Noregur, sagan – Hvernig olíuævintýrið byrjaði

Grein/Linkur: Besta jólagjöf Norðmanna

Höfundur: Ketill Sigurjónsson

Heimild: Orkubloggið

.

.

Besta jólagjöf Norðmanna

Sumir halda að Norðmenn hafi barrrasta orðið olíuþjóð léttilega. Nánast þegjandi og hljóðalaust. Í reynd þurftu menn þar að fara í gegnum langt og erfitt leitartímabil. Þar sem mikil áhætta var tekin og alger óvissa var um árangurinn. Rétt eins og núna gildir í djúpvinnslunni.

Norðursjórinn var á sínum tíma einhver dýrasta og flóknasta olíuleit sem menn höfðu látið sér koma til hugar. Í dag er Norðursjórinn barnaleikur miðað við olíuvinnsluna á djúpi Mexíkóflóans, Gíneuflóans og utan við strendur Brasilíu.

Suez_crisis

Suez_crisis

Nú þegar Ísland er í þann mund að opna fyrir olíuleit a íslenska landgrunninu, er tilefni til að líta til baka og rifja upp hvernig olíuævintýrið á norska landgrunnin byrjaði.

Þegar Egyptar gerðust svo ósvífnir að sýna Vesturlöndum puttann með því að þjóðnýta Súez-skurðinn 1956, voru ¾ af allri olíuþörf Evrópu skyndilega í uppnámi. Þó svo olíufélög Vesturlanda réðu á þessum tíma yfir öllum helstu olíulindum í Saudi Arabíu, Íran, Írak og annars staðar í Mið-Austurlöndum, var ekki lengur hægt að treysta á að olían kæmist á áfangastað í tæka tíð. Þess vegna fór allt á fullt að leita að olíu í eigin lögsögu.

Groningen_pipeline

Groningen_pipeline

Ástæða þess að menn tóku upp á því að veðja á Norðursjó, upp úr 1960, var að gas fannst í hollenskri jörð. Sá fundur gaf vísbendingu um að Norðursjórinn gæti mögulega geymt einhverja olíudropa.

Í vor verður einmitt haldið upp á 50 ára afmæli gasfundarins mikla í Groningen í Hollandi. Það var vorið 1959 að borinn þar hitti á risastóra gaslind á flatneskjunni nálægt hollenska bænum Slochteren.

Næstu áratugina átti þessi gaslind við Slochteren, sem er ein sú stærsta í heimi, eftir að mala gull fyrir Shell og Esso og síðar einnig Exxon / ExxonMobil. Og hefur allan þennan tíma verið mikilvæg tekjulind fyrir Hollendinga. Enn þann dag í dag er Slochteren ein af öflugustu gaslindum veraldar, þó framleiðslan þar sé nú aðeins farin að minnka.

Fyrst að svo svakalega mikið gas reyndist vera þarna rétt við hollensku ströndina, gat þá ekki eins verið að finna mætti gas og jafnvel olíu á grunninu utan við ströndina? Menn fóru að píra augun út yfir grynningarnar með glampa í augum og slef í munni. Já – Slochteren-brunnurinn í Groningen átti svo sannarlega eftir að marka nýtt upphaf í olíubransanum. Rétt eins og Spindletop-brunnurinn í Texas 1901 og Damman7-brunnurinn í Saudi Arabíu 1938 höfðu áður gert.

Zapata_Oil_Rig

Zapata_Oil_Rig

Um og upp úr 1960 var olíuvinnsla úr hafsbotni ennþá lítt reynd og einungis stunduð á örfáum stöðum í heiminum. Og þá á mjög litlu dýpi rétt við ströndina; aðallega við strendur suðurríkja Bandaríkjanna.

Meðal þeirra sem þar ösluðu útí sjó var t.d. Zapata Oil, sem stofnað var af George nokkrum Bush – sem sumir kannast við. Zapata rann síðar inní Pennzoil, sem var svo keypt af Shell og allt leiddi þetta til þess að Bush-fjölskyldan auðgaðist mikið.

En þarna á grunnsvæðum Mexíkóflóans voru aðstæður allt aðrar og auðveldari en í Norðursjó. Og menn voru að vinna olíuna á um eða innan við 50 metra hafdýpi. Í Norðursjónum þurfti aftur á móti að fara lengra út og á meira dýpi. Og þó svo fellibyljirnir séu árviss viðburður við strendur Mexíkóflóa, var miklu vandasamara að berjast við vetrarveðrin í Norðursjónum. Þess vegna var Norðursjórinn mikil áskorun. Alveg jafn mikið stórmál, eins og djúpvinnslan er í dag.

Árið 1959 vissi enginn af þeim miklu olíu- og gaslindum sem sváfu værum svefni undir botni Norðursjávar. Og út af fyrir sig var spenningurinn yfir því að finna einhvern gasbelging, eins og í Groningen, ekkert yfirþyrmandi. Gas nam þá einungis innan við 2% af orkunotkuninni í Vestur-Evrópu. Skipti sem sagt ekki mjög miklu. Menn fóru ekki að meta gasið að verðleikum fyrr en í olíukreppunni 1973-74 – þá var allt í einu farið að tala um „bláa gullið“. Fyrir þann tíma var það góða við gasið fyrst og fremst sú staðreynd að þar sem er gas er oft líka að finna olíu.

North-sea

North-sea

Gasið í Groningen kveikti þess vegna í mönnum, sem hugsuðu til olíunnar. Tilhugsunin um hrakfarirnar við Súez fékk svitann til að spretta fram á mörgu bresku og frönsku stjórnmálaenni. Ef olía kynni að leynast undir Norðursjónum gæti það reddað Vestur-Evrópu.

Holland, Vestur-Þýskaland og Danmörk gengu nú í að semja um lögsögumörk á svæðinu, en enduðu með málið fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag. Bretland og Noregur áttu auðvitað einnig lögsögu að Norðursjó, en þar var enn ekki farið að hvarfla að mönnum að bora. Allt of mikið dýpi – aðeins draumóramenn sáu fyrir sér eldspúandi borpalla þarna úti á „djúpinu ægilega“. Næstum því hundrað metrar!

Norðmenn voru fyrst og fremst fiskveiði- og landbúnaðarþjóð, auk þess reyndar að hafa verið nokkuð duglegir við að byggja upp iðnað á 20. öldinni. En fátt benti til þess að einhver meiriháttar umskipti væru í vændum í norsku atvinnulífi. Og Norsararnir voru bara nokkuð sáttir með sitt hlutskipti þarna í kringum 1960. Varla hafði hvarflað að Norðmönnum að olía gæti fundist á norska landgrunninu. Hvað þá að hægt yrði að ná henni upp með góðu móti.

Phillips_Petroleum_logoÞá bar það til tíðinda, að norsk stjórnvöld fengu óvænt bréf alla leið vestan frá Oklahóma í Ameríku. Undirritað af forstjóra Phillips Petroleum, sem þá var eitt af stærri olíufélögum heimsins (Phillips er nú hluti af hinu risastóra olíufélagi ConocoPhillips). Þetta var árið 1962.

Í bréfinu góða stóð að þeir hjá Phillips væru bjartsýnir um að unnt væri að finna vinnanlega olíu og gas á norska landgrunninu. Og fóru vinsamlegast fram á einkaleyfi að allri vinnslu þar.

Þeir ljúflingarnir hjá Phillips munu hafa boðist til að greiða 160 þúsund dollara mánaðarlega fyrir einkaleyfið. Þetta vakti Norðmenn upp af dvalanum. Forsætisráðherrann Einar Gerhardsen og félagar hans létu þó olíudraumana ekki æsa sig um of. Enda voru þeir meðvitaðir um hvernig sögur norsku landnemana í Vesturheimi um gull og gnægð veiðidýra höfðu reynst lygin ein. Nei – eitt bréf vestan af amerísku sléttunum var ekkert til að æsa sig yfir.

Fyrst og fremst leist Norðmönnum illa á þá hugmynd á að láta eitt fyrirtæki um alla hugsanlega olíuvinnslu í lögsögu þeirra. Þeir ákváðu þess í stað að hefja sjálfir ítarlega skoðun á möguleikunum.

Þegar leið á 7. áratuginn komst smám saman hreyfing á hugsanlega olíuvinnslu á norska landgrunninu. Menn gengu nú í það verkefni að semja um skiptingu landgrunnsins; þar þurftu Norðmenn að semja við Breta og Dani. Þeim samningum lauk 1965.

Phillips_Lisenser

Phillips_Lisenser

Í apríl 1965 voru svo fyrstu leitarleyfin boðin út á norska landgrunninu. Þá áttu eftir að líða 44 ár þar til Íslendingar hófu samskonar ferli. Og einmitt þetta sama ár – 1965 – fannst fyrsta olían í Norðursjó. Það var í hollenskri lögsögu þar sem dýpi Norðursjávar er hvað minnst.

Auðvitað fékk Phillips Petroleum nokkur af þeim olíuleitarleyfum, sem úthlutað var í fyrstu atrennu á norska landgrunninu (Phillips-leyfin eru merkt með rauðu hér á kortinu). Nú hófst umfangsmikil olíuleit um allan Norðursjóinn. Í Noregi kom norska ríkisfyrirtækið Norsk Hydro að leitinni og fékk til samstarfs við sig reynd olíufélög eins og BP og líka Elf og fleiri frönsk olíufélög. Þessi félög voru þegar komnir með reynslu af olíuleit á breska landgrunninu.

