Noregur – Orkupakki 4, sæstrengur
Grein/Linkur: Orkupakki 4 í dvala
Höfundur: Bjarni Jónsson
.
.
September 2022
Orkupakki 4 í dvala
Það er að vonum á örlagatímum, þegar orkan í öllum sínum myndum er í brennidepli, að umræðan um Orkupakka 4 (OP4), nýjustu endurskoðun Evrópusambandsins (ESB) á orkulöggjöf sinni, hafi um sinn hafizt aftur í Noregi. Annar stjórnarflokkurinn, Senterpartiet (Sp-Miðflokkurinn) hefur nú samþykkt í flokksstofnunum sínum að leggjast gegn innleiðingu þessarar ESB-orkulöggjafar í norskan rétt. Þar með er loku fyrir það skotið, að núverandi ríkisstjórn Noregs muni samþykkja, að OP4 verði vakinn úr dvala á vettvangi EFTA, og þar með verður hann ekki tekinn á dagskrá Sameiginlegu EES-nefndarinnar, sem fjallar um alla löggjöf ESB, sem Sambandið vill, að EFTA-lönd EES-samningsins innleiði hjá sér.
Nú hefur hinn stjórnarflokkurinn, Verkamannaflokkurinn (Ap-Arbeiderpartiet), og aðrir flokkar á Stórþinginu, sem á sínum tíma greiddu götu OP3 inn í norskan rétt, áttað sig á því, að ekki eru öll 8 skilyrði þeirra fyrir að fallast á norska innleiðingu OP3 uppfyllt, eins og andstæðingar OP3 sögðu raunar fyrir um. Ap hélt því fram, að opinbert eignarhald á mörgum vænum virkjunum og Statnett, sem á allar millilandatengingarnar við Noreg, mundi duga til að varðveita stjórnunarrétt ríkisins á nýtingu orkulinda Noregs. Annað er nú komið á daginn.
Vatnsstaða miðlunarlóna austanverðs og sunnanverðs Noregs er svo lág núna m.v. árstíma, að samhljómur er á meðal stjórnmálamanna um, að nú sé brýnt fyrir Noreg að hætta að flytja raforku til útlanda, á meðan safnað sé vetrarforða í miðlunarlónin. Hvað gerist þá ? ACER-Orkustofa ESB neitar að láta stjórnun millilandaflutninganna af hendi, og ESA-Eftirlitsstofnun EFTA, sem á að fylgjast með framfylgd EES-samningsins í EFTA-löndunum, rýkur út með opinbera tilkynningu um, að yfirtaka norskra stjórnvalda á stjórnun orkuflutninga millilandatenginga muni verða túlkuð af ESA sem brot á EES-samninginum og muni framkalla alvarleg mótmæli frá ESA og, ef nauðsyn krefur, að norska ríkið verði dregið fyrir EFTA-dómstólinn til að svara fyrir gjörninginn.
Þessi hjálparvana staða norska ríkisins í orkumálum kemur á versta tíma fyrir stjórnmálaflokkana, sem studdu OP3 árið 2018, því að raforkuverðið hefur hækkað upp úr öllu valdi í framangreindum landshlutum, þar sem vatnsstaða miðlunarlónanna er bágborin og áhrifa millilandastrengjanna gætir á raforkumarkaðinn. Athuguð var staða miðlunarlóna í % af hámarksfyllingu 09.09.2022 og raforkuverð í ISK/kWh 10.09.2022:
- Austurlandið——67,1 %——57,6 ISK/kWh
- Suðurlandið——-50,3 %——57,6 ISK/kWh
- Vesturlandið——69,8 %——57,6 ISK/kWh
- Mið-Noregur——-83,1 %——15,5 ISK/kWh
- Norður-Nor——–92,0 %——-5,7 ISK/kWh
Lónfylling í Noregi í heild er aðeins 68,5 % og lækkandi, sem er ófullnægjandi forðastaða fyrir veturinn. Hún er lökust, þar sem áhrif hinna öflugu sæstrengja til útlanda eru mest, en verðáhrifa millilandatenginganna gætir alls staðar, nema í Norður-Noregi. Þar er lónsstaðan og heildsöluverð raforku á svipuðu róli og á Íslandi um þessar mundir.
Með hliðsjón af þessari reynslu Norðmanna er með eindæmum að hlýða á einn af framkvæmdastjórum Landsvirkjunar í kvöldfréttum RÚV 08.09.2022 halda því fram, að óljóst sé, hver verðáhrif millilandatengingar með aflsæstreng frá Bretlandi eða meginlandinu til Íslands yrðu hérlendis. Þau yrðu háð flutningsgetu millilandatengingarinnar og vatnsstöðunni hér, en t.d. 1000 MW sæstrengur mundi hafa róttæk áhrif á vatnsstöðu íslenzkra miðlunarlóna til hins verra í núverandi markaðsstöðu, því að nánast alltaf væri arðsamara út frá þröngum sjónarmiðum virkjanaeigenda að selja raforkuna utan en innanlands. Sá gjörningur yrði hins vegar ekki þjóðhagslega hagkvæmur, því að raforkuverðið hér mundi togast upp í áttina að verðinu erlendis, eins og reyndin er í Noregi, þar sem allt að tíföldun raforkuverðs er afleiðing millilandatenginganna um þessar mundir. Tíföldun raforkuútgjalda heimila og almennra fyrirtækja hefði skelfileg efnahagsáhrif hér og mundi stórskaða samkeppnisstöðu, sem þegar á í vök að verjast. Hlutverki Landsvirkjunar samkvæmt lögum um hana yrði þá bókstaflega snúið á haus. Það verður tafarlaust að gera þá lágmarkskröfu til stjórnenda Landsvirkjunar, að þeir mæti ekki ólesnir í tíma, heldur geri sér grein fyrir þessum sannindum, sem nú eru fyrir framan nefið á þeim í Noregi.
Á Íslandi er nú miklu meiri spurn eftir raforku en framboð, og þannig mun staðan fyrirsjáanlega verða allan þennan áratug. Þegar af þeirri ástæðu er tómt mál að tala um að tengja raforkukerfi landsins við útlönd. Hér þarf nú að bretta upp ermar og hefja virkjunarframkvæmdir, sem eitthvað munar um. Það er nóg af kaupendum, sem vilja greiða nógu hátt verð fyrir rafmagn til nýtingar á Íslandi, til að nánast allir virkjunarkostir hérlendis gætu verið afar afar arðsamir.