Endurheimt votlendis – Á við losun 800 bíla árlega
Grein/Linkur: Losun frá tveimur jörðum sögð jafnast á við 800 bíla
Höfundur: Kjartan Kjartansson, Vísi
.
.
Október 2002
Losun frá tveimur jörðum sögð jafnast á við 800 bíla
Votlendi sem var endurheimt á tveimur jörðum á vestanverðu landinu í haust er sagt hafa stöðvað losun á um 1.600 tonnum af koltvísýringi á ári. Það jafnast á við losun frá 800 fólksbílum árlega.
Í tilkynningu frá Votlendissjóði, sem vinnur að því að endurheimta votlendi sem hefur verið ræst fram, kemur fram að áttatíu hektarar votlendis hafi verið endurheimtir á jörðunum Berserkseyri við Kolgrafarfjörð á Snæfellsnesi og Móbergi á Rauðasandi á Vestfjörðum í haust. Sú fyrrnefnda er um þrjátíu hektarar en sú síðarnefnda um fimmtíu.
Sjóðurinn segist nú bíða samþykkis sveitarstjórna í Flóahrepp og Árborg fyrir endurheimtarverkefnum þar. Í vor var greint frá því að framkvæmdaleyfi hefði fengist fyrir endurheimt á landi Brekku á Ingjaldssandi á Vestfjörðum. Gagnrýndi sjóðurinn þá hversu langur afgreiðslutími á slíkum leyfum væri. Umsóknir fyrir Brekku og Berserkseyri voru báðar sendar inn síðsumars 2021.
Framræst votlendi er talið stærsta einstaka uppspretta gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Þegar mýrarjarðvegur kemst í snertingu við loft þegar votlendi er þurrkað upp byrjar hann að rotna og losa koltvísýring út í andrúmsloftið. Þegar vatni er aftur hleypt á votlendi stöðvast niðurbrotið tiltölulega hratt því súrefni er ekki lengur til staðar fyrir örverur sem brjóta jarðveginn niður.