Annar norskur player á upphafsárum olíuleitar á norska landgrunninu var Saga Petroleum, sem þróaðist úr samstarfi nokkurra norskra fyrirtækja. Svo var Statoil – Den Norske Stats Oljeselskap – stofnað 1972 í því skyni að norska ríkið yrði þátttakandi í olíuvinnslu á landgrunninu og byggði upp norska þekkingu á olíuiðnaðinum.

sam_eydeNorðmenn höfðu þá þegar mikla reynslu af t.d. byggingu vatnsaflsvirkjana og áburðarverksmiðja, en það iðnaðarævintýri átti rætur sínar að miklu leyti í norska athafnamanninum Sam Eyde og fyrirtæki hans Norsk Hydro (Norsk hydro-elektrisk Kvælstofaktieselskab, sem síðar var einfaldlega kallað Hydro). Eyde var samtíðarmaður Einars Ben og mikill frumkvöðull, eins og hefur áður verið sagt frá hér á Orkublogginu. Norsk Hydro varð síðar eitt stærsta álfyrirtæki í heimi. Rétt eins og Íslendingar byggðu upp sitt eigið álfyrirtæki (smá kaldhæðni).

Þannig má segja að Sam Eyde hafi í upphafi 20. aldar lagt grunninn að því að Norðmenn tóku hálfri öld síðar olíuvinnsluna á norska landgrunninu að verulegu leyti í sínar eigin hendur. Í stað þess að verða „olíunýlenda“ stóru bandarísku og bresku olíufélaganna, eins og flest öll olíuríkin í Mið-Austurlöndum voru á þessum tíma. Í dag er meira að segja verið að endurvinna Írak sem olíunýlendu Vesturlanda, en þar hefur Shell nú nýlega einmitt fengið einkaleyfi á olíuvinnslu á stóru svæði í suðurhluta Írak.

Statoil_Hydro_logoNei – norsku skotthúfurnar vildu ekki verða olíunýlenda. Þess vegna gengu þeir sjálfir í að skipuleggja olíuvinnslu á landgrunninu sínu. Árið 2007 sameinuðust svo risarnir Statoil og Hydro. Ætli Orkuveita Reykjavíkur eða Landsvirkjun séu farin að spá í Drekasvæðið?

Þegar fyrstu leitarleyfin á norska landgrunninu voru auglýst um miðjan 7 áratuginn reyndist mikill áhugi fyrir hendi. Auðvitað var áðurnefnt Phillips Petroleum meðal umsækjenda. Einnig olíufélög eins og bandarísku Amoco (nú hluti af BP) og Esso (nú huti af ExxonMobil), frönsku félögin Total og Elf (nú hluti af Total), og bresk-hollenska Shell.

En olíuleit á norsku landgrunninu var ekki aldeilis eins og að drekka vatn. Aldrei áður hafði verið leitað að olíu við svo erfiðar aðstæður.

ocean_viking

ocean_viking

Olíuvinnsla á hafsbotni hafði vissulega lengi þekkst utan við strendur Bandaríkjanna. En skilyrðin í Norðursjó voru allt önnur og langtum erfiðari. Menn höfðu aldrei kynnst öðru eins veðravíti í olíuleit, þungum straumum og miklu dýpi.

Enda fór það svo, að lengi vel gekk ekkert að finna olíu undir Norðursjónum. Fyrsti brunnurinn var boraður sumarið góða 1966 – einmitt þá sömu daga og Orkubloggarin skreið nakinn og blautur í þennan heim. En olíubrunnurinn sá reyndist þurr og það leið enn talsveður tími þar til eitthvað markvert gerðist.

Einhverjar sögur fara af því að Esso hafi fundið olíu á norska landgrunninu 1967. En það var smotterí og reyndist vonbrigði. Menn voru að missa móðinn.

Ocean_viking_2

Ocean_viking_2

En svo kom að því síðla árs 1969, að mikil tímamót urðu í norskri hagsögu. Þeir hjá Phillips voru þá u.þ.b. að gefast upp á leitinni – ætluðu að byrja að pakka niður borpallinum Ocean Viking. En ákváðu að gera eina tilraun í viðbót – sem skyldi verða sú alra síðasta.

Og viti menn – rétt eins og i góðu jólaævintýri rættust nú skyndilega villtustu draumar þeirra og Norðmanna. Þrátt fyrir brjálað veður og 15 metra ölduhæð í hinum dimma desember. Á um 1,6 km dýpi undir hafsbotninum á svæði sem kallað var Ekofisk urðu menn varir. Á sjálft aðfangadagskvöld 1969 stóðu skyndilega logarnir út frá Ocean Viking borpallinum, þegar olían streymdi upp öllum að óvörum.  Í öllum hamaganginum kviknaði í henni og meðfylgjandi gasi, en snillingunum á Ocean Viking tókst að höndla það og ná tökum á þessum óvænta eldi. Ævintýrið var byrjað og kannski má segja að Norðmenn hafa sjaldan átt jafn góð jól og þá.

Ocean_viking_kontrolrom

Ocean_viking_kontrolrom

Þetta mun hafa verið 38. brunnurinn sem boraður var í Norðursjónum. Sumarið eftir, 1970, gátu þeir hjá Phillips endanlega staðfest að þarna væri sko ekkert smáræði af olíu á ferðinni. Þetta væri sannkölluð risalind með a.m.k. 1 milljarð tunna af olíu. Síðar átti eftir að koma í ljós að á Ekofisk-svæðinu voru tveir milljarðar tunna af vinnanlegri olíu.

Og nú hreinlega sprakk Norðursjórinn út, rétt eins og fegursta vatnalilja. Árið 1971 streymdi fyrsta olían um nýju vinnslukranana hjá Phillips þarna á Ekosfisk. Það var forsætisráðherrann Tryggvi Bratteli, sem fékk þann heiður að skrúfa frá bununni. Olíuævintýri Norðmanna var orðið að veruleika – draumurinn hafði ræst. Þó svo menn gerðu sér á þeim tímapunkti vart grein fyrir því hversu stórt og mikið það ævintýri átti eftir að verða. Þetta sama ár – 1971 – fann BP olíulind Bretlandsmegin við lögsögumörkin. Og nú fannst hver lindin af fætur annarri í Norðursjó; Brent, Valhöll, Frigg…

Norway_Petroleum_Products

Norway_Petroleum_Products

Á þeim tæpu fjóru áratugum sem liðnir eru síðan þá, hefur um 21,4 milljörðum tunna af olíu (og 8,2 milljörðum olíutunna af gasi, þ.e. olíuígildi af gasi) verið dælt upp úr norska landgrunninu. Þessar tölur miðast við nóvember 2008 og eru fengnar milliliðalaust frá stjórnvöldum olíumála í Noregi. Orkubloggið reynir að vera up-to-date.

Bara Ekofisk-svæðið eitt hefur skilað tekjum upp á meira en 1.100 milljarða norskra króna, til þessa dags. Og þó svo öll helstu olíufélög heims hafi komið að vinnslu á norska landgrunninu, hefur enginn fjárfest þar jafn mikið og norska ríkið sjálft. Með afar góðri ávöxtun.

Í dag eru elstu olíusvæði Norðmanna í Norðursjó, svo sem Ekofisk og Frigg, á nokkuð hraðri niðurleið. Síðustu árin hefur heildarframleiðslan á landgrunni Noregs minnkað talsvert, frá því hún fór hæst upp úr aldamótunum. Slefaði þá yfir 3 milljón tunnur á dag.

Norway_Oil_1970-2005

Norway_Oil_1970-2005

Stutt er síðan norsku skotthúfurnar sáu fyrir sér að olíuframleiðsla þeirra myndi senn fara í um 4,4, milljón tunnur. Sumir Norðmenn voru byrjaðir kalla Noreg Kuwait norðursins.

Það var líklega helst til mikil bjartsýni. Þó svo olíuframleiðsla Norðmanna og Kuwait sé ekki ósvipuð, eru þekktar olíubirgðir í Kuwait miklu, miklu meiri. Í reynd lítur út fyrir að olíuframleiðsla Noregs hafi náð toppi í 3 milljón tunnum fyrir fáeinum árum. Í dag er olíuframleiðsla í norsku lögsögunni „einingis“ 2,3 miljón tunnur á dag (meðaltal fyrir 2008). Og horfur á að framleiðslan minnki hratt héðan af.

Minnkandi olíuvinnsla og lágt olíuverð nú um stundir þýðir þó ekki að Norðmenn sé á leiðinni down the drain alveg strax. Því gasvinnsla þeirra er á hraðri uppleið.

Norway_oil+gas

Norway_oil+gas

Norðmenn eiga eftir að njóta mikils arðs næstu áratugina af gasframleiðslu sinni og nýjum gaslindum í Barentshafi. Heildarframleiðsla á norskri olíu og norsku gasi gæti jafnvel haldið í horfinu a.m.k. fram til 2020. Og kannski lengur.

Og nú er bara að sjá hvort Drekasvæðið komi okkur í sama flokk og Norðmenn eru í. Og geri okkur að einni ríkustu þjóð heimi. Eða ríkustu. Með ofurgjaldmiðilinn ISK. Geisp.

Fleira áhugavert: