Landsvirkjun, sagan – 40 milljarða tap

Grein/Linkur: Silfrið II: Landsvirkjun

Höfundur: Ketill Sigurjónsson

Heimild: Orkubloggið

.

.

April 2009

Silfrið II: Landsvirkjun

Eftirfarandi eru glærur sem birtust í Silfrinu í tengslum við umfjöllun um Landsvirkjun.

Þetta voru tvær glærur, sem birtust vegna Landsvirkjunar. Sú fyrri beindist að því hvert tap fyrirtækisins var á liðnu ári. Lítið hefur borið á því að mönnum þyki þetta umtalsvert tap. Litlir 40 milljarðar íslenskra króna. Þykir varla fréttnæmt. Jafnvel þó svo þetta nemi hátt í fjórðungi af öllu eigin fé fyrirtækisins um síðustu áramót.

Ef litið er til afkomu íslenskra fyrirtækja í gegnum tíðina, kemur í jós að líklega er þetta tap Landsvirkjunar á síðasta ári einfaldlega eitt stærsta tap í Íslandssögunni. Áframhaldandi tap af þessu tagi myndi kíla all svakalega niður eigið fé Landsvirkjunar á tiltölulega stuttum tíma. Ennþá geta menn þó staðið keikir og bent á þá staðreynd að eiginfjárstaða fyrirtækisins er mjög sterk.

Samson_hopurinn

Samson_hopurinn

Íslendingar kunna reyndar að vera orðnir dofnir gagnvart svona háum taptölum. Ekki síst eftir hroðalega útreið fyrirtækja útrásarvíkinganna. Fyrirtækja eins og t.d. FL GroupEimskips og Straums. Eins og sá má á glærunni hér að ofan, hefur Íslandsmetið í tapi verið slegið hratt undanfarin misseri – fyrir vikið þykir 40 milljarða tap kannski ekkert tiltökumál.

Svona eru tölur nú afstæðar og tilfinningin fyrir þeim breytileg. Ekki eru mjög mörg ár liðin frá því mönnum nánast lá við yfirliði, þegar Þorsteinn Vilhelmsson seldi hlut sinn í Samherja fyrir einhverja 3,5 milljarða eða svo. Var það ekki örugglega árið 2000? Og svo var það að þríeykið glæsilega seldi bjórfyrirtækið sitt í Skt. Pétursborg fyrir 400 milljónir dollara. Það jafngildir í dag næstum 48 milljörðum ISK, en nam á þáverandi gengi líklega um 35 milljörðum.

Silfrid_Ketill_5

Silfrid_

M.ö.o. tapaði Landsvirkjun á liðnu ári álíka upphæð og söluverðið var á Bravo-bjórveldinu. En í dag þykja svona upphæðir bara smotterí eða hvað? Það er kannski ekki skrítið. Ógnin sem steðjar að Landsvirkjun er nefnilega önnur. Þó svo eigið fé fyrirtækisins rýrni hratt þessa dagana, er það ekki vandamál dagsins.

Ekki er hægt að horfa framhjá þeim möguleika, að Landsvirkjun lendi í greiðsluþroti. Þrátt fyrir öfluga eiginfjárstöðu. Að fyrirtækið geti ekki staðið við að greiða afborganir af skuldum sínum og lánin verði gjaldfelld. Staða Landsvirkjunar núna, er kannski ekki ósvipuð, eins og hjá íslenskri fjölskyldu sem notaði tækifærið í góðærinu og fékk sér bæði stærra húsnæði og öflugri jeppa. Á gengistryggðu láni. Munurinn er þó sá, að Landsvirkjun fær stóran hluta tekna sinna í dollurum, sem er eins gott. En á móti kemur gríðarleg lækkun á álverði. Landsvirkjunarfjölskyldan er sem sagt að sligast undan Kárahnjúkavillunni og Hummernum þar í heimreiðinni.

Það yrði ekki lítill skellur. Landsvirkjun skuldar u.þ.b. 3,2 milljarða USD; um 380 milljarða íslenskra króna! Fyrirtækið skuldar m.ö.o. sem nemur u.þ.b. tíu sinnum söluverð Bravo-veldisins í Rússlandi. Skuldin samsvarar næstum því 1,2 milljónum ISK á hvert einasta mannsbarn á Íslandi. Þar með taldir hvítvoðungarnir, sem fæddust nú í nótt.

Vonandi fyrirgefst Orkubloggaranum að þykja þetta hið versta mál. Ef Landsvirkjun lendir í greiðsluþroti, sem nú virðist alls ekki útilokað, fellur þessi skuldbinding á ríkið. Litlar 380 þúsund milljónir króna.

steingrimur_j_sigfusson

steingrimur_j_sigfusson

Undarlegast þykir þó bloggaranum kæruleysið sem fjármálaráðherra virðist sýna þessu máli. Hann ber hina pólitísku ábyrgð á velferð Landsvirkjunar. Ekki hefur heyrst af því að hann hafi minnstu áhyggjur af ástandinu. Enda er nú kosningabarátta á fullu og enginn tími til að vera a velta vöngum yfir vandræðum hjá Landsvirkjun. Vonandi er nýskipuð stjórn Landsvirkjunar meðvitaðri um þá miklu ógn sem nú steðjar að fyrirtækinu.

Fleira áhugavert: