_at_work

Auditor_at_work

Sjálfur olíutekjuskatturinn, sem kemur til þegar vinnslan er farin að skila a.m.k. 20% hagnaði miðað við heildartekjur ársins, er stighækkandi. Við 20% hagnaðarhlutfall er olíuskatturinn 5,5% – og að auki þurfa fyrirtækin að greiða hefðbundinn tekjuskatt fyrirtækja.

Vegna þess hversu gríðarlega dýr djúpvinnsla er, er kannski hæpið að hagnaðarhlutfall fyrirtækja á Drekasvæðinu fari nokkru sinni mikið hærra en sem nemur 20-30%. En ef það gerist fer olíuskatturinn hækkandi eftir því sem hagnaðarhlutfallið eykst. Verði hagnaðarhlutfallið 50% er olíuskatturinn 22% og ef hagnaðarhlutfallið fer i 70% verður olíuskatturinn 33%. Sem fyrr er olíuskatturinn viðbót við almennan tekjuskatt – sá hefðbundni tekjuskattur leggst ætíð á hagnað fyrirtækjanna.

thunder-horse-transport

thunder-horse-transport

Fyrirtæki í olíuvinnslu á Drekasvæðinu, sem er með 19% hagnaðarhlutfall, greiðir því bæði vinnslugjald og almennan tekjuskatt, en ekki sérstakan olíutekjuskatt. Um leið og hagnaðarhlutfallið er orðið 20% byrjar olíuskatturinn að bætast við – en þá fellur aftur á móti vinnslugjaldið brott. Olíuskatturinn leysir þá m.ö.o. vinnslugjaldið af hólmi.

Orkubloggið hefur ekki gefið sér tíma hér í kvöld til að reikna og bera saman hvernig það kæmi út fyrir olíuvinnslu á Drekasvæðinu, að vera með t.d. 15% hagnaðarhlutfall eða 25% hagnaðarhlutfall. Þ.e. sitt hvoru megin við 20% markið. Enda er slíkur samanburður nánast ómögulegur – af því vinnslugjaldið miðast við unnið magn og olíuverð á hverjum tíma. Fyrir vikið er líka nánast ógjörningur fyrir olíufyrirtækin að meta hvað skattareglurnar gætu haft í för með sér fyrir rekstur þeirra. En það á svo sem alltaf við um olíuvinnslu – því enginn veit hvert olíuverðið verður í framtíðinni.

Kannski er hárrétt að skattalegt óbragð sé af Drekasvæðinu. Kannski… kannski ekki. Orkubloggið ætlar ekki að kveða upp úr með það.

Atlantis_Semi_Sub

Atlantis_Semi_Sub

En íslensk stjórnvöld verða að sýna smá raunsæi – ef þau vilja í alvöru trekkja bestu og öflugustu olíufyrirtæki heims að Drekanum. Vísbendingar eru um að slíkt raunsæi hafi ekki verið fyrir hendi, þegar skattareglurnar voru samdar.

Það mun líklega seint finnast olía á Drekanum ef hvorki Chevron, Shell eða BP skjóta hér upp kollinum. Það væri a.m.k. mikil heppni – það eru ekki mörg önnur félög sem ráða við slíkt þolinmæðisverk sem djúpvinnslan er. Orkubloggið veit t.d. að snillingarnir hjá Anadarko Petroleum, sem eru framarlega í djúpi Mexíkóflóans, eru ekki að spá í Drekann. Það á við um fleiri félög – og þau bera fyrst og fremst við efnahagsástandinu og lánaþurrðinni. Hafa ekki einu sinni skoðað útboðs-skilmálana. En norska Statoil hlýtur þó að slá til, for fanden.

Stjórnvöld unnu Drekaáætlunina á þeim tíma þegar olíuverðið æddi upp. Af gögnum iðnaðarráðuneytisins má þó ráða, að þar á bæ hafi menn ekki látið glepjast af spám um hækkandi olíuverð til eilífðarnóns. Í ráðuneytinu virðist fólk hafa unnið sína vinnu af skynsemi og vandvirkni. En kannski verið helst til bjartsýnt – enda var kreppa þá ekki í spilunum

Deepwater_offshore_Oil

Deepwater_offshore_Oil

Fyrir vikið er etv. eðlilegt að menn hafi haldið að öll helstu olíufélög heimsins kæmu æðandi um leið og fréttist af opnun Drekans. Þrátt fyrir þrönga útboðsskilmála. En svo steinféll verðið. Og einhver mesta kreppa nútímans skall á. Íslands óhamingju verður allt að vopni.

Djúpvinnslan er helsta vonin til að viðhalda og auka olíuframleiðslu í heiminum. En munum það að Drekasvæðið er ekki eina olíusvæði heimsins. Menn hafa úr mörgum öðrum kostum að velja, þegar þeir meta hvar þeir vilja ráðast í óhemju fjárfestingar i olíuleit.

Drekasvæðið er t.d. í samkeppni við megasvæði eins og landgrunn Angóla og hið dásamlega landgrunnsdýpi Sambaríkisins Brasilíu. Og nýju olíusvæðin djúpt útí Mexíkóflóanum.

Deepwater_Triangle

Deepwater_Triangle

Þessi þrju djúpsvæði eru stundum nefnd hinn gullni djúpolíu-þríhyrningur (sbr. gula, fjólubláa og ljósbláa svæðið á myndinni hér til hliðar). Sem sagt ekki Þingvallahringurinn via Gullfoss og Geysi!

Nú á eftir að koma í ljós hvort djúpvinnslan fari líka vaxandi hér í Norðrinu. Samkvæmt fréttum RÚV í kvöld hefur „hópur olíufyrirtækja“ nú þegar verið í sambandi við Orkustofnun og sýnt olíuleit á Drekasvæðinu áhuga. Við verðum bara að bíða og sjá hvaða raunverulegi áhugi verður á Drekasvæðinu. Það ætti að koma í ljós eftir rétt rúma þrjá mánuði.

——————————–

PS: Myndarnar sem fylgja þessari færslu eru m.a. af nokkrum uppáhalds borpöllum Orkubloggsins. Þ.á m. hinum glæsilegu flotpöllum Atlantis og Thunder Horse.

Og teiknaða myndin ofarlega í færslunni sýnir dæmigert FPSO-olíuvinnslukerfi. Sem yrði hugsanlega notað á Drekasvæðinu ef þar verður einhvern tíma unnin olía.

Fleira áhugavert: