Íbúar Hofsóss mega nú búast við að fá heitt vatn til sín á næstu árum.
Heitt vatn fannst í miklum mæli í Hrollleifsdal í austanverðum Skagafirði, svo mikið að vænta má þess að bið íbúa á Hofsósi og nágrenni eftir hitaveitu sé brátt á enda.

Boranir á vegum Skagafjarðarveitna í austanverðum Skagafirði hafa staðið yfir frá því í byrjun september, fyrst í Deildardal en síðar í Hrollleifsdal, nánar tiltekið í landi jarðarinnar Bræðraár, um 18 km frá Hofsósi.

Íslenskar orkurannsóknir, ÍSOR, höfðu annast rannsóknir vegna leitarinnar, undir stjórn Kristjáns Sæmundssonar jarðfræðings. Ræktunarsamband Flóa og Skeiða boraði holuna.

Í tilkynningu frá sveitarfélaginu er haft eftir Sigrúnu Öldu Sighvats, stjórnarformanni Skagafjarðarveitna, að fundist hafi um 20-30 sekúndulítrar af allt að 90° heitu vatni. Er það meira en vonir stóðu til.

Borholan er 900 metra djúp og í henni tvær heitar æðar.

Nánari mælingar á nýju borholunni fóru fram um helgina á vegum ÍSOR og fyrr er ekki hægt að slá neinu föstu um málið.

10% landsmanna með rafhitun

Á vef ÍSOR segir að með hitaveitu á Hofsósi fækki þeim byggðarlögum á landinu sem enn hafi ekki fengið heitt vatn. Nú njóti nærri 90% landsmanna þeirra gæða. Árlega ver ríkið um 1 milljarði króna til að niðurgreiða rafmagn til húshitunar hjá þeim 10% landsmanna sem búa við rafhitun.

„Því eru það augljóslega miklir hagsmunir ríkissjóðs og viðkomandi byggðarlaga að haldið sé áfram markvissum jarðhitarannsóknum á þeim stöðum sem enn hafa ekki fengið hitaveitu og fjármagn til þeirra verði tryggt,“ segir á vef Íslenskra orkurannsókna